Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Greint var frá því í gær að Henry Kissinger, fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefði látist á heimili sínu í Connecticut á miðvikudaginn, 100 ára að aldri. Fáir hafa markað jafndjúp spor í utanríkisstefnu Bandaríkjanna og Kissinger, en Richard Nixon skipaði hann fyrst sem þjóðaröryggisráðgjafa sinn árið 1969 og síðar sem utanríkisráðherra 1973. Kissinger gegndi því embætti undir Gerald Ford eftir að Nixon sagði af sér vegna Watergate-málsins og sat þar til Jimmy Carter tók við forsetaembættinu í janúar 1977.
Þrátt fyrir að Kissinger gegndi ekki aftur ráðherraembætti, leituðu flestir af síðari Bandaríkjaforsetum ráða hjá Kissinger um hin ýmsu utanríkismál. George W. Bush fyrrverandi Bandaríkjaforseti sagði í gær að Bandaríkin hefðu glatað einni áreiðanlegustu og mest einkennandi rödd sinni í utanríkismálum.
Kissinger naut einnig mikillar virðingar utan Bandaríkjanna og sendu fjölmargir þjóðarleiðtogar samúðarkveðjur sínar í gær. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði t.d. að Kissinger hefði verið einn af „risum sögunnar“, sem hefði haft ómæld áhrif á samtíma sinn og þann heim sem við búum í dag.
Ótrúlegt lífshlaup
Kissinger fæddist í maí 1923 í Þýskalandi og flúði með foreldrum sínum undan stjórn nasista til Bandaríkjanna árið 1938. Hann sinnti herþjónustu fyrir Bandaríkjaher í síðari heimsstyrjöld, og varð bandarískur ríkisborgari árið 1943. Hinn þýskumælandi Kissinger fékk m.a. það hlutverk að elta uppi fyrrv. meðlimi Gestapo í Hanover, og fékk hann bronsstjörnuna fyrir þjónustu sína þar.
Kissinger lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Harvard árið 1954 og varð þegar einn helsti fræðimaður Bandaríkjanna í alþjóðastjórnmálum og var oft talinn einn helstu framámanna svonefndrar „raunsæisstefnu“ þar. Hann ritaði fjölmargar fræðibækur um alþjóðamál og þróun þeirra, bæði fyrir og eftir stjórnmálaferil sinn, og má þar helst nefna Diplomacy, sem kom út árið 1994, og svo sjálfsævisögurnar Years of Upheaval og Years of Renewal, þar sem hann ræddi feril sinn undir bæði Nixon og Ford.
Sem þjóðaröryggisráðgjafi og síðar utanríkisráðherra talaði Kissinger m.a. fyrir aukinni þíðu í samskiptum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, auk þess sem hann lék lykilhlutverk í að koma á stjórnmálasambandi milli Bandaríkjanna og Kína, sem hafði verið slitið þegar kínverski kommúnistaflokkurinn náði völdum 1948.
Kissinger var ekki síður umdeildur en virtur, en hann hefur m.a. í seinni tíð verið gagnrýndur fyrir aðkomu sína að Víetnamstríðinu. Hefur sú gagnrýni ekki síst beinst að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að víkka stríðið út til Kambódíu með loftárásum á bækistöðvar norðurvíetnamska hersins og Víetkong-skæruliðasamtakanna þar. Þegar loftárásirnar, sem haldið var leyndum fyrir bandarísku þjóðinni, reyndust ekki nóg réðust Suður-Víetnamar og Bandaríkjaher inn í landið árið 1970, en sumir fræðimenn hafa haldið því fram að innrásin hafi greitt götuna fyrir ógnarstjórn Rauðu khmeranna 1975-1979.
Þá var Kissinger einnig gagnrýndur fyrir friðarsamkomulagið í Víetnamstríðinu sem kennt var við París, en hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1973 fyrir þátt sinn í friðarviðræðunum. Samkomulagið skilaði því helst að Bandaríkjaher dró sig frá Suður-Víetnam í skiptum fyrir vopnahlé. Hvorki Norður- né Suður-Víetnam virtu vopnahléið, og féll Suður-Víetnam tveimur árum síðar fyrir sókn Norður-Víetnama.
Kissinger varð hundrað ára í maí síðastliðnum, en hann var þrátt fyrir það virkur þátttakandi í alþjóðamálum fram á síðustu stundu. Hann fundaði t.d. með Xi Jinping forseta Kína í júlí, og lýsti þar yfir áhyggjum sínum af kólnandi samskiptum Bandaríkjanna og Kína.