VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Ég skrifaði þessa bók sem seinna bindið í sögu Þorgerðar, en margir hafa spurt mig hvort ekki sé von á framhaldi þannig að ég ætla ekki sverja fyrir að ég muni skrifa meira um hana í framtíðinni. Hitt veit ég þó að næsta bók verður ekki um Þorgerði, því ég er byrjuð á henni og hún er um allt annað – og verður reyndar ekki skáldsaga. Vinnuheitið er „Öðruvísi bókin“, en meira segi ég ekki um hana að svo stöddu,“ segir Vilborg Davíðsdóttir sem nýverið sendi frá sér bókina Land næturinnar.
Þessi sögulega skáldsaga er sjálfstætt framhald á bókinni Undir Yggdrasil sem kom út 2020 og fjallar um viðburðaríkt líf Þorgerðar Þorsteinsdóttur, sonardóttur Auðar djúpúðgu. Eftir að hafa lifað mikinn harm heima á Íslandi heldur Þorgerður til Noregs þar sem örlögin leiða hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs Eyvindarsonar. Saman halda þau til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði, eins og segir á kápubaki nýjustu skáldsögu Vilborgar.
Sagan vatt upp á sig
„Þegar ég byrjaði að skrifa sögu Þorgerðar árið 2018 var planið að bókin myndi ná til Aldeigju sem er skammt frá staðnum þar sem St. Pétursborg er í dag. Fljótlega eftir að ég byrjaði að skrifa Undir Yggdrasil rann það upp fyrir mér að þetta yrði að vera stærra verk vegna þess að Þorgerður er mjög víðförul og því yrðu bækurnar tvær hið minnsta,“ segir Vilborg og rifjar upp að fjallað er um Þorgerði í Laxdælu.
„Samkvæmt Laxdælu og Landnámu kemur hún upphaflega til Íslands frá Skotlandi ásamt ömmu sinni, Auði djúpúðgu. Eftir að fyrri maður hennar deyr heldur hún umsvifalaust úr landi og fer til Noregs þar sem sagt er að margir göfugir frændur hafi tekið á móti henni. Það er mjög skrýtið því allir hennar frændur voru annaðhvort fallnir í bardögum á Skotlandi eða orðnir landnámsmenn á Íslandi. Þannig að eina fólkið sem kemur til greina eru ættingjar skyldir móðurafa hennar, Eyvindi austmanni Bjarnasyni, sem sagður er frá Gautlandi í Svíþjóð. Það hentaði mér ágætlega að búa til fjölskyldu fyrir Þorgerði í Svíþjóð, vegna þess að samkvæmt fornleifum og rituðum heimildum komu flestir þeir norrænu menn sem sigldu suður Dnépurfljót til Miklagarðs frá Eystrasaltsströndum og eyjum Svíþjóðar.“
Lýgur með ábyrgum hætti
Bendir hún á að þó Þorgerður sé samkvæmt Laxdælu víðförul kona þá sé ferðalag hennar um Austur-Evrópu komið frá sér. Vilborg bætir við að grúsk hennar í ýmsum sagnfræðilegum og fornleifafræðilegum heimildum skapi frjóan akur fyrir ímyndunaraflið til að skálda í eyðurnar og vefa þéttan frásagnarvef.
„Valur Gunnarsson sagnfræðingur orðaði þetta svo skemmtilega á viðburði sem við tókum þátt í á degi íslenskrar tungu fyrir skemmstu þegar hann sagði: „Þegar Vilborg lýgur þá gerir hún það alltaf með mjög ábyrgum hætti,““ segir Vilborg og hlær dátt. Svo skemmtilega vill til að Valur beinir sjónum sínum einnig að þúsund ára sögu Úkraínu og nágrennis í nýjustu bók sinni sem nefnist Stríðsbjarmar. „Þar rekur hann sögu Úkraínu síðustu þúsund árin og er af þeim sökum að skoða sömu heimildir og ég hef legið yfir síðustu árin.“
Í ljósi þess að Vilborg valdi að staðsetja ferðalag Þorgerðar í Austur-Evrópu löngu fyrir innrás Rússa í Úkraínu snemma árs 2022 liggur beint við að spyrja hvernig henni hafi orðið við þegar sögusvið bókar hennar, sem gerist um árið 900, komst skyndilega í brennidepil í samtímanum. „Það var mjög skrýtið, svo vægt sé til orða tekið, að sjá skyndilega í fréttum alla daga örnefni sem koma við mína sögu og ég vissi nákvæmlega hvar voru á landakortinu,“ segir Vilborg og nefnir í því samhengi Kænugarð, Zaporizhzhia, Maríupol, Kherson og Dnépurfljót. „Í tengslum við skrif sögulegra skáldsagna minna hef ég lagt það í vana minn að heimsækja sögustaðina í rannsóknarskyni. Ég hafði planað að fara til Ladoga og Novgorod í Rússlandi í fyrra, en sú fyrirætlan var auðvitað úr sögunni um leið og Rússar réðust inn í Úkraínu snemma árs 2022.“
Stórhættulegt flúðasvæði
Aðspurð jánkar Vilborg því að hafa grúskað í margvíslegum heimildum til að fanga sem best tíðarandann í bók sinni. „Íslendingasögur nefna sumar staði í Austurvegi eða í Garðaríki, sem í samtímaheimildum er nefnt Rúsveldið. Þetta er stórt ríki sem er við lýði frá 9. öld og fram á 13. öld þegar Mongólar leggja það undir sig,“ segir Vilborg og bendir á að ein heimildanna sem hún notaði óspart sé grískt rit frá 10. öld.
„Þetta er nokkurs konar handbók um utanríkismál sem keisarinn í Konstantínópel skrifaði fyrir son sinn þar sem hann fjallar um þær þjóðir sem búa í kringum aust-rómverska keisaradæmið. Þar lýsir hann Rúsum sem safnist saman í Kænugarði á vorin þegar Dnépur hefur brotið af sér ísinn og koma siglandi á eintrjáningum yfir stórhættulegt flúðasvæði sem er á 66 km belti á milli tveggja borga sem hafa verið mikið í fréttum vegna stríðsins í Úkraínu, en þetta eru Dnípró og Zaporizhzhia,“ segir Vilborg og nefnir að „zaporizhzhia“ þýði bókstaflega „handan við flúðirnar“.
„Þessar flúðir hurfu allar undir vatn þegar Stalín lét stífla Dnépur árið 1932 til að smíða orkuver,“ segir Vilborg. Bendir hún á að ein þeirra, Kakohvka-stíflan, hafi verið sprengd af Rússum í júní í sumar og þá hafi flætt úr miklu uppistöðulóni yfir byggðir fyrir neðan. Á strönd eyjarinnar Khortytsa, sem er hluti af Zaporizhizia, kom þá í ljós 6,7 metra langur eintrjáningur sem er nú í aldursgreiningu, en er talinn líklega meira en 1000 ára gamall, og því frá sögutíma skáldsögu hennar.
Þorgerður orðin ambátt
Aðspurð segist Vilborg hafa skrifað Land næturinnar sem sjálfstætt framhald á Undir Yggdrasil. „Auðvitað má segja að það sé skemmtilegra fyrir lesandann að hafa lesið Undir Yggdrasil áður til að kynnast baksögu Þorgerðar, en það er ekki nauðsynlegt til að njóta þessarar bókar. Fléttunni í Undir Yggdrasil er alveg lokað í þeirri bók og í Landi næturinnar hefst ný frásögn sem er lokað á síðasta kaflanum,“ segir Vilborg og bendir þó á að tengsl Þorgerðar við undirheima heiðninnar séu áfram til umfjöllunar í nýju bókinni.
„Í Undir Yggdrasil lærir Þorgerður fjölkynngi,“ segir Vilborg. Bæði þar og í Landi næturinnar sé hún að skoða hvernig heiðni var lifandi trú í kringum árið 900. „Meðal annars hvernig konur töluðu við sínar gyðjur og frömdu rúnagaldur,“ segir Vilborg og rifjar upp að markmiðið með seiðferðum völva var að komast í tengsl við hina dauðu til að sækja upplýsingar samfélaginu til handa um fortíð og framtíð.
„Þorgerður nýtir fjölkynngi sína á upphafssíðum Lands næturinnar, en þar mætum við henni sem ambátt. Hún hefur lent í miklum háska og frelsi hennar er fyrir bí. Eina ráðið til bjargar er að komast í seiðferð, en í aðstæðunum sem hún er í er það útilokað með þeirri aðferð sem hún þegar kann og því þarf hún að leita annarra leiða. Við sjáum hana því rista rúnir á ullarstaf sem konur nýttu við spuna á snældu,“ segir Vilborg og bendir á að í sagnaarfinum tengist spuni og fjölkynngi sterkum böndum. „Þó við vitum ekki nákvæmlega hvernig þau tengsl voru finnst mér blasa við að völurinn, stafurinn sem völvan er kennd við, var náskyldur ullarstafnum.
Lesandinn verður síðan að lesa rúma hálfa bókina til að komast að því hvernig Þorgerður endaði í þessum aðstæðum og hvernig hún kemst út úr þeim aftur, því eftir fyrsta kaflann fer frásögnin hálft ár aftur til þess tíma þegar Þorgerður var enn frjáls kona,“ segir Vilborg og rifjar upp að þó hún hafi verið löngu ákveðin í því að segja sögu þar sem farið væri í ferðalag um alla Austur-Evrópu og suður til Miklagarðs, þá hafi fléttan ekki kviknað fyrr en hún fór að skoða hvaða gripir frá víkingaöld komið hafi úr jörðu við Aldeigju, Hólmgarð og Kænugarð.
Fyrirtaks galdrarista
„Ég komst nefnilega yfir grein um rúnaristu á ullarstaf sem kom upp úr jörðu í Ladoga, sem er bær skammt frá St. Pétursborg sem var gáttin að verslunarleiðöngrunum á sínum tíma. Þar hefur fundist talsvert af mannvistarleifum og gripum frá norrænum mönnum,“ segir Vilborg. Rúnirnar á umræddum ullarstaf séu skrifaðar í belg og biðu án orðabila sem geri að verkum að lesa megi sex ólíkar merkingar úr ristunni.
„Ég fann grein frá rússneskum málvísindamanni sem færði sannfærandi rök fyrir því að þessi gripur væri ullarstafur, sem nýttur hefði verið við spunavinnu. Byggði hann þá niðurstöðu sína bæði á lögun gripsins sem er með fjóra tinda á endanum og orðum sem nefna vefjaráhöld,“ segir Vilborg og bendir á að enginn annar hafi verið búinn að átta sig á þessu. „Mér fannst það hins vegar augljóst þegar ég sá gripinn því ég veit hvernig þeir líta út eftir að hafa kynnt mér rækilega textílvinnu formæðranna.
Ég sá í hendi mér að þetta gæti verið fyrirtaks galdrarista til þess að umbreyta ullarstafnum í völvustaf til seiðferðar. Og skyndilega sá ég Þorgerði fyrir mér með hníf í hönd að rista þessar rúnir og þar með fór sagan á flug,“ segir Vilborg. Hún segist hafa sett sig í samband við greinarhöfundinn sem heitir Yuri Kuzmenko og er prófessor emeritus við háskólann í St. Pétursborg. „Þar bar ég hugmynd mína undir hann, á ensku. Hann skrifaði til baka á ágætri íslensku og var hjartanlega sammála því að þetta gæti gengið upp. Ég er því með gæðastimpil frá sérfræðingi þegar kemur að túlkun minni,“ segir Vilborg kát að lokum.