Inga Minelgaite
Inga Minelgaite
Ef þú hefur áhuga á að styrkja viðskiptatengsl þessara tveggja frábæru þjóða, gerðu þá eins og Íslendingar gera – hringdu í mig!

Inga Minelgaite

Hið pólitíska landslag sem við búum við í dag er hvatning um samvinnu milli vestrænna lýðræðisríkja, ekki síst í efnahagsmálum. Um það var hrottaleg innrás Rússa í Úkraínu harkaleg áminning. Ekki fyrr höfðum við horft fram á nauðsyn þess að slíta efnahagstengslum við Rússland en við okkur blasti hin alvarlega þróun í Kína. Undanfarna áratugi hafa Bandaríkin, Evrópusambandið og bandalagsríki þeirra í Asíu byggt samskipti við Kína á þeirri trú að samvinna og tengslamyndun myndi smátt og smátt leiða til þess að Kína yrði ábyrgur hagsmunaaðili á alþjóðavettvangi. Þetta hefur ekki gerst. Þess vegna er brýn þörf á samstöðu lýðræðisríkja um að vernda fyrirkomulag, stofnanir og bandalög hinnar ríkjandi heimsmyndar og framfylgja refsingum við brotum gegn þeim, ef stemma á stigu við stöðugum valdayfirgangi og þrýstingi Kína (Schuman og Schullman – Atlantshafsráðið). Niðurstaða: Það liggur fyrir að vestræn ríki verða að vinna saman til að vernda það sem þeim er kært.

Samvinna milli landa eykur líka viðskipti. Kanada og Nýja-Sjáland hafa um árabil með opinberum hætti þróað hæfileikasjóð menntaðra einstaklinga innan landamæra sinna. Í Bretlandi hefur slík þróun á mannauði skipað sífellt stærri sess eftir Brexit. Það kann að virðast sem þjóðir séu að keppa sín á milli um hæfileikaríkt fólk. Það er að vissu leyti rétt. Hins vegar er það einnig mikill kostur, þegar stofna á til samstarfs, að vera hluti af svæði (t.d. Evrópusambandinu eða evrópska efnahagssambandinu) þar sem fyrir er stór og fjölbreyttur hópur vinnuafls með sérfræðikunnáttu á margvíslegum sviðum (t.d. upplýsingatækni eða líftækni). Það gefur fyrirtækjum kost á að velja milli frambærilegra einstaklinga með þá þekkingu sem þarf til að þróa og styrkja markaðsaðild, bæði staðbundna og á heimsvísu. Niðurstaða – þegar framsækin fyrirtæki hafa aðgang að hæfu vinnuafli í öðrum löndum vegnar þeim betur.

Í liðinni viku gerðist það í fyrsta sinn í 30 ára samstarfi þjóðanna að ópólitískir hagsmunaaðilar hittust til að ræða viðskipta samstarf Litháen og Íslands. Á undanförnum áratugum hafa þessar þjóðir átt umtalsvert samstarf á sviði menningar og mennta. Samvinna á sviði viðskipti hefur hins vegar verið lítil hingað til. Meðal fundargesta voru fulltrúar nokkurra íslenskra fyrirtækja sem eiga farsælan feril að baki í Litháen. Þessi fyrirtæki, sem störfuðu á sviði fjármála, áætlunarflugs og ferðamennsku, höfðu öll sömu sögu að segja: sú ákvörðun að flytja hluta eða alla starfsemi til Litháen hafði skilað sér í aukinni velgengni. Á fundinum kom fram það sjónarmið að smæð Íslands ylli því stundum að erfitt reyndist fyrir fyrirtæki að finna sérfræðinga innanlands, eða nægan fjölda þeirra, til að vaxa og keppa á alþjóðamarkaði. Aðgangur að vinnuafli vinveittrar nágrannaþjóðar gæti verið lausnin á slíkum vanda. Ekki síst þegar grannþjóðin er samstiga Íslendingum hvað varðar gildismat og hver kveðja hefst á orðunum „… and thank you for recognizing our independance in the 90s!“ („… og þakka ykkur fyrir að viðurkenna sjálfstæði okkar“).

Samkoman sem ég vísa hér í bar nafnið „Connecting the dots: Lithuanian and Iceland“ eða „Tenging fyrr og nú: Ísland og Litháen“. Ef við hinsvegar berum saman nokkur orð úr heimi viðskiptanna (peningar – pinigai, versla – verslas) læðist að manni sá grunur að hér hafi átt sér stað tenging fyrir margt löngu og að efnahagstengsl milli Íslands og Litháen séu ekki ný af nálinni.

Íslendingar og Litháar eiga margt sameiginlegt, til dæmis ást á menningu, tungu og náttúru. Við eigum það líka sameiginlegt að okkur finnst þægilegast að taka af skarið og drífa í hlutunum með því að tala við rétta fólkið – og þá helst í síma. Ég ætla því að leggja til að ef þú hefur áhuga á að styrkja viðskiptatengsl þessara tveggja frábæru þjóða og langar að vita meira um fjárfestingarmöguleika í Litháen, gerðu þá eins og Íslendingar gera – hringdu í mig! Það er alls ekki ólíklegt að ég geti svarað spurningum þínum, eða vísað þér á einhver sem getur það.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands, viðskiptafræðideild, og heiðursræðismaður Litháen á Íslandi.

Höf.: Inga Minelgaite