Byggðasafn Skagfirðinga stendur fyrir útgáfuhófi og aðventugleði í Glaumbæ sunnudaginn 3. desember kl. 16. Auk aðventunnar er tilefnið bókin Vetrardagur í Glaumbæ, sem er framhaldssaga barnabókarinnar Sumardagur í Glaumbæ. Bókin er gefin út á fjórum tungumálum; íslensku, frönsku, þýsku og ensku. Höfundur texta er Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri Byggðasafnsins og myndirnar í bókunum teiknaði Jérémy Pailler.
Glaumbær verður sveipaður vetrarbúningi og hægt verður að fylgjast með söguhetjum bókarinnar við jólaundirbúning. Leitast verður við að draga fram raunverulegar frásagnir og lýsingar út frá heimildum og gæða þær lífi, segir í tilkynningu frá Byggðasafninu.
Sögusvið bóka Berglindar og Byggðasafnsins er prestssetrið Glaumbær og sögurnar að mestu byggðar á raunverulegum frásögnum og fólki sem bjó í Glaumbæ og Skagafirði á 19. öld. Í bókinni Vetrardagur í Glaumbæ er fylgst með krökkunum Jóhönnu og Sigga og heimilishundinum Ysju við jólaundirbúning á bænum. „Þrátt fyrir að einungis séu um 140 ár frá því sagan á að hafa átt sér stað hefur daglegt líf fólks tekið gríðarlegum breytingum og er fátt sambærilegt í lífi fólks þá og nú. Sumt breytist þó ekki í tímans rás – eins og fjölskyldubönd, þörf fyrir öryggi, vinskap, gæðastundir og hlátur,“ segir í tilkynningu safnsins.