Fjölskyldan Frá vinstri: Hermann, Arngrímur, Anna, Hallgrímur og Haukur við opnun ísganganna í Langjökli árið 2015.
Fjölskyldan Frá vinstri: Hermann, Arngrímur, Anna, Hallgrímur og Haukur við opnun ísganganna í Langjökli árið 2015.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arngrímur Hermannsson er fæddur 1. desember 1953 uppi í risi á Bergþórugötu 33 í Reykjavík en þegar hann var sjö ára fluttist fjölskyldan í Rauðagerði í Bústaðahverfi. „Ég fór í sveit níu ára til Moniku á Merkigili í Austurdal í Skagafirði

Arngrímur Hermannsson er fæddur 1. desember 1953 uppi í risi á Bergþórugötu 33 í Reykjavík en þegar hann var sjö ára fluttist fjölskyldan í Rauðagerði í Bústaðahverfi.

„Ég fór í sveit níu ára til Moniku á Merkigili í Austurdal í Skagafirði. Árið eftir og næstu sumur var ég á Innra-Hólmi í Akraneshreppi.“

Eftir gagnfræðaskólann fór Arngrímur sem skiptinemi til Þýskalands. Árið 1976 útskrifaðist hann síðan sem röntgentæknir, nú geislafræðingur, og starfaði bæði á Landspítalanum og Borgarspítalanum. „Eftir útskrift fór ég í starfsnám í Svíþjóð á Huddinge-sjúkrahúsinu sem var það nýjasta þeirra Svía. Þar lærði ég sérstaklega CT-myndatæknina, en þar var eitt fyrsta tækið sinnar tegundar á Norðurlöndum.“

Þegar heim kom tók Arngrímur við stöðu yfirröntgentæknis við Borgarspítalann 1979 og vann þar næstu tíu árin. „Þetta var mjög skemmtilegur tími því miklar tækninýjungar komu fram á þessum tíma.“

Arngrímur sat í stjórn Röntgentæknifélagsins á þessum árum. Svo sat hann í stjórn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og var líka valinn í starfsmannaráð Borgarspítalans.

Árið 1972 byrjaði Arngrímur í Flugbjörgunarsveitinni og gegndi þar mörgum trúnaðarstörfum. Hann sat í stjórn, svæðisstjórn og landsstjórn björgunarsveitanna í mörg ár.

„Þar tók ég þátt í og stjórnaði mörgum björgunaraðgerðum næstu 15 árin, mörgum þeirra mjög krefjandi. Ég stóð fyrir útgáfu bókarinnar Björgunarsveitin mín – Flugbjörgunarsveitin í 70 ár, árið 2020. Þar er stiklað á stóru og nokkrir félagar á öllum aldri segja sögur af sér og sveitinni í 70 ár. Ég stóð einnig að því að skrifa bókina Jeppar á fjöllum þar sem frumkvöðlar á sviði jeppaferða sögðu frá.“

Árið 1988 stofnuðu þau hjónin, Arngrímur og Anna, fyrirtæki í ferðaþjónustunni, Addís, (Add-Ice) sem þau ráku um árabil. Það sérhæfði sig í jeppa- og fjallaferðum um hálendi og jökla Íslands.

„Við snerum áherslunum við og auglýstum óveðursferðir. Við unnum þarna náið með markaðsdeild Icelandair í hverju landi fyrir sig og náðum verulegum árangri í vetrarferðum. Við mættum með ofurjeppa á ferðasýningar og komumst oft á síður heimsblaðanna. Á þessum árum byrjuðum við að aðstoða kvikmyndagerðarmenn.“

Þau Anna voru einnig með ferðaskrifstofu í Danmörku og bjuggu um tíma í Kaupmannahöfn og seldu Íslandsferðir.

Árið 2001 fékk Arngrímur viðskiptaverðlaun sem frumkvöðull ársins.

Arngrímur tók þátt í störfum Samtaka ferðaþjónustunnar og hefur verið virkur meðlimur í Jöklarannsóknafélaginu og tekið þátt í byggingu margra fjallaskála félagsins. „Nokkur ár í röð var ég við þykktarmælingar á jöklum fyrir Raunvísindastofnun og Landsvirkjun í leiðöngrum undir forystu Helga Björnssonar jöklafræðings.“

Arngrímur hefur farið margar ævintýralegar ferðir yfir hálendi Íslands og Grænlands. „Fyrstu stóru skíðagönguferðina fór ég árið 1975 ásamt átta félögum úr Flugbjörgunarsveitinni. Við gengum Eyfirðingaveg frá Akureyri yfir Kjöl til Þingvalla. En erfiðustu ferðina fór ég ári síðar. Við sex félagar í Flugbjörgunarsveitinni gengum að vetrarlagi frá Grenisöldu yfir hálendið niður í Borgarfjörð. 400 km leið á 22 dögum. Þetta hafði aldrei verið gert áður. Ég var í góðu formi en léttist um 10 kg og sumir okkar gengu ansi nærri sér.

Tíu árum síðar ókum við þessa sömu leið á jeppum yfir jöklana þrjá, sjö daga ferð. Með því sendum við skýr skilaboð til björgunarsveitanna að notkun ofurjeppa ætti að vera hluti af tækjabúnaði þeirra.

Fimm leiðangra fór ég til að finna átta bandarískar flugvélar í Grænlandsjökli á árunum 1983-1992. Þetta voru stundum háskalegar ferðir en mikið ævintýri að geta fundið flugvélarnar sem öðrum hafði ekki tekist.

Eftir mikla leit að stuðningsaðilum og eftir að hafa fengið leyfi yfirvalda gat ég skipulagt jeppaferð yfir Grænlandsjökul árið 1999. Við keyrðum á 12 dögum frá austurströndinni til vesturstrandar og aftur til baka á fjórum dögum, þetta hafði aldrei verið gert áður.

Hrunið árið 2008 hitti okkur illa. Við vorum sem betur fer með nýjar hugmyndir um flutninga á ferðamönnum upp á Langjökul. Til að geta það hannaði sonur minn Hermann 8x8-hjóla trukka og annar sonur minn Hallgrímur var með hugmynd um að grafa ísgöng inn í jökulinn. Ice Explorer hélt utan um þetta verkefni okkar þar til það sameinaðist ísgöngunum árið 2015.“

Sameiginlegt félag þeirra, Into the Glacier, fékk nýsköpunarverðlaunin bæði hjá Samtökum ferðaþjónustunnar og á Vest Norden-ráðstefnunni 2015.

„Nú sinnum við ýmsum sérverkefnum sem rata inn á borð okkar. Oftast sérhæfð jöklaverkefni sem fáir eru að sinna. Þá er til efni í eina til tvær bækur sem gaman væri að skrá.“

Fjölskylda

Eiginkona Arngríms er Anna Hallgrímsdóttir fjármálastjóri, f. 2.12. 1954. Þau búa í Fossvogi í Reykjavík. Foreldrar Önnu voru hjónin Kristín Salómonsdóttir, húsmóðir, f. 28.10. 1915, d. 6.3. 1990, og Hallgrímur Pétursson, verkstjóri, f. 14.6. 1918, d. 28.1. 1990.

Synir Arngríms og Önnu eru 1) Hallgrímur Örn, verkfræðingur, f. 20.3. 1979. Eiginkona hans er Ásta Sóllilja Snorradóttir, ferðamálafræðingur, f. 2.6. 1981. Börn þeirra eru Sunna Dís, f. 29.9. 2007, Snorri Snær, f. 6.3. 2009, og Anna Lóa, f. 26.1. 2015; 2) Hermann Arngrímsson, tæknifræðingur, f. 10.10. 1981. Eiginkona hans er Hulda Rós Bjarnadóttir, landfræðingur, f. 17.11. 1983. Dætur þeirra eru Herdís Askja, f. 10.4. 2011, og Unnur Lára, f. 9.7. 2017; 3) Haukur Arngrímsson, flugmaður, f. 3.10. 1986. Eiginkona hans er Þórunn Helga Benedikz, lögfræðingur, f. 23.5. 1983. Börn þeirra eru Þórarinn Örn, f. 18.10. 2015, og Arnheiður Anna, f. 2.11. 2018. Synirnir og fjölskyldur búa öll í Reykjavík.

Systkini Arngríms eru Henný Hermannsdóttir, danskennari, f. 13.1. 1952, og Björn Hermannsson, rekstrarfræðingur, f. 26.8. 1958.

Foreldrar Arngríms voru hjónin Hermann Ragnar Stefánsson, danskennari, f. 11.7. 1927, d. 10.6. 1997, og Unnur Arngrímsdóttir, danskennari, f. 10.10. 1930, d. 31.7. 2014. Þau bjuggu í Reykjavík.