Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
„Ekkert er eins dásamlegt á jörðinni og hafa verið í dýflissu og að frelsast.“

Vilhjálmur Bjarnason

Í ungdæmi ritara var 1. desember hátíðardagur. Þá var frí í skólanum. Fullveldisdagurinn var hátíðardagur stúdenta. Stúdentar fengu málsmetandi karlmann, sjaldan kvenmann, til að flytja hátíðarræðu en á menntaskóla- og háskólaárum ritara fjallaði 1. desember stúdenta um „Ísland úr NATO og herinn burt“.

Aldrei minnist greinarhöfundur þess að nokkur maður hafi rætt um annað fullveldisafsal en aðild að NATO. Sjaldnast var herverndarsamningur við Bandaríkin með viðaukum tilefni til umræðu um fullveldisafsal. Miklu fremur fjallaði „Ísland úr NATO og herinn burt“ um „vernd þjóðernis“ án þess að það væri rætt nánar.

Fullveldi og 17. júní

Ritara hefur orðið tíðrætt um tvenns konar fullveldisafsal á stofnári lýðveldisins 1944. Á því ári gerðist Ísland aðili að þremur alþjóðastofnunum. Í ágúst gerðist Ísland aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum. Í desember gerðist Ísland svo aðili að Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO.

Sennilega eru lánasamningar við Alþjóðabankann og aðrar lánastofnanir fullveldisafsal, samkvæmt túlkun samtímans á fullveldi, því í lánasamningum er oftast ákvæði um ábyrga hegðun í efnahagsmálum. Að öðrum kosti eru lánasamningar uppsegjanlegir og gjaldfelldir.

Með aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fólst afsal á valdi til gengisákvörðunar. Slík ákvörðun þurfti samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Með aðild að Alþjóðaflugmálastofnuninni féllst Ísland á að undirgangast regluvæðingu flugs í heiminum. Viðaukar við stofnsáttmála ICAO hafa fæstir verið þýddir en eftir þeim er starfað.

Því er þetta nefnt, að það er skoðun ritara að fullveldi felist í því að gera frjálsa samninga til að tryggja hagsmuni sína og að deila réttindum með öðrum til sameiginlegs ábata.

Fullveldi og fjárhagslegt sjálfstæði

Það er skoðun ritara að í raun sé fjárhagslegt sjálfstæði ríkja og einstaklinga hinn eini mælikvarði á fullveldi þjóða og heimila. Mælikvarði á fjárhagslegt sjálfstæði þjóða er eign í frjálsum gjaldeyri en mælikvarði á fjárhagslegt sjálfstæði heimila er eign í frjálsu sparifé.

Ritara er það mjög til efs að sú þjóð, sem fékk fullveldi 1. desember 1918, hafi verið fjárhagslega sjálfstæð og fullvalda miðað við það sem á eftir fylgdi. Til dæmis má taka „lög um heimild fyrir landstjórnina að takmarka eða banna innflutning á óþörfum varningi“, dagsett 8. mars 1920. Á næstu 40 árum voru stjórnvöld mjög upptekin við að sauma að landsbúanum í innflutningi og hvers kyns verndaraðgerðum, oftast í neyð en sjaldnast til að greiða úr hinum undirliggjandi vanda.

Ef til vill var það saga aldanna, saga sjálfstæðs manns, sem barðist tómhentur við forynju með nýju og nýju nafni, og tapaði.

Það er fyrst í greinargerð Benjamíns Eiríkssonar árið 1938 að fram kemur bitastæð greining á undirliggjandi vanda þeirrar kreppu sem var framlengd á Íslandi. Eða var kreppa í Reykjavík á árunum milli 1930 og 1940? Húsbyggingar á Sólvöllum og Skólavörðuholti benda ekki til fjárhagskreppu.

Fullveldi og nýsköpun

Það var sagt að stríðsárin hefðu gert „syni mína ríka“. Vissulega var íslenska þjóðin fjárhagslega vel sett við lýðveldisstofnun. Verulegar gjaldeyriseignir höfðu myndast á stríðsárunum. Gjaldeyriseignina átti að nota til „nýsköpunar“.

„Nýsköpunin“ fólst í því að byggja nýja og stærri togara en með sams konar vél og áður, og svo með byggingu síldarverksmiðja. Sú var framförin frá upphafi heimastjórnar að þá átti að tryggja óbreytt ástand í sveitum en nú átti að tryggja svipað ástand í sjávarútvegi. Togararnir urðu þegar allt var talið 42 og tvær nýjar síldarverksmiðjur. Önnur bræddi nánast enga síld.

Um helmingur „nýsköpunartogaranna“ lenti í „bæjarútgerðum“ og nokkrir til viðbótar lentu þar síðar. Ein bæjarútgerð hélt haus, það var Útgerðarfélag Akureyringa hf. Ein einkaútgerð hélt haus, það var útgerð á vegum Júpíters hf. & og Mars hf. Fjórir nýsköpunartogarar lentu í sameign frystihúsa í Reykjavík.

Ríkissjóður var samningsaðili við skipasmíðastöðvar í Bretlandi og ríkissjóður fékk flesta togarana í hausinn aftur til að selja í brotajárn.

Að lokum, þegar Bæjarútgerð Reykjavíkur lauk sínum ferli, gat Reykjavíkurborg byggt ráðhús fyrir það sem annars hefði farið í taprekstur BÚR.

Fullveldi og frjáls verslun

Eftir fullveldi hefur sennilega fyrst komist á frjáls verslun í landinu, og nokkur gjaldeyrisvarasjóður í tíð viðreisnarstjórnar árið 1959. Síðari áfangi frjálsrar verslunar kemst svo á með ríkisstjórn sem settist að völdum 30. apríl 1991 og leiddi til samnings um EES. Það tók 70 ár að nálgast fullveldi.

Ísland stóð af sér áfall í bankahruni 2008-2009 eftir að landráðamenn komust til áhrifa í íslenskum viðskiptabönkum árið 2003.

Fullveldi 2023

Ísland er í dag frjálst, fullvalda og sjálfstætt. Þjóðin á verulega gjaldeyrisvarasjóði og getur staðið af sér ógnir máttarvalda. Þjóðin á verulegar eignir í lífeyrissjóðum. Enn skortir nokkuð á skilning á samhengi frjáls sparifjár og fullveldis.

„Ekkert er eins dásamlegt á jörðinni og hafa verið í dýflissu og að frelsast.“

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason