Ólafssalur Deontaye Buskey og Daníel Ágúst Halldórsson takast á.
Ólafssalur Deontaye Buskey og Daníel Ágúst Halldórsson takast á. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Daniel Love, nýjasti leikmaður Hauka, fór mikinn þegar liðið hafði betur gegn Hetti, 93:85, í 9. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Ólafssal í Hafnarfirði í gær en Love skoraði 26 stig, tók sex fráköst og gaf eina stoðsendingu í leiknum

Daniel Love, nýjasti leikmaður Hauka, fór mikinn þegar liðið hafði betur gegn Hetti, 93:85, í 9. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Ólafssal í Hafnarfirði í gær en Love skoraði 26 stig, tók sex fráköst og gaf eina stoðsendingu í leiknum. Þetta var fyrsti sigur Hauka síðan 26. október þegar liðið hafði betur gegn Hamri í Ólafssal en Deontaye Buskey var stigahæstur hjá Hetti með 23 stig, fjögur fráköst og fjórar stoðsendingar.

 Emil Karel Einarsson og Darwin Davies voru stigahæstir hjá Þór úr Þorlákshöfn þegar liðið lagði Íslandsmeistara Tindastóls, 96:79, í Þorlákshöfn en þeir skoruðu 18 stig hvor. Adomas Drungilas var stigahæstur hjá Tindastól gegn sínum gömlu liðsfélögum með 17 stig, níu fráköst og tvær stoðsendingar.

 Pétur Ingvarsson og lærisveinar hans í Keflavík höfðu betur gegn hans gömlu lærisveinum í Breiðabliki, 100:86, í Keflavík en Remy Martin fór á kostum hjá Keflavík í leiknum, skoraði 36 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar. Keith Jordan var stigahæstur hjá Breiðabliki með 32 stig, fjórtán fráköst og eina stoðsendingu.

 Njarðvíkingar eru einir á toppnum eftir öruggan sigur gegn Hamar, 109:85, í Hveragerði en Mario Matasovic skoraði 26 stig fyrir Njarðvík og tók sjö fráköst í leiknum. Julian Moore var stigahæstur hjá Hamri með 30 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar.

 Kristinn Pálsson var svo stigahæstur hjá Val þegar liðið lagði Grindavík að velli, 96:83, á Hlíðarenda en Kristinn skoraði 28 stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar í leiknum. Dedrick Basile var stigahæstur hjá Grindavík með 26 stig, fjögur fráköst og fjórar stoðsendingar.