Jón Þorgeir Hallgrímsson fæddist í Reykjavík 20. ágúst 1931. Hann lést á heimili sínu Sléttuvegi 17 í Reykjavík 21. nóvember 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Margrét Ingiríður Jónsdóttir talsímavörður, f. 20.8. 1909, d. 4.3. 1984, og Tómas Hallgrímsson Tómasson bankaritari, f. 9.8. 1894, d. 21.3 1967. Systkini Jóns eru Ísak Guðmundur læknir, f. 4.7. 1935, og Kristín Ingiríður, f. 6.2. 1941.

Jón kvæntist Steingerði Þórisdóttur 14. júní 1952. Hún var fædd 9.2. 1935 og lést 12.3. 2015. Foreldrar hennar voru hjónin Steinunn Sveinsdóttir húsmóðir, f. 1.2. 1911, d. 3.12. 2002, og Þórir Kjartansson lögfræðingur, f. 6.6. 1909, d. 12.6. 1974.

Eftirlifandi sambýliskona Jóns Þorgeirs er Guðrún Gyða Sveinsdóttir ferðaráðgjafi, f. 20.3. 1943. Foreldrar hennar voru hjónin séra Sveinn Ögmundsson, f. 20.5. 1897, d. 1.10. 1979, og Dagbjört Gísladóttir, f. 19.5. 1915, d. 3.4. 2006.

Börn Steingerðar og Jóns eru: 1) Ingibjörg Þóra hjúkrunarfræðingur, f. 8.12. 1952. Dóttir hennar og fv. eiginmanns, Kristjáns Víkingssonar læknis, f. 26.6. 1949, d. 21.1. 1982, er Steingerður Gná, á þrjú börn. Seinni eiginmaður Ingibjargar var Hörður Þorvaldsson bifvélavirkjameistari, f. 12.11. 1942, d. 4.1. 2011. Börn þeirra eru Hörn, á tvö börn, og Þorgeir Orri, á tvö börn. 2) Steinunn Guðný bráða- og heimilislæknir, f. 18.9. 1956. Eiginmaður hennar er Frosti F. Jóhannsson þjóðháttafræðingur og fv. framkvæmdastjóri, f. 27.4. 1952. Börn þeirra eru Hallgrímur Snær, á eitt barn, Þorgerður Drífa, á þrjú börn, og Kristrún Mjöll, á tvö börn. 3) Margrét Ingiríður hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 13.3. 1959. Eiginmaður hennar er Kristján Erik Kristjánsson húsasmíðameistari, f. 19.4. 1958. Börn þeirra eru Jón Þorgeir, á eitt barn, Kjartan Darri, á tvö börn, og Kristín Erla Lína, á tvö börn. 4) Þórir lögfræðingur og húsamálari, f. 1.10. 1963. Eiginkona hans er Rannveig Ingibjörg Thejll stuðningsfulltrúi, f. 16.11. 1965. Sonur þeirra er Magnús Birnir. Dóttir Þóris og fv. sambýliskonu, Friðgerðar Ebbu Sturludóttur bókara, f. 4.7. 1965, er Steingerður Sonja. 5) Tómas viðskiptafræðingur, f. 1.10. 1963. Fv. eiginkona hans er Gyða Árnadóttir deildarstjóri, f. 15.10. 1966. Synir þeirra eru Valgeir, á eitt barn, og Styrmir, á tvö börn.

Jón Þorgeir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1959. Hann fór í sérnám til Danmerkur og Svíþjóðar og varð sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp 1966.

Eftir heimkomu úr sérfræðinámi hóf hann störf á fæðingar- og kvensjúkdómadeild Landspítalans, var síðar yfirlæknir sömu deildar og sviðsstjóri kvenlækningasviðs. Þá vann hann á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands um árabil og var einn frumkvöðla í forvörnum krabbameina kvenna. Hann var lektor og síðan dósent í fæðingar- og kvensjúkdómafræðum við læknadeild Háskóla Íslands. Einnig var hann kennari við Ljósmæðraskóla Íslands.

Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa. Hann var m.a. formaður Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, sat í stjórn Félags Norrænna kvensjúkdómalækna, var forseti norrænu krabbameinssamtakanna, sat í læknaráði Landspítalans og var formaður Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Íslands. Jón kynntist golfíþróttinni á Svíþjóðarárunum og var virkur meðlimur í Nesklúbbnum.

Útför Jóns Þorgeirs fer fram frá Neskirkju í dag, 1. desember 2023, klukkan 13.

Pabbi fæddist 1931, á millistríðsárunum, þegar Reykjavík var í mótun en hagsæld eftirstríðsáranna var þó ekki gengin í garð. Hann fæddist á Reykjavíkurvegi 1 í Skerjafirðinum en húsið þurfti síðar að víkja fyrir flugvellinum og var flutt upp á Brúnaveg.

Afi veiktist af berklum þegar pabbi var enn á barnsaldri og það mótaði líf hans mjög og aðstæður ömmu Möggu. Langafi okkar í móðurætt, Jón Magnússon yfirfiskmatsmaður í Reykjavík og útgerðarmaður, innréttaði lítið pakkhús á lóð sinni á Vesturvallagötu 6, sem jafnan var nefnd Lindarbrekka. Þangað fluttu þau afi með börnin þrjú, en hann dvaldi langdvölum á Vífilsstöðum vegna veikinda. Í þessu litla húsi ólst pabbi upp og þar var fyrsti stofnfundur Verkamannafélagsins Dagsbrúnar haldinn sem fáir vita af. Það var líklega menningarslys þegar húsið var rifið á áttunda áratugnum til að rýma fyrir nýrri byggingu. Húsið var þó ekki minna en svo að það rúmaði flygil á efri hæðinni sem pabbi lærði á, en hann hafði mikið yndi af píanóleik allt frá barnæsku. Amma var listræn og spilaði á píanó og naut hann leiðsagnar hennar.

Pabbi var í sveit í Landeyjunum sem snáði og okkur grunar að frændfólk okkar þar hafi borið hann á höndum sér. Þau misstu nefnilega barnungan son, jafnaldra pabba. Ávallt talaði hann af hlýhug um ættingja sína þar.

Annars var pabbi fyrst og fremst Reykvíkingur. Langafi hans var þó Guðmundur Thorgrímsen, faktor á Eyrarbakka, og kona hans var Silvía. Afi pabba í föðurætt var Tómas Hallgrímsson læknir og kennari við Læknaskólann í Reykjavík. Hann dó frekar ungur frá konu sinni, Ástu Júlíu, óperusöngkonu og píanóleikara.

Mamma og pabbi voru bæði Vesturbæingar. Þau áttu gott líf saman og eignuðust okkur fimm systkinin. Innan við þrítugt fóru þau til Kaupmannahafnar með þrjár dætur, þar sem pabbi fór í framhaldsnám, og síðar til Svíþjóðar þar sem bræðurnir fæddust. Við eigum yndislegar minningar frá þeim tíma þar sem þau áttu stóran vinahóp með fjölda barna á okkar reki. Eftir heimkomuna byggðu þau og héldu fallegt heimili í Fossvoginum þar sem gestrisni ríkti. Mamma var góð húsmóðir, smekkvís og listakokkur, með röð og reglu á öllu. Líf hennar breyttist skyndilega vorið 1993 þegar hún fékk alvarlegt heilablóðfall og þurfti eftir það umönnun í 23 ár.

Pabbi var staðfastur og maður hefða. Hann var fjölfróður og mikill málamaður. Það var gaman að ferðast með honum. Hann kunni deili á hverjum hól, vík og firði. Hann helgaði sig læknisstörfunum, kom miklu í verk og var farsæll í starfi. Hann var frumkvöðull í krabbameinsleit kvenna og fór í leitarstörf árlega í mörg ár og kynntist á þessum ferðum vel landsbyggðinni. Hann var lengi formaður Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Íslands. Pabbi var félagsvera en naut sín líka einn. Það var gaman að hlusta á hann tala um gamla tíma og honum var hlýtt til systkina sinna. Það var gæfa hans að eignast Gyðu og þau áttu mörg góð ár, ferðuðust og spiluðu golf í góðum félagsskap. Gyða var hans stoð og stytta síðustu æviárin. Við erum henni ævinlega þakklát.

Ingibjörg, Steinunn,
Margrét, Þórir og Tómas.

Jón Þorgeir tengdafaðir minn hefur kvatt þetta jarðlíf. Jorri eins og hann var jafnan kallaður meðal ættingja og vina hafði sl. mánuði misst þann líkamlega kraft og þrótt sem hann jafnan hafði en andlega hélt hann reisn sinni fram í andlát. Gamalt mein hafði tekið sig upp sem að lokum lagði hann. Það eru rúmlega 49 ár síðan Margrét yngsta dóttir hans og ég fórum að rugla saman reytum. Við höfðum kynnst í sveitinni þar sem hann sjálfur undi sér svo vel sem ungur drengur. Bæði vorum við Magga mjög ung og ekki sjálfgefið að vera tekinn í sátt svo fljótt sem raunin varð. Árin liðu og smám saman sá ég hvað í tengdaföður mínum bjó. Hann var mikill tónlistarunnandi, spilaði sjálfur listilega á píanó, hann var góður málamaður, bjó yfir mikilli þekkingu á landi og sögu, ekki einungis íslenskri gamalli og nýrri, heldur alheimssögu. Hann fylgdist vel með atburðum líðandi stundar bæði í blöðum og á ýmsum sjónvarpsstöðum. Hann ferðaðist víða og náði að kynnast öðrum menningarheimum, bæði í frítíma og í tengslum við starf sitt sem læknir. Golfið var hans helsta áhugamál en hann byrjaði að spila golf ungur í Svíþjóð á námsárum sínum. Hann fylgdist líka með öðrum íþróttum eins og fótbolta og snooker auk þess sem hann hafði gaman af því að horfa á ballett. Eitt var það þó sem hann hafði ekki góð tök á, að halda á hamri og nagla. Þar kom ég að gagni og mér þótti m.a. vænt um að vera beðinn um að stækka stofuna hjá þeim hjónum, Steingerði og Jorra, á sínum tíma í Búlandi. Heimili þeirra stóð alltaf opið og eru mér minnisstæð öll matarboðin og veislurnar sem tengdamóðir mín heitin reiddi fram eins og færasti veitingamaður. Eftir fráfall hennar hélt hann áfram að halda fjölskyldunni saman einkum á jólum en hann sá um suðuna á hangiketinu eftir kúnstarinnar reglum. Þakklátastur er ég honum fyrir aðstoðina að koma börnum mínum í heiminn. Þegar frumburður okkar Margrétar fæddist, Jón Þorgeir/ Jorri, var hann viðstaddur, fæðingarlæknirinn sjálfur. Kjartani Darra og Kristínu Erlu Línu tók hann á móti með keisaraskurði. Þar var hann á heimavelli og létti það undir stressuðum verðandi föður að sjá fumlausan skurðlækninn að verki. Dagsins amstur réð því að hittingar voru e.t.v. ekki eins margir og hefðu getað orðið en á samverustundum okkar fór vel á með okkur og ávallt varð maður margs vísari eftir á.

Ég þakklátur fyrir samfylgdina með Jorra tengdaföður mínum. Hvíl í friði.

Kristján Erik Kristjánsson.

Jón Þorgeir tengdafaðir minn var eftirminnilegur persónuleiki. Hann var góðum gáfum gæddur, fróður og minnugur á menn og málefni og naut þess að hafa orðið og segja frá – gott að vera þolinmóður hlustandi þá. Hann var unnandi klassískrar tónlistar og lék á píanó.

Jón var í ýmsum skilningi maður tveggja heima. Hann ólst upp á borgaralegu menningarheimili sem mótaði hann með sínum hætti. Vegna veikinda föður hans frá því að Jón var barn að aldri dvaldi hann mörg sumur hjá skyldfólki sínu í Landeyjum. Auk þess stundaði hann ýmis almenn störf á námsárum sínum líkt og fólk úr alþýðustétt gerði. Hann var á togara, vann á eyrinni og var mörg sumur á hvalveiðiskipum.

Sem kvensjúkdómalæknir sinnti Jón árum saman krabbameinsleit meðal kvenna vítt og breitt um landið og sagði skondnar sögur af þeirri aðstöðu sem í boði var á þeim tíma. Eitt sinn fór hann sjóleiðina norður í Árneshrepp og skoðaði konur á borðstofuborði símstöðvarstjórans á Djúpuvík. Og á Húsavík fór krabbameinsleitin fram í náttúrugripasafni skólans, innan um uppstoppaða fugla. Aðstæður heilbrigðisstarfsfólks í þessum efnum hafa sem betur fer gjörbreyst.

Jón vann langan vinnudag og var virkur í félagsmálum. Fyrir vikið var það í verkahring eiginkonunnar, Steingerðar, að halda fjölskyldunni saman og skapa þeim myndarlegt heimili. Ég kom fyrst inn á heimili þeirra hjóna í Búlandinu 1977. Mér, sveitadrengnum, eru fyrstu heimsóknirnar minnisstæðar. Hve heimilið var fallegt, hve góður maturinn var, hversu öll framreiðsla var smekkvís og hve vel mér var tekið af þessum glæsilegu hjónum. Svo voru það þessar óviðjafnanlegu veislur á hátíðum og tyllidögum með söng og píanóundirleik heimilisföðurins.

Steingerður lést 2015 eftir 23 ára dvöl á hjúkrunarheimili. Fjarvera hennar hafði sín áhrif á samskipti fjölskyldunnar. Eftir það kom Jón oft á heimili okkar hjóna á hátíðum, m.a. jólum, hann heimsótti okkur m.a. til Manchester á Englandi, meðan við dvöldum þar, og þar sem hann var áhugamaður um fótbolta kom hann vitaskuld með okkur á Old Trafford. Já, íþróttaáhugasviðið náði aðeins út fyrir golfið.

Hin síðari ár áttum við Steina þess kost að ferðast með Jóni og Gyðu bæði innan lands og utan, m.a. til suðrænna landa, einar þrjár ferðir til Kanarí. Mér er minnisstæð ferð sem við fórum um Borgfjörð, Dali og Snæfellsnes fyrir nokkrum árum. Jón var þá orðinn sjóndapur. Það vakti athygli mína hversu vel áttaður hann var þrátt fyrir það og öll þau örnefni sem hann hafði á hraðbergi sem gjarna fylgdi einhver sögulegur fróðleikur, oft tengdur Íslendingasögum sem hann var vel að sér í. Í Kanaríferðunum var mikið skrafað og rætt, ekki síst um ævisögur og fagurbókmenntir sem við vorum öll með í farteski okkar eða höfðum lesið. Við heimsóknir þeirra á heimili okkar í Árbænum og sumarbústað okkar í Grímsnesinu eru einnig bundnar ánægjulegar minningar.

Sérstakar þakkir á Gyða skildar fyrir umönnun og umhyggjusemi gagnvart Jóni eftir að halla tók undan fæti.

Frosti Fífill Jóhannsson.

Það er með söknuð í hjarta sem við kveðjum elsku afa okkar, Jón Þorgeir Hallgrímsson. Hann var sterkur karakter og setti mark sitt á líf okkar með líflegum samræðum allt fram á síðasta dag. Líklega er hann þekktastur fyrir störf sín sem kvensjúkdómalæknir og munum við öll vel eftir frásögnum hans af ferðalögum um landið í tengslum við starf hans. Við litum upp til læknisins, píanóleikarans og golfarans og sum okkar fylgdu í fótspor hans sem var ekki alltaf auðvelt.

Fyrir okkur eru minningarnar um afa tvískiptar – fyrir veikindi ömmu og eftir. Líklega var líf hans það líka, tvískipt, ef ekki margskipt, meðal annars sökum þessa. Þegar við bjuggum í Dalalandi var stutt að fara í heimsókn í Búlandið til afa og ömmu. Við minnumst kvöldanna í Búlandinu í huggulega svefnsófanum fyrir framan sjónvarpið og matartímanna í borðkróknum þar sem við gæddum okkur á ristuðu brauði með smjöri á meðan afi fékk sér egg og beikon í hádegishléinu. Allt vandlega útbúið af ömmu Steingerði.

Nýtt líf hófst að sumu leyti eftir að amma veiktist fyrir tæpum 30 árum. Minningar okkar systkinanna eru ekki síst tengdar matarboðum, en amma skildi eftir sig stórt skarð hvað matseldina varðaði enda myndarleg húsmóðir. Afi áttaði sig fljótt á því eftir að amma veiktist að samveran var það eina sem raunverulega skipti máli. Þetta þurfti ekki að vera flókið.

Hann bauð upp á pylsur og kartöflumús þegar við kíktum í heimsókn. Mamma og systkini hennar skiptust svo á að koma með lambalæri á Sléttuveginn á fimmtudagskvöldum þegar amma kom í heimsókn frá Skógarbæ. Við systkinin áttuðum okkur ekki almennilega á því þá hversu sjaldgæft það var í raun að hitta alla frændur okkar og frænkur einu sinni í viku öll þessi ár þar til amma féll frá 2015. Nú þegar við höfum eignast okkar eigin fjölskyldur rennur það upp fyrir okkur hversu stórkostlegt það er í raun að fólk hafi alltaf gefið sér tíma fyrir fjölskylduna til að mæta á Sléttuveginn til afa Jóns. En stoltastur var afi líklega af hangikjötsboðunum enda sá hann um hangikjötið sjálfur. Það var mikið pælt í kjötinu, hversu mikill sykur ætti að fara út í vatnið og hvaða tegund af læri ætti að kaupa fyrir jólin.

Allt sem afi áorkaði, virðingin sem umvafði hann og hið hljóðláta vald sem hann fór með voru eiginleikar sem við dáðumst að. Afi var mikilfenglegur í okkar augum. Dýpri samtöl umfram nám og vinnu voru ekki algeng framan af, en á síðustu árum færðust þau í aukana og upplifðum við öll að kynnin hefðu endurnýjast undir það síðasta. Afi hringdi oftar, vildi heyra frá hverju okkar um vinnuna á skjalasafninu, lífið í Svíþjóð og stöðuna í stjórnmálunum. Hann hélt andlegri heilsu ótrúlega vel þar til róðurinn tók að þyngjast, en var auðvitað ekki sáttur við að missa líkamlega heilsu undir það síðasta enda einn af þeim sem telja sig geta lifað að eilífu.

Við erum þakklát fyrir allan þann tíma sem við fengum með afa Jóni, fyrir veikindi ömmu og eftir þau. Við söknum þín og biðjum að heilsa Steingý í Sumarlandinu.

Hvíl í friði, elsku afi.

Hallgrímur, Þorgerður og Kristrún Frosta- og Steinunnarbörn.

Það var gott að koma á Sléttuveginn og njóta samvista við Jón Þorgeir og Guðrúnu Gyðu systur mína. Jón Þorgeir var sögumaður og gaman var að hlusta á lýsingar á æskuárunum í Reykjavik og fólkinu í Vesturbænum, enda áhugi hans á þjóðfélagsmálum og mannfólki mikill.

Einnig á ég góðar minningar um samvistir á ferðum um landið okkar. Þekking Jóns Þorgeirs á landinu var yfirgripsmikil og minnið brást ekki. Frásagnir hans, sem leiddu svo aftur af sér enn aðrar frásagnir, voru fræðandi og skemmtilegar. Fyrir kom að honum þótti við systur ekki sýna nægan áhuga á umhverfinu; kom þá blik í auga og spurt var stríðnislega hvort við værum nú virkilega búnar að gleyma þessu eða hinu í landslaginu.

Jón Þorgeir var víðlesinn og unnandi sígildrar tónlistar; gott er að minnast samveru á tónleikum í Hörpu. Í mínum huga fann Jón Þorgeir ávallt ástæðu til þess að fagna lífinu.

Að leiðarlokum sendi ég, börnin mín og barnabörn hugheilar samúðarkveðjur til systur minnar, barna Jóns Þorgeirs og þeirra fjölskyldna. Við þökkum samfylgdina.

Helga Sveinsdóttir.

Jón Þorgeir lést þann 21. nóvember sl. Góðar minningar raðast upp hjá mér frá æsku til fullorðinsára í návist hans og í faðmi stórfjölskyldunnar eða Jorra eins og hann var kallaður af okkur ættingjum.

Á bernskuárum var mikill samgangur á milli æskuheimilis míns hjá ömmu og afa þar sem ég ólst upp og heimilis Steingerðar og Jorra. Steingerður eða Steingý var móðursystir mín en áréttaði það oft við mig að ég væri eðli málsins samkvæmt bróðir hennar þar sem við áttum sömu foreldra eins og atvik röðuðust upp.

Það var siður til lengri tíma um jól og nýár að stórfjölskyldan safnaðist saman á heimili þeirra Steingýjar og Jorra í Fossvoginum. Heimilið þeirra var fallegt og þar ríkti glaðværð og hlátur á hátið ljóss og friðar.

Ég er þakklátur fyrir þær minningar sem ég eignaðist í návíst Steingýjar og Jorra. Minnisstætt er þegar þau buðu mér í veiðitúr í Flókadalsá sem Jorri ásamt vinum sínum Ingólfi og Aðalsteini hafði á leigu um tíma. Tilhlökkunin var mikil og upplifði maður sem unglingur mikið ævintýri í hópi þaulreyndra veiðifélaga. Þessi ferð er perla í minningabankanum.

Stafróf lífsins og forsjónin er margbreytileg.

Steingý veiktist alvarlega og var á stofnun í 22 ár. Allan þennan tíma hjúkraði og hlúði Jorri að æskuást sinni sem var aðdáunarvert. Saman áttu þau fimm börn sem nú kveðja föður sinn.

Að sýna þakklæti er innri og ytri tjáning. Afar mikilvægt í mannlegum samskiptum er að tjá þakklæti sitt. Ytri tjáning felur í sér jákvæðan hug til þeirra sem þakklætið beinist að. Almennt þarf ekki mikið til. Nóg er að segja orðin „takk fyrir“, það er að minnsta kosti ágæt byrjun.

Ég vil þakka Jorra fyrir það þegar hann tók við því mikilvæga hlutverki sem hann gegndi í lífi mínu þegar hann var svaramaður í brúðkaupi mínu hinn 7. nóvember 1987. Ég stóð stoltur við hlið hans þegar við tókum á móti kirkjugestum sem streymdu inn í kirkjuna.

Innra þakklæti lýtur að því sem við erum, eigum, höfum og því sem við verðum ekki fyrir, t.d. áföllum, og fáum að halda heilsu. Jorri getur verið stoltur af ævistarfi sínu sem brautryðjandi á mörgum sviðum sem læknir. Jorri naut þeirra lífsgæða framan af ævi að halda nokkuð góðri heilsu. Hann glímdi samt við erfið veikindi en reis alltaf upp aftur.

Það er alltaf erfitt að kveðja einstaklinga sem eru manni kærir.

Mannsandinn líður ekki undir lok, minning um góðan mann lifir í hjarta og minni. Líkt og sólin sem virðist ganga undir, en alltaf heldur áfram að lýsa.

Ég votta öllum ástvinum samúð. Sorgin er óaðskiljanlegur partur af lífinu og hjá því verður ekki komist í þessu lífi að takast á við hana. Við verðum að læra að lifa með sorginni.

Í minningu Jorra vil ég einfaldlega segja fyrir allt og allt: „Takk fyrir.“

Sveinn Guðmundsson.

Fjölskyldunafnið Hallgrímsson teygir sig um langan veg fram og aftur í tímann.

Frændi minn Jón Þorgeir Hallgrímsson læknir og sjentilmaður fram í fingurgóma ber sannarlega ættarkransinn með láði í læknasögu fjölskyldunnar.

Jón var frumburður yngri bróður ömmu minnar Kristrúnar, Tómasar Hallgrímssonar, sem var sonur Tómasar Hallgrímssonar sem var meðal annars héraðslæknir alls Suðurlands á 19. öld. Í Húsinu á Eyrarbakka kynntist Tómas læknir Ástu Júlíu tónlistarkonu ömmu Jóns Þorgeirs.

Þegar þau settust að í Reykjavík gerðist Tómas læknakennari og yfirlæknir á Farsóttarsjúkrahúsinu í Þingholtsstræti. Þegar Ásta Júlía amma Jóns Þoreirs gekk með Tómas föður hans lést Tómas eldri læknir af smitsótt. Til að tengja enn frekar við læknablóð fjölskyldunnar þá var móðurafi Tómasar Jón Jónsson prestur á Grenjaðarstað. Hann var fyrstur presta á Íslandi til að fá leyfi Danakonungs til að stunda lækningar. Faðir og afi Jóns á Grenjaðarstað stunduðu einnig lækningar úr grösum og voru þekktir fyrir árangur aðferða sinna. Skráningar þeirra á hinum ýmsu mixtúrum varðveittust síðan mann fram af manni. Ættartré afkomenda þeirra prýðir mikill fjöldi lækna alveg fram til dagsins í dag og þar má greina endurtekið nöfnin Hallgrímsson eða Tómas.

Ég var um það bil 12 ára gömul þegar ég kynntist þessum tígulega frænda mínum. Það var þegar þau Steingerður fluttu heim frá „útlöndum“ en í huga mér sveipuðu útlönd þau hjón og börn þeirra ákveðnum ævintýraljóma.

Steingerður var sannkölluð þokkadís sem eignaðist ung að árum frumburð þeirra Ingibjörgu Þóru þegar Jón Þorgeir var að hefja nám í læknisfræði við Háskólann. Ingibjörg og ég tengdumst bernskuböndum og ég man svo glöggt þegar hún fluttist úr landi vegna sérnáms föður síns.

Við kvöddumst sex ára gamlar og sáumst ekki aftur fyrr en um tólf ára aldur.

Á Svíþjóðarárum þeirra hafði fjölskylda mín flutt út fyrir bæinn og ég því sveitastúlka á hrossabúi sem sótti skóla í borginni. Sú staða varð til þess að heimili Jóns Þorgeirs og Steingerðar stóð mér ávallt opið og ég fann mig alltaf sem eina af þeim.

En fjarvera þeirra hafði einn góðan kost fyrir mig. Svo vildi til að Tómas Hallgrímsson bróðir ömmu minnar Kristrúnar gerði mig að eins konar afabarni í fjarveru þeirra. Og það munaði sko um minna!

Jón Þorgeir átti ekki langt að sækja tignarleikann því Tómas faðir hans var ekki neinn venjulegur maður. Í fasi var hann tiginborinn heimsborgari sem hafði numið tungumál í hverju því landi sem hann hafði dvalið í.

Listagyðjan úr móðurættinni bjó innra með honum eins og hjá Jóni Þorgeiri sem fékk hana reyndar úr báðum ættum. Þegar faðir Jóns Þorgeirs kom heim eftir að hafa ferðast um veröldina heillaðist hann af ungri snót á Vesturvallagötu, henni Margréti Ingiríði, greindri listakonu. Saman ófu þau úr þráðum listarinnar og eignuðust þrjú mannvænleg börn, tvo syni og eina dóttur. Það reyndi sannarlega á hæfni Margrétar þegar Tómas veiktist á miðjum aldri af berklum en Margrét dó ekki ráðalaus og hóf að vinna fyrir heimilinu með margvíslegum skapandi hætti.

Með þakklæti og hlýju fyrir fallega samfylgd.

Ásta Kristrún
Ragnarsdóttir.

Mínir vinir fara fjöld, sagði skáldið forðum. Þetta kom upp í hug mér þegar mér barst til eyrna að vinur minn Jón Þorgeir Hallgrímsson væri fallinn frá:

Ein dýpsta gæfa í geði manns

er glaðlegt bros í fari hans.

Af lítilmagna bera blak

og binda orð við handartak.

Þetta voru eiginleikar hans í allri hans framkomu. Jörri, eins og hann var kallaður, kom frá læknanámi 1966 en þá hafði hann kynnst golfíþróttinni lítillega í Svíþjóð og fljótlega eftir heimkomuna lét hann skrá sig í nýstofnaðan Golfklúbb Ness. Hóf í framhaldi æfingar og spilaði eftir því sem tími gafst frá annasömum læknastörfum. Hann náði fljótlega sambandi við kollega sína í klúbbnum sem voru á svipuðu stigi í golfinu. Fljótlega varð mikil samkennd meðal félaganna í skálanum. Undirritaður var ekki skráður í klúbbinn fyrr en 1971 og hóf ekki leik fyrr en löngu seinna en þá náðum við Jörri saman. Fyrir um það bil 25-30 árum hittumst við á Alicante. Eftir það höfum við setið saman í golfbíl heima og erlendis. Áður hafði Jörri ferðast víða, til Vesturheims og Austurlanda fjær. Saman fórum við tvisvar á ári til Alicante, vor og haust. Það voru dásamlegar ferðir. Jörri vildi byrja ferðina hér heima. Það var fast form að fá sér einn kaldan með einum Gammel. Upp frá því varð ferðin sannkölluð gleði- og gæðaferð. Við fengum yfirleitt alltaf sömu herbergin á hótelinu, þetta var eins og að koma heim. Ef við vorum snemma búnir að spila á daginn fórum við gjarnan upp á torg sem var þarna í næsta nágrenni og fengum okkur grillaða kjúklingabita og einn kaldan. Það var notalegt í 30 stiga hita. Gegnt hótelinu var góður Kínastaður. Þrátt fyrir að máltíð væri innifalin í ferðinni fórum við gjarnan á þennan Kínastað. Sú litla kínverska sem rak staðinn tók svo fallega á móti okkur, að koma þangað var bæði notalegt og yndislegt. Þar fengum við ekta pekingönd og/eða appelsínuönd og að sjálfsögðu drykki sem pössuðu við. Ekki varð það verra þegar Ísak og kona hans Margrét Oda bættust í hópinn. Það var dásamlegt þegar við komum eða fórum, þá baðaði sú kínverska út höndunum með ósk um að sjá okkur aftur sem fyrst. En með árunum urðu þessar ferðir erfiðari og erfiðari, sérstaklega þessar endalausu gönguferðir á flugvöllunum. Þá er Nesvöllurinn þægilegur því þar áttum við heima. Við sátum hlið við hlið í golfbílnum í árafjöld og gátum ekið að boltanum þar sem hann hafði lent hverju sinni. Einfaldara gat þetta ekki verið og saman vorum við hvenær sem veður leyfði með aðstoð frá Gyðu þegar orðið var of erfitt að tía upp. Ekki þar með sagt, Jörri þurfti svo sem ekkert að vera að spila alveg inn á flöt, hans löngu markvissu pútt, 20-30 metrar, voru í hans augum ekkert mál. Ég sé það fyrir mér þegar þeir hittast aftur vinirnir Siggi Þ., Sverrir tanni og fleiri, skyldi Jörri vera með gylltan bolta? Genginn er góður drengur.

Við vottum Gyðu, börnunum og öllum ættingjum okkar dýpstu samúð við fráfall Jörra.

Með hlýrri kveðju,

Helga og Hörður Jón Fossberg.

Jón Þorgeir Hallgrímsson læknir var kosinn í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur, sem nú nefnist Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins, árið 1979 og var formaður félagsins frá 1988 til 1992. Hann var í stjórn Krabbameinsfélags Íslands frá 1988 og formaður þess frá 1992 til 1998.

Öll störf sín hjá félögunum vann hann af vandvirkni og með víðsýni að leiðarljósi og reyndist tillögugóður á miklum mótunarárum félaganna. Hann var mjög áhugasamur um allt sem varðaði baráttuna gegn krabbameini og vann að því af heilum hug að félögin næðu markmiðum sínum, ekki síst varðandi fræðslu, forvarnir og málefni sjúklinga og aðstandenda.

Mjög fróðlegt var að hlusta á frásagnir Jóns Þorgeirs frá fyrstu árum skipulagðrar hópskoðunar fyrir leghálskrabbameini á landsbyggðinni. Fyrsta hópskoðunin á landsbyggðinni mun hafa verið í Strandasýslu árið 1966, en Jón Þorgeir var þá héraðslæknir þar. Auk þess að skoða á Hólmavík fór hann með strandferðaskipi í Norðurfjörð og á Djúpuvík og skoðaði konur þar í heimahúsum meðan skipið beið.

Næstu ár var farið að skoða annars staðar utan Reykjavíkur. Jón Þorgeir fór í mörg ár um Norðausturland, Austurland og hluta Suðurlands og sagði í blaðaviðtali að þetta hefði verið ánægjulegur tími þó aðstæður hefðu ekki verið eins góðar og síðar varð. „Þetta var áður en farið var að byggja allar heilsugæslustöðvarnar. Á Húsavík skoðuðum við innan um uppstoppuð dýr í náttúrugripasafninu, á Vopnafirði í eldhúsinu í félagsheimilinu, á Norðfirði í sjómannaheimilinu, á Egilsstöðum í skóla og á Fáskrúðsfirði í félagsheimilinu, í búningsherbergi bak við leiksviðið.“ Ferðirnar voru farnar vor og haust og gat brugðið til beggja vona með veður og færð. „Stundum voru varðskip fengin til að flytja okkur á milli staða og ég man eftir að hafa verið ferjaður í land á þyrlu.“

Í tilefni af 70 ára afmæli Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins voru tekin viðtöl við fyrrverandi formenn félagsins sem sýnd voru á samfélagsmiðlum. Auðsótt mál var ætíð að fá Jón Þorgeir til liðs við okkur. Hann sagði á sinn skemmtilega hátt frá árdögum krabbameinsleitar á Íslandi, tilkomu pillunnar og þeirri heilsufarsbyltingu sem leghálskrabbameinsleitin var.

Jón Þorgeir var kjörinn í heiðursráð Krabbameinsfélags Íslands árið 1988 og sæmdur gullmerki félagsins. Hann var kjörinn heiðursfélagi Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins árið 1999. Þessar viðurkenningar eru veittar fyrir mikilsvert framlag til baráttunnar gegn krabbameini.

Leiðir Jóns Þorgeirs og félaganna lágu saman í meira en hálfa öld, bæði á Leitarstöðinni og í félagsstarfinu. Hann var farsæll í sínum störfum og sýndi félögunum mikinn áhuga alla tíð. Sem stjórnarmaður og heiðursfélagi sat hann aðalfundi félaganna í áratugi, allt fram á síðustu ár.

Jón Þorgeir var einn af okkar traustustu félögum. Við vottum aðstandendum hans samúð. Blessuð sé minning hans.

Kveðja frá Krabbameinsfélaginu,

Hlíf Steingrímsdóttir og Árni Einarsson.

Minn gamli kennari, yfirmaður og samverkamaður Jón Þorgeir Hallgrímsson lifði góða ævi og vann gott ævistarf í þágu kvenna og fjölskyldna á Íslandi. Beitti sér fyrir og studdi ný viðhorf og verklag í fæðingafræðum og kvensjúkdómum og tók þar þátt sem forystumaður í verki í fjóra áratugi. Hann var á staðnum þegar ný Kvennadeild Landspítalans var opnuð haustið 1975, þá ungur sérfræðilæknir sem næsta kynslóð gat aðeins litið upp til. Góður kennari og fyrirmynd. Glettinn og brosmildur þegar við átti, alvörugefinn þegar þess þurfti. Opinn fyrir nýjungum og studdi við þá sem með honum vildu byggja upp enn betri aðstæður til að heilsu kvenna, verðandi foreldra og ófæddra og nýfæddra barna yrði sem best sinnt. Jón Þorgeir átti líka mikinn þátt í að byggja upp krabbameinsleitina í Reykjavík og ekki síst í árlegum leitarferðum á landsbyggðinni. Hann var valinn til forystu hjá krabbameinsfélögunum þar sem störf hans voru mikilvæg á innlendum og norrænum vettvangi. Sama má segja um störf hans fyrir fæðinga- og kvensjúkdómalækna. En fyrst og fremst munum við samverkafólk hans læknisverk hans, forsvar á Kvennadeildinni, og góð samskipti við okkur og skjólstæðingana. Þar verða áhugi, hlýja og góð nærvera hans okkur minnisstæð.

Jón Þorgeir fór ekki frekar en aðrir gegnum lífið án erfiðra stunda. En það mátti líka oft finna fyrir því að hann naut lífsins. Finna hve stoltur hann var af sinni fjölskyldu og framgangi barna sinna. Og sem betur fer var hamingjan honum hliðholl á langri ævi. Hann kunni að láta hamingjuna vera með í för á mörgum gleðistundum í starfi og leik. Ég minnist fagmennsku hans, samstarfs okkar og góðs vinskapar með hlýju og þakklæti. Samúð mín er hjá ástvinum og fjölskyldu hans.

Reynir Tómas Geirsson.