Skáldsaga 6 Prins var enn einu sinni farinn yfir í næsta líf og skildi ekkert eftir sig nema skelina. Nú lá hann innpakkaður í grænt flísteppi með tyggigúmmíbleikan varalit og ljósan augnskugga í kringum innfallin augun

Skáldsaga 6

Prins var enn einu sinni farinn yfir í næsta líf og skildi ekkert eftir sig nema skelina. Nú lá hann innpakkaður í grænt flísteppi með tyggigúmmíbleikan varalit og ljósan augnskugga í kringum innfallin augun. Glitrandi glimmer í kinnunum. Stjörnustrákur, þú ert orðinn fallegur aftur, muldraði ég og virti fyrir mér höfundarverk mitt.

Nokkrum klukkustundum áður hafði ég læðst inn í loftlaust herbergið með kaffibolla fyrir Prins, eins og ég gerði alla morgna. Svart með einum sykurmola í gömlum og skörðóttum bolla með mynd af rúmenskum kastala og miðaldalegu letri þar sem á stóð: I'm not yelling. Im Romanian.

Einhver ætti að rannsaka ferðalag kaffibolla um heiminn, hugsaði ég með sjálfri mér þegar ég hellti svörtu kaffinu í bollann. Við vorum ekki í Rúmeníu heldur Marokkó, fyrir utan Ouarzazate, stóra borg milli Sahara eyðimerkurinnar og Atlasfjallanna. Ég gekk að rúminu og lagði bollann frá mér en hann hafði rétt snert dökkbrúnt yfirborð náttborðsins þegar það rann upp fyrir mér að Prins lægi ekki vakandi í rúminu að horfa á mig í þögn heldur væri hann dáinn. Steindauður. Ég lagði höndina yfir varir hans, enginn hiti, enginn andardráttur.

Skáldsaga 7

Hann hafði dvalist á Filippseyjum í tæpa þrjá mánuði og dvölin þar var næstum á enda komin um sinn og í rauninni hafði hún verið heimsmeistaranum nokkur vonbrigði, það var margt sem hann hafði vonað að yrði þar um slóðir sem ekki varð, hann myndi snúa aftur til Japan þótt hann væri farið að langa mest til Bandaríkjanna, þaðan var hann upprunninn, þar hafði hann búið stærstan hluta lífsins og það er eitthvað meira en menn geta ímyndað sér sem ekki hafa reynt það að vera útlægur frá sínu heimalandi. En hann var á þann hátt útlægur ger frá sínum heimahögum að stjórnvöld voru búin að gefa út að ef hann sneri heim biði hans þar tíu til fimmtán ára fangavist auk sektar upp á hærri fjárhæð en sem nam aleigu hans. Hann var að vísu brynjaður með réttmætum fjandskap í garð stjórnvalda heimalandsins, dómskerfis, ríkisstjórnar, leyniþjónustu, enda hafði allt þetta ekki aðeins brugðist honum og hans fólki heldur beitt þau ofbeldi og kúgun, og þannig hafði hann fyrstu árin eftir að honum varð ljóst að hann ætti ekki afturkvæmt heim reynt að hugsa sem svo að hann mætti vera feginn því að til þessa ríkis landtökuræningja og ofbeldismanna hefði hann ekkert að sækja, en fyrir komu samt þau augnablik, þeir tímar, að þessi staða varð honum á einhvern hátt óbærileg, hann hafði ekki getað farið og sótt eigur sínar, þar á meðal persónuleg bréf, bókasafn sitt, verðlaunapeninga og gripi, sem vondir menn hrifsuðu til sín fyrir vikið og seldu á hrakvirði honum til háðungar

Skáldsaga 8

Hún hafði oft setið í strætó en þá yfirleitt á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hún ólst upp á sveitabæ í Eyjafirði, ekki svo langt frá Akureyri, og frá því hún var krakki hafði hún reglulega farið ein í strætó suður. Þar bjó Freyja móðursystir hennar ásamt Sigmari manninum sínum og Atla Frey og Gunnari Þór sonum sínum. Freyja og Sigmar voru nánast eins og aukaforeldrar og Atli Freyr bróðirinn sem hún eignaðist aldrei. Þau voru næstum því jafnaldrar, hann var bara árinu eldri og þau höfðu alltaf verið góðir vinir, líka eftir að Blær kom út sem trans, það breytti engu á milli þeirra, gerði samband þeirra dýpra og dýrmætara ef eitthvað var.

Svörin má finna á síðu 30.