Daníel Karl Pálsson fæddist 24. júní 1938. Hann lést 17. október 2023. Útför hans fór fram 22. nóvember 2023.

Karl Pálsson kom kornabarn til ömmu minnar og afa og var alinn upp hjá þeim norður í Jökulfjörðum; fyrst á Steinhólum og síðar í Grunnavík. Alltaf var litið á Kalla, eins og hann var kallaður af okkar fólki, sem eitt af börnum þeirra og sama gerði hann. Kalli hafði þó alltaf eitthvert samband við móður sína, þótt langt væri á milli þeirra þegar hann var barn. Eftir að hann flutti suður og styttra var orðið á milli þeirra ræktuðu þau vel samband sitt.

Þegar amma og afi tóku mig nokkra mánaða gamlan í fóstur var Kalli kominn undir fermingu. Kalli er því í mínum fyrstu minningum og samofinn æsku minni. Þessi stóri, sterki og flotti strákur var mér mikil fyrirmynd.

Kalli var kraftmikill unglingur sem vílaði fátt fyrir sér. Um fermingu var hann farinn að sækja kindur í kletta, skjóta fugl í matinn og róa á trillunum í Grunnavík. Hann var góður sundmaður og hafði vanist sjósundi þegar hann var í Reykjanesskóla. Óhætt er að fullyrða að það hafi bjargað lífi hans og Ragúels fósturbróður hans þegar trillunni Mumma hvolfdi undir Staðarhlíð 15. nóvember 1954 og hann og Kristján Lyngmó náðu að synda í land með Ragúel, sem var ósyndur. Var þetta mikið afrek hjá þeim öllum, ekki síst hjá Kalla sem var aðeins 16 ára gamall.

Kalli var varla nema unglingur þegar hann fór að fara á vertíðir og róa á línu og netum. Fyrstu árin var hann í Vestmannaeyjum, en seint á 6. áratugnum réð hann sig á Faxaborgina frá Hafnarfirði, þar sem Gunnar Hermannsson úr Ögurnesinu var skipstjóri. Kalli var að vísu búinn að ráða sig á annan bát, en var spurður fyrir tilviljun hvort hann vildi ekki alveg eins fara á Faxaborgina. Kalla var alveg sama um það. Þegar hann kom um borð í Faxaborgina þekkti hann flesta í áhöfninni, enda voru margir Vestfirðingar með Gunnari. Þegar Gunnar fór í eigin útgerð og lét byggja fyrir sig fyrstu Eldborgina fór Kalli, eins og flestir eða allir undirmenn Gunnars, með honum á nýja skipið. Kalli var svo með Gunnari og Bjarna syni hans á þriðja áratug á fjórum Eldborgum.

Í Grunnavík var það talið sjálfsagt að allir ungir menn færu á sjóinn. Var draumur þeirra að komast í gott skipsrúm. Leikir mínir og áhugamál snerust því að miklu leyti um báta og sjómennsku. Besti báturinn minn fékk auðvitað nafnið Eldborg. Í hverri viku á sumrin var lesinn upp afli síldarskipanna. Oftast var Eldborgin meðal aflahæstu skipa og þá fylltist ég stolti.

Kalli var ekki orðinn fullra 21 árs gamall þegar þau Líneik giftu sig og man ég að hann þurfti að fá undanþágu vegna aldurs. Hjónabandið var þeim báðum mikið gæfuspor. Þau eignuðust fjögur börn, en upplifðu þá þungbæru sorg að missa elsta soninn í bílslysi aðeins rúmlega ársgamlan. Ég man vel eftir sorginni sem hvíldi yfir Grunnavíkinni þegar fréttin barst af þessu hræðilega slysi.

Kalli fékk ekki mikið af veraldlegum auði með sér út í lífið, en því meira af hjartagæsku og fallegum fyrirbænum. Allt það þakkaði hann og launaði ríkulega.

Ég þakka Kalla fyrir meira en 70 ára samvistir og vinskap og bið honum og fjölskyldu hans Guðs blessunar.

Smári Haraldsson.