Skáldsaga 3 Klukkan var að verða tíu og Högni var ennþá að reyna að einbeita sér að gögnunum á skrifborðinu, búinn að sitja við síðan klukkan níu. Hugurinn leitaði sífellt aftur til gærkvöldsins, þar sem hann sat á kontórnum sínum hjá…

Skáldsaga 3

Klukkan var að verða tíu og Högni var ennþá að reyna að einbeita sér að gögnunum á skrifborðinu, búinn að sitja við síðan klukkan níu. Hugurinn leitaði sífellt aftur til gærkvöldsins, þar sem hann sat á kontórnum sínum hjá Framtíðarstofnun og augun hvörfluðu ýmist að riffluðum gardínunum eða hvíldarskjánum á tölvunni: ljósmynd af syni hans hlæjandi við hringekju í Tívolí í Kaupmannahöfn fyrir tíu árum síðan – sem Högni horfði svo oft á með trega að hann var alltaf á leiðinni að skipta henni út en fékk það heldur ekki af sér.

Í rauninni mátti hann klappa sér á bakið. Hann var sá skilvirkasti í að skila frá sér álitsgerðum í krefjandi málum, vanur því að flækjustigin rötuðu inn á borð hjá honum sem vann hraðar en flestir, með margþættari menntun en aðrir þarna.

En það var órói í honum.

Skáldsaga 4

Ég bið ekki um mikið.

Einungis líkama sem líkist mér.

Það er allt og sumt.

Undanfarið hef ég farið í nokkrar könnunarferðir meðfram strandlengju höfuðborgarinnar í leit að heppilegum stað til að ganga í sjóinn. Ég hef margoft farið í gegnum síðustu stundina og sé fyrir mér að hún verði nokkurn veginn svona. Salt fer illa með rúskinn og því klæði ég mig úr kápunni áður en ég legg á djúpið. Ég skil veskið eftir í fjörunni, með skilríkjum og húslyklum, bæði að útidyrahurðinni niðri sem er læst eftir klukkan tíu á kvöldin og að íbúðinni á sjöundu hæð í 60 plús blokkinni. Ég legg veskið ofan á stein, hnöttótt fjörugrjót sem Norður-Atlantshafið hefur slípað til. Síðan brýt ég kápuna saman og legg hana við hliðina á veskinu. Hún er keypt í búð sem selur notuð föt og er með loðkanti bæði í kringum hálsinn og framan á ermum. Ég passa vel upp á flíkurnar mínar.

Skáldsaga 5

Virkið birtist álengdar fyrir sjónum þeirra um hádegi og sólin, hátt á lofti á léttskýjuðum himni, varpar geislum sínum á árvatnið svo að glitrar á það. Aldeigjuborg, umlukt skíðgarði úr oddhvössum bjálkum, stendur uppi á hæð á mótum Volkhovfljótsins og lítillar þverár til vesturs. Hlýtt er í veðri og þótt svolítil gola bæri laufið á trjánum meðfram bökkunum dugir hún ekki til að þenja segl Gnoðarinnar að neinu gagni. Skipverjarnir átta sitja því undir árum, sumir búnir að draga af sér þykka vaðmálskyrtlana og eru berir að ofan í sumarhitanum, sigluráin lækkuð niður á stokka. Sjálf er Þorgerður komin í léttan kjól sem hún skar sér úr grænu línklæði sem hún keypti á markaðinum í Brenneyjum, og saumaði á siglingunni upp með strönd Kúrlands. Vestanbyrinn hélst alla leiðina inn Kirjálabotn, þannig að hægt var að sigla bæði dagfari og náttfari, og þaðan upp ána Nevu, breiða og vatnsmikla, alla leið inn á Aldeigjuvatnið. Svo feiknastórt er það að hvergi eygði til bakka við sjóndeildarhring í norðri þótt himinn væri þá skafheiður, líkara hafsjó en stöðuvatni.

Svörin má finna á síðu 30.