[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingar munu ekki hafa um viðbrögð að segja, t.d. bólusetningar, rafræn vottorð, ferðafrelsi, innilokanir, grímuskyldu barna og frelsi til athafna.

Þorgeir Eyjólfsson

Á Vettvangi Björns Bjarnasonar 25.11. sl. skrifar hann um trúnaðarbrestinn gagnvart WHO og telur tortryggni vegna farsóttarsáttmálans tengjast viðhorfi í garð stjórnvalda vegna Covid-19-aðgerða þeirra. Tekið skal undir með Birni þegar hann talar um að trúnaðarbrestur hafi orðið meðal almennings í garð WHO. Það er ekki að ástæðulausu þar sem mistök stofnunarinnar síðustu misserin eru mörg sem ekki er rúm hér til að tíunda.

Björn hefur ekki kynnt sér efni frumvarpsdraganna af gaumgæfni eins og sést af eftirfarandi tilvitnun í greinina: „Í opinberri tilkynningu á WHO CA+ er mikil áhersla lögð á fullveldi ríkja. Í frumvarpsdrögunum á að standa skýrum stöfum að ríki hafi fullveldisrétt til að ákveða sjálf og stjórna hvernig þau haga heilsugæslu sinni, þar á meðal sóttvörnum, viðbúnaði og viðbrögðum. Ríkjum er ekki skylt að grípa til neinna sérstakra aðgerða eða ákvarðana að tillögu WHO. Ráðið hefur ekki yfirþjóðlegt vald.“

Björn horfir fram hjá að í drögum að frumvarpinu er ný grein, 13A (mynd). Grein 13A kveður á um að aðildarríki skuldbindi sig til að fara að tillögum WHO (and undertake to follow WHO's recommendations) um faraldursviðbrögð. Þessa málsgrein er mikilvægt að lesa í samhengi við 18.1. grein reglnanna (mynd) sem standa óbreyttar frá fyrri reglum. Það sem áður voru tilmæli um hugsanlegar ráðstafanir verður nú skylda. Því er ljóst að Björn hefur rangt fyrir sér þegar hann segir að íslensk stjórnvöld geti ákveðið sjálf og stjórnað hvernig þau haga faraldursráðstöfunum eins og sóttvörnum, viðbúnaði og viðbrögðum. Til að tala skýrt munu breyttar reglur hafa í för með sér að Íslendingar munu ekkert hafa um faraldursviðbrögð hér á landi að segja, t.d. bólusetningar og hugsanlega skyldu, rafræn vottorð um bólusetningar, ferðafrelsi, innilokanir, grímuskyldu barna og fullorðinna og frelsi til daglegra athafna svo fátt eitt sé upptalið.

Breytingarnar á reglum og valdi WHO eru margar. Hér hefur aðeins einnar breytingar verið getið. Margar aðrar breytingar er hægt að draga í efa að eigi nokkurn rétt á sér eða að þær séu til þess fallnar að vernda heilsu mannkyns. Breytingin á reglunum sem færir ákvarðanatöku um faraldursviðbrögð Íslands til einstaklings sem á hverjum tíma veitir WHO forystu er að mínu mati fráleit og þá er varfærnislega tekið til orða. Grunnhugsunin að tilvist WHO hefur breyst með árunum en í dag er stofnunin fjármögnuð að meirihluta af einkaaðilum eins og sjóði fyrrverandi Gates-hjóna. Af þeirri ástæðu einni er full ástæða fyrir íslensk stjórnvöld að fara sér hægt í málinu og íhuga hvert spor.

Það er ekki rétt hjá Birni þegar hann fullyrðir í grein sinni að „sáttmálinn skuldbindur ekki íslenska ríkið nema alþingi samþykki og það samræmist stjórnarskrá Íslands“. Reglur WHO kveða ekki á um hvaða stofnun einstakra aðildarlanda fjallar um samþykkt ríkis að breyttum reglum stofnunarinnar. Breytingarnar krefjast ekki samþykkis alþings nema þingið sjálft eða ríkisstjórn ákveði. Starfsmaður heilbrigðisráðuneytisins getur með umboði ráðherra staðfest aðild Íslands að breyttum IHR-reglum WHO.

Þjóðirnar koma nú fram hver af annarri og lýsa efasemdum um fyrirhugaðar breytingar og gæta að rétti sínum með tilliti til dagsetninga og fresta, nú síðast Eistland. Full ástæða er fyrir íslensk stjórnvöld til að gera slíkt hið sama. Það hindrar ekki að ef viðunandi breytingar á regluverkinu nást geti Ísland orðið fullur þátttakandi.

Höfundur er eftirlaunaþegi.

Höf.: Þorgeir Eyjólfsson