Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Baltasar Kormákur Baltasarsson, eigandi RVK Studios, hefur gert samning við bandaríska tæknifyrirtækið Apple. Þetta tilkynnti hann á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, í gærmorgun.
Í samtali við Morgunblaðið segir Baltasar að hann geti lítið tjáð sig um samninginn en þetta sé þó stærsta verkefnið sem hann hafi unnið að hingað til.
„Þetta er risastórt verkefni sem Apple er framleiðandi að, en ég má því miður ekki segja meira. Það er kominn samningur en það er ekki búið að tilkynna þetta,“ segir Baltasar.
Tæknifyrirtækið Apple er orðið stórtækt í kvikmyndaframleiðslu en meðal verkefna sem Apple hefur komið að má nefna kvikmyndina Napoleon sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum og Killers of the Flower Moon sem var sýnd nýverið en þar fer Leonardo DiCaprio með aðalhlutverk.
Metþátttaka á fundi Kompanís
Fjölmennt var á morgunverðarfundi Kompanís sem haldinn var í Hádegismóum í gærmorgun. Á fundinn mættu um 130 manns en aldrei hafa svo margir mætt á morgunverðarfund hjá Kompaníi.
Baltasar Kormákur var gestur fundarins og Stefán Einar Stefánsson fjölmiðlamaður ræddi við hann um ferilinn, eftirminnileg augnablik, hindranirnar, Hollywood, kvikmyndageirann á Íslandi og fleira.
Baltasar sagði á fundinum að það hefði ekki verið áætlun hans upphaflega að fara í leiklist eða kvikmyndageirann.
„Ég ætlaði að verða dýralæknir og sótti meira að segja um það nám í skóla erlendis en síðan æxlaðist það þannig að ég fór í leiklistina.“
Fór yfir ferilinn
Baltasar rifjaði upp aðkomu sína að íslensku kvikmyndunum Englum alheimsins, Djöflaeyjunni, Mýrinni og fleirum. Þá fór hann yfir þær áskoranir sem fylgdu því að reyna að hasla sér völl á erlendri grundu á tímum þar sem fyrirmyndir skorti.
„Á þessum tíma var Björk eiginlega eini Íslendingurinn sem hafði gert það gott á erlendri grundu. En í þessu eins og öðru þarf maður bara að taka eitt skref í einu og muna að skrefin aftur á bak geta líka verið lærdómsrík,“ sagði Baltasar.
Hann sagði að það þegar hann gerði sína fyrstu kvikmynd hefði verið helsti vendipunkturinn á ferli sínum.
„Eftir að ég gerði mína fyrstu kvikmynd þá opnuðust fyrstu dyrnar inn í kvikmyndaheiminn erlendis. Maður verður þó að muna að það er eitt að dyrnar opnist, svo er annað mál hvort maður funkeri innan þeirra.“
Baltasar fór yfir helstu áskoranirnar á ferlinum, tengslanet sitt erlendis og Hollywood.
Mörg járn í eldinum
Tilkynnt var á dögunum að Baltasar Kormákur og fyrirtæki hans RVK Studios myndu hafa yfirumsjón með framleiðslu stórrar sjónvarpsþáttaraðar á vegum sjónvarpsstöðvarinnar CBS um Vilhjálm sigursæla. Baltasar leikstýrir fyrsta þættinum í þáttaröðinni sem tekin verður upp hér á landi eftir áramót.
Hann sagði á morgunverðarfundinum að þættirnir yrðu átta talsins og umfangið væri í kringum 50 milljónir dollara sem samsvarar tæpum 6,9 milljörðum íslenskra króna.
Baltasar hefur undanfarin ár staðið fyrir risavaxinni uppbyggingu kvikmyndavera í Gufunesi.
Á næsta ári er von á kvikmynd sem byggð er á bókinni Snertingu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson en Baltasar Kormákur kom að gerð myndarinnar.
Baltasar sagðist einnig vera með fjölmörg önnur verkefni í bígerð, alls um það bil tuttugu talsins.
„Ég er með mörg verkefni í gangi sem eru öll á mismunandi skala. Ég er meðal annars með sjónvarpsseríur í bígerð, bæði innlendar og erlendar. Ég er með samninga við Universal Studios. Ég er einnig að framleiða mynd eftir Jo Nesbø og er að vinna að endurgerð á bæði Ófærð og Eiðnum. Auk þess er ég að vinna með Ríkisútvarpinu að gerð Sjálfstæðs fólks.“
Öflugur viðskiptaklúbbur
Kompaní er viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is og er ætlað að sameina starfandi fólk á Íslandi. Kompaní er vettvangur miðla Árvakurs til að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu þar sem hægt er að hlýða á fræðslufundi og fyrirlestra, fylgjast með nýjungum og læra af reynslu annarra sem þekkja hvað það er að reka fyrirtæki á Íslandi.
Á fundinum sem fram fór í morgun gæddu gestir fundarins sér á veitingum frá Finnsson Bistro og eftir samtal Baltasars og Stefán Einars tóku þau Regína Ósk og Ásgeir Páll lagið.