Halla Haraldsdóttir fæddist 1. nóvember 1934. Hún lést 23. nóvember 2023. Útför fór fram 30. nóvember 2023.

Nú hefur Halla mágkona mín gengið inn í ljós og liti eilífðarinnar. Hún var kona Hjálmars bróður míns. Þau voru jafnaldrar og voru sautján árum eldri en ég. Alla tíð var Halla hluti af mínu lífi. Þegar þau eignuðust elsta drenginn sinn, Harald Gunnar, þá var ég fjögurra ára – og þá varð ég föðursystir.

Halla var einstaklega listfeng og skapandi kona; það lék allt í höndunum á henni. Hún var myndlistar- og glerlistakona, en í bernsku minni og á unglingsárum voru það kjólarnir sem hún hannaði og saumaði sem áttu hug minn allan. Ásamt kjólunum voru spennur á skóna og í hárið úr sama efni. Kjólarnir voru listaverk – og fyrir litla stelpu voru þeir einstakir.

Halla og Hjálmar voru fallegt par. Þau upplifðu margt og voru samtaka í gegnum lífið. Það var Höllu þungur harmur þegar Hjálmar lést árið 2015. Hún var vængbrotin en tókst á við sorgina og náði tökum á lífinu án Hjálmars.

Drengirnir þeirra, Haraldur, Þórarinn og Stefán, voru Höllu afar kærir og þeir studdu hana ef einurð. Mikill harmur var að þeim og okkur öllum kveðinn þegar Stefán féll frá; þyngsta höggið.

Halla og Hjálmar voru einstaklega vinmörg og gestrisin. Oft var fullt hús gesta hjá þeim og án Hjálmars hélt Halla áfram að hafa dyr sínar opnar fyrir ótal gestum og gangandi.

Ég á bágt með að lýsa sorginni og þakklætinu sem er í huga mínum nú þegar mín kæra mágkona er öll, en gæfa mín er að hafa átt Höllu að alla tíð. Afkomendur Höllu og Hjálmars, synirnir, tengdadætur, börn þeirra og barnabörn, hafa stutt hana, væntumþykja umvafið hana og þau voru henni dýrmætari en orð fá lýst.

Ég sé hana fyrir mér standa við trönurnar með pensil í hönd – ganga eitt skref aftur á bak og horfa á málverkið.

Hvíl í friði, okkar kæra.

Sigríður Kr.
Stefánsdóttir,
Ingolf Klausen.

Það gerist oft fyrir tilviljun að leiðir fólks liggi saman á lífsleiðinni, ýmist um langan veg eða skamman. Tengsl sem myndast geta rist djúpt og varað lengi sem varð reyndar raunin í okkar tilfelli. Þegar ég kynntist Höllu þá var það reyndar engin tilviljun heldur heldur vegna þess að Halla var sönn fjölskyldumanneskja. Við Rúnar hófum búskap sem unglingar í Keflavík og ekki leið á löngu þar til Halla og Hjálmar buðu okkur í mat í Heiðarbrúnina, þar með var sagan skrifuð.

Á milli okkar myndaðist ekki bara frænkusamband heldur einstök vinátta og þrátt fyrir þrjátíu ára aldursmun voru þau okkar bestu vinir og lærimeistarar í svo mörgu í lífinu. Við brölluðum margt saman; tíndum kríuegg, fórum í alls konar vettvangsferðir um Reykjanesið svo ekki sé minnst á okkar heilögu stundir þegar við hittumst gjarnan á kvöldin og horfðum saman á þætti eins og Dallas, Dynasty og Falcon Crest, þar vorum við Halla í essinu okkar, báðar með mikinn áhuga á tísku og hönnun. Það var ekki síður skemmtilegt að fylgjast með Hjálmari og Rúnari laumast til að horfa á herlegheitin þrátt fyrir mikið tuð um hvernig við gætum virkilega horft á þessa froðu.

Hjálmar og Halla kunnu svo sannarlega að njóta lífsins saman, þau ferðuðust mikið og eitt sinn heimsóttu þau okkur Rúnar til Danmerkur.

Höllu leist ekki vel á tómu veggina í íbúðinni okkar í Óðinsvéum svo hún settist bara niður með vatnslitina sína og málaði tvö falleg verk og gaf okkur. Á meðan vatnslitamyndirnar þornuðu lá leiðin í búðarölt, okkur vantaði svo nauðsynlega „dametøj“. Til baka komum við alveg í skýjunum en við höfðum keypt hvor sinn kjólinn, sem voru reyndar nákvæmlega eins, mikið grænn með grænu belti, okkur fannst þessi innkaup alveg stórkostleg og ég held bara að okkur hafi liðið eins og við værum sjálf Pamela í Dallas.

Halla var einstaklega hlý og reyndist mér ómetanlega góð vinkona, hún var ekki dómhörð og dró ekki ályktanir en ræddi málin ætíð út frá skynsemi og lausnum. Halla kveikti hjá mér neista sem kenndi mér að meta listir sem hefur fylgt mér í gegnum lífið. Það var unun að spjalla við Höllu um listnámið sitt hjá Erró og ég tala nú ekki um sjálft Oidtmann-ævintýrið. Glerverkið í Hveragerðiskirkju, sem er 14 metra altaristafla, er lifandi minning um mikla listsköpun mikillar listakonu.

Ég minnist Höllu með ævinlegu þakklæti og gleði í hjarta.

Elsku Halli Gunni, Tóti, Bára, Unnur og fjölskyldur, við Rúnar sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir.