Ísafjörður Nýja fyrirtækið verður til húsa við Sindragötu í Ísafjarðarbæ.
Ísafjörður Nýja fyrirtækið verður til húsa við Sindragötu í Ísafjarðarbæ. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísfirðingar eru ekki af baki dottnir þótt Skaginn 3X hafi tilkynnt í ágúst að starfsemi fyrirtækisins á Ísafirði yrði hætt. Í dag tekur til starfa nýtt fyrirtæki í bænum, Ístækni ehf., sem fest hefur kaup á tækjum og framleiðslubúnaði Skagans 3X auk …

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ísfirðingar eru ekki af baki dottnir þótt Skaginn 3X hafi tilkynnt í ágúst að starfsemi fyrirtækisins á Ísafirði yrði hætt. Í dag tekur til starfa nýtt fyrirtæki í bænum, Ístækni ehf., sem fest hefur kaup á tækjum og framleiðslubúnaði Skagans 3X auk þess að bjóða þeim starf sem misstu vinnuna í ágúst.

Tuttugu og sjö var sagt upp í ágúst og hafa einhverjir þeirra horfið til annarra starfa eins og gengur. Tólf starfsmenn eru hjá Ístækni frá deginum í dag en í byrjun janúar verða þeir rúmlega 20 að sögn Jóhanns Bærings Gunnarssonar véliðnfræðings sem er framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis.

„Við sáum fram á að tæknistigið sem snýr að þjónustu við sjávarútveg og annan iðnað á svæðinu væri að fara aftur um 40 ár ef þessi starfsemi færi úr bænum. Af því spratt þessi hugmynd um að fara af stað og kanna áhuga starfsmanna á að endurreisa þessa starfsemi,“ segir Jóhann.

Sameinast Þristi um áramót

Nýja fyrirtækið mun ekki róa alfarið á sömu mið og Skaginn 3X gerði eða 3X Stál gerði áður. Fyrirtækið sameinast Þristi, rótgróinni vélsmiðju á Ísafirði, og starfsemin verður því fjölbreyttari. Sameinað fyrirtæki mun sérhæfa sig í hönnun og framleiðslu á búnaði og tækjum fyrir sjávarútveg, laxeldi og annan matvælaiðnað. Auk nýsmíði mun fyrirtækið bjóða upp á viðgerðar- og viðhaldsþjónustu.

„Við sjáum fyrir okkur að vera með tvo bestu eiginleika þessara tveggja fyrirtækja. Annars vegar afbragðs framleiðslufyrirtæki sem 3X var og er og hins vegar afbragðs þjónustufyrirtækið sem Vélsmiðjan Þristur er. Með þetta að leiðarljósi teljum við að við getum staðið okkur vel í þeim áskorunum sem fram undan eru,“ segir Jóhann Bæring en fyrirtæki og einstaklingar á svæðinu standa að baki Ístækni. Í þeim hópi eru þó nokkrir fyrrverandi starfsmenn Skagans 3X og Vélsmiðjunnar Þrists.

Höf.: Kristján Jónsson