Ellert Eiríksson fæddist 1. maí árið 1938. Hann lést 12. nóvember 2023. Útför hans fór fram 23. nóvember 2023.

Elsku pabbi minn, ég er svo þakklát fyrir allt sem þú kenndir mér og studdir mig í. Þú varst sá allra besti og vildir öllum vel. Það er svo margt sem ég gæti sagt en í dag finn ég ekki orðin.

Gráti því hér enginn

göfugan föður,

harmi því hér enginn

höfðingja liðinn.

Fagur var hans lífsdagur,

en fegri er upp runninn

dýrðardagur hans

hjá drottni lifanda.

(Jónas Hallgrímsson)

Þín dóttir,

Guðbjörg Ósk Ellertsdóttir.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ kveður einn af leiðtogum sínum í dag.

Ellert var fyrsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar 1994 og sat sem slíkur í átta ár. Hann var áður bæjarstjóri í Keflavík og í Garðinum. Það var því vel við hæfi að Ellert varð fyrsti heiðursborgari Reykjanesbæjar 2016.

Eitt af fyrstu verkum mínum áður en ég ákvað að taka áskoruninni um að taka oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ var að heimsækja Ellert og fá ráð hjá honum. Ég þekkti hann vel frá fyrri tíð, bæði var ég virk í flokksstarfinu og systir mín með Ellerti í bæjarstjórn.

Þau eru mörg heilræðin sem ég hef fengið frá Ellerti í gegnum tíðina. Eitt af því var „grundvöllur þess að fara í pólitík er að hafa það í heiðri að segja alltaf sannleikann“. Ég hef ætíð hugsað um þetta þegar óþægilegir hlutir koma upp, oft verið auðveldara að fara í kringum sannleikann en til lengri tíma og það heiðarlegasta er að halda sig við hann og hef ég reynt að hafa það í heiðri.

Annað sem kom mér á óvart í gegnum pólitískt starf Ellerts var hversu mikill jafnréttissinni hann var. Þetta skein í gegn í öllu hans starfi. Ellert var mjög talnaglöggur og mikil ráðdeild í hans störfum. Hann var óhræddur við að taka ákvarðanir þótt þær væru nú ekki alltaf vinsælar.

Með þessum fátæklegu orðum kveð ég þig kæri félagi með þökkum fyrir allt það fórnfúsa starf sem þú hefur unnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn og alla þá ráðgjöf sem þú hefur veitt mér og mínum félögum í pólitísku starfi.

Ég votta þér kæra Guðbjörg og öðrum fjölskyldumeðlimum innilega samúð.

Minning Ellerts Eiríkssonar lifir áfram.

F.h. Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ,

Margrét Sanders oddviti.

Leiðir okkar Ellerts lágu saman þegar hann kom inn í stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. (FLE) árið 2002 en ég hóf nokkrum árum áður störf sem framkvæmdastjóri flugstöðvarinnar þegar starfsemi hennar og fríhafnarinnar var breytt í hlutafélag árið 2000.

Fljótlega voru Ellerti falin fleiri trúnaðarstörf á vegum stjórnar FLE og kom hann inn í verkefnastjórn um framtíðaruppbyggingu og breytingar á flugstöðinni og nærumhverfi sem stóðu yfir á árunum 2003 til 2008. Ellert kom einnig inn í stjórn Íslensks markaðar hf. þegar FLE keypti það félag vegna skipulagsbreytinga á verslun og þjónustu á brottfararsvæði flugstöðvarinnar ásamt því að vera í stjórn Fríhafnarinnar hf.

Á þessum árum unnum við Ellert mjög náið saman að vexti, viðgangi og uppbyggingu stærstu samgöngumiðstöðvar landsins. Úrlausnarefnin voru mörg, oft flókin og krefjandi og mikið reyndi á í nærumhverfinu og í hinu pólitíska litrófi.

Eftir því sem kynnin urðu nánari komu mannkostir Ellerts æ betur í ljós. Lagni í mannlegum samskiptum, glöggsýni, innsæi og reynsla einkenndu alla hans framgöngu. Hann hafði mjög næmt auga fyrir rekstri og fjárfestingum og lagði ríka áherslu á góða fjármunamyndun rekstrar og að áætlanir stæðust. Þetta leiddi til þess að hægt var að greiða út arð til hluthafans (ríkisins) öll þau ár sem við störfuðum saman innan FLE þrátt fyrir miklar fjárfestingar.

Allt frá okkar fyrstum kynnum myndaðist mjög góður trúnaður okkar á milli og vinátta. Ellert var réttsýnn, úrræðagóður og með skarpa dómgreind. Hann bar hag Suðurnesja mjög fyrir brjósti og nutum við góðs af hans ágæta tengslaneti á þeim slóðum. Það var sannarlega mjög lærdómsríkt að vinna með Ellerti.

Ég er ævinlega þakklátur Ellerti fyrir vináttuna, samstarfið og allar samverustundirnar á þessum árum. Við Elsa sendum Guðbjörgu, börnum og fjölskyldu okkar einlægustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ellerts Eiríkssonar.

Höskuldur Ásgeirsson.

Ellert Eiríksson var máttarstólpi samfélaga á Suðurnesjum um árabil.

Víðtæk reynsla Ellerts af atvinnulífinu kom Reykjanesbæ vel á upphafsárum hins sameinaða sveitarfélags. Hann hafði unnið sig áfram í gegnum verkamannastörf, þjónustustörf, flokksstjórn og verkstjórn og hafði öðlast víðtæka reynslu af stjórnsýslu og atvinnulífinu, m.a. byggingarstörfum og vegagerð, þegar hann tók við bæjarstjórastarfinu. Í stóli bæjarstjóra reyndi mjög á hann við sameiningu sveitarfélaganna Njarðvíkur, Hafna og Keflavíkur. Þar skipti æðruleysi Ellerts og virðing fyrir samstarfsmönnum miklu máli. Í þágu samfélags okkar náði hann margvíslegu góðu samstarfi við forystumenn Varnarliðsins, sem kom m.a. fram í mikilvægum afnotum af Helguvíkurhöfn og samstarfi um sorpeyðingu.

Ellert veitti mér mikilvæga leiðsögn þegar ég tók við af honum sem bæjarstjóri fyrir rúmum 20 árum. Mér er afar minnisstætt að í ábendingum hans um menn og málefni hallaði hann aldrei orði á nokkurn mann. Hann leit á sérhvert verkefni sem viðfangsefni til úrlausnar. Hann bar virðingu fyrir samverkafólki sínu, óháð pólitískri stöðu, enda oft afar lítill munur á fulltrúum pólitískra afla þegar kemur að sveitarstjórnarmálunum. Það var mikið gleðiefni þegar fulltrúar allra pólitískra framboða í Reykjanesbæ sameinuðust um að gera þennan fyrsta bæjarstjóra Reykjanesbæjar að fyrsta heiðursborgara Reykjanesbæjar árið 2016. Við Bryndís sendum Guðbjörgu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Minning um merkan mann lifir.

Árni Sigfússon.

Allir Suðurnesjamenn þekktu Ellert Eiríksson. Fyrri hluta ævinnar vann hann aðallega við verkstjórn framkvæmda, lengst hjá Keflavíkurbæ. Eiríka mín vann undir hans stjórn á unglingsárum við gatnagerð og götulagnir. Hún var bekkjarsystir Eiríks heitins, sonar Ellerts, og voru þau góðir vinir. Ellerti þótti langskemmtilegast að taka þátt í prófkjörum og framkvæmd kosninga. Þá var hann í essinu sínu og kunni regluverkið út í hörgul. Hann var mikill körfuboltaáhugamaður og mætti mjög vel á körfuboltaleiki.

Ég kynntist Ellerti ekki vel fyrr en eftir að bæjarstjóraferli hans lauk. Þá kusu hluthafar Fiskmarkaðs Suðurnesja hf. (FMS) hann stjórnarformann félagsins. Þar var ég skrifstofustjóri og Ragnar Kristjánsson framkvæmdastjóri. Fljótlega eftir það var hann orðinn formaður flestra félaga sem tengdust FMS. Ég tók að mér framkvæmdastjórn í litlu félagi með lítinn rekstur en hann var formaður. Þá tók hann upp á því að hringja í mig þegar málefni félagsins bar á góma og ávarpa mig: „Sæll, forstjóri, þetta er Ellert,“ vitandi að ég var frekar á vinstri kantinum og ekki hrifinn af slíkum titlum. Þegar fram liðu stundir þótti mér vænt um þessi samtöl.

Samskiptahæfni Ellerts var einstök. Um 10% í einu dótturfélagi FMS höfðu verið seld til fransks félags eftir aldamót, áður en Ellert kom að FMS. Þetta franska félag var í eigu Ísraelsmanna sem voru áhættusæknir og fór félag þeirra í þrot. Hlutirnir í dótturfélaginu voru þá undir stjórn skiptastjóra í París sem hét Cordeu. Hann neitaði alfarið að ræða við nokkra sem tengdust þeim félögum sem hann var með til meðferðar á hverjum tíma og alls ekki á öðru máli en frönsku. Íslensku eigendur dótturfélagsins vildu kaupa þessa hluti. Ellert brá á það ráð að fá Jórunni Tómasdóttur frænku sína, sem nú er nýlátin, til að hjálpa sér að senda Cordeu bréf og óska eftir fundi. Nokkru síðar var Ellert í Evrópu í einkaerindum og skrapp til Parísar á skrifstofu skiptastjórans og hafði með sér íslenskan fisk til að þakka karlinum fyrir að taka á móti sér. Þeir ræddu saman á ensku og leystu málið.

Ellert hafði það fyrir sið að koma á skrifstofuna til okkar Ragnars hálfsmánaðarlega og fara yfir rekstur félagsins. Þannig setti hann sig vel inn í málefnin og við gátum deilt ábyrgð með honum. Okkur líkaði þetta vel. Hann var stjórnarformaður FMS í 17 ár og voru samskiptin ávallt ljúf og áreynslulaus. FMS fór í gegnum erfiða tíma við fall bankakerfisins á Íslandi eins og allt samfélagið. Ellert lagði áherslu á við okkur Ragnar að starfsfólk FMS yrði fyrir eins litlum áhrifum og mögulegt var, því áhyggjur starfsmanna við rekstur heimila sinna væru nægar.

Hann fylgdi því vel eftir að aðalfundir væru haldnir í öllum félögunum á réttum tíma og þeir færu formlega fram. Hversu smá félögin voru skipti ekki máli. Þar sem hann var formaður flutti hann ávallt ræðu á aðalfundum. Mig langar að nota orðin hans að lokum. Ég vil þakka Ellerti og fjölskyldu hans fyrir þolinmæði við mig. Fjölskyldu hans sendum við Eiríka okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þórður M.
Kjartansson.

hinsta kveðja