Grindvíkingar mótmæltu í höfuðstöðvum Gildis lífeyrissjóðs og Landssamtaka lífeyrissjóða í gær. Var markmiðið að þrýsta á lífeyrissjóði að koma betur til móts við Grindvíkinga sem nú þurfa að finna sér nýtt húsnæði með tilheyrandi kostnaði en krafan er að vextir og verðbætur á lánum verði felldar niður tímabundið og þannig sé fylgt fordæmi bankanna.
Landssamtök lífeyrissjóða sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem segir að nú sé kannað hvernig lífeyrissjóðir geti innan ramma laga tekið þátt í að mæta þeim erfiðu aðstæðum sem Grindavíkingar standi frammi fyrir. Nú þegar hafi sjóðirnir tryggt tímabundið greiðsluskjól vegna sjóðfélagalána og á meðan það stendur frestist greiðsla afborgana, vaxta og verðbóta. Lífeyrissjóðir hafi hins vegar ekki verið hafðir með í ráðum þegar bankar féllust á að fella niður vexti og verðbætur til þriggja mánaða vegna húsnæðislána Grindvíkinga með atbeina stjórnvalda en unnið verði að því á næstu dögum að tryggja farsæla lausn með aðkomu lífeyrissjóða.