Viðtal
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Það kom eflaust mörgum á óvart þegar spurðist að Auður Ava Ólafsdóttir myndi senda frá sér bók á þessu ári, enda kom Eden út á síðasta ári og hún hefur ekki haft það fyrir sið að gefa bók út árlega. Í spjalli segir hún líka að það hafi gerst nánast óvart og sé ekki vísbending um að hún hyggist gera slíkt framvegis: „Ég ætla bara að segja það við þessa upptökuvél,“ segir hún, „að þetta bara lagðist svona, ég ætla ekki að vera með bók á hverju ári.“
Auður segir að hún hafi unnið DJ Bamba samhliða Eden, „og svo bara tólf tíma á dag þegar ég var búin að skila Eden og ég held ég hafi ekki skrifað jafn mörg uppköst að neinni bók þar til ég fann bókina sem ég ætlaði að skrifa, mína bók. Ég skar mikið niður, ég eimaði, ég sauð þessa sósu svo að hún daðrar kannski smá við prósa, en þetta var sú bók sem ég var með í hausnum.“
Einhvers konar þríleikur
Þeir sem lesið hafa Eden, DJ Bamba og svo Dýralíf sem kom út 2020, finna vissan samhljóm í bókunum þó þær séu vissulega ólíkar, og Auður tekur undir það að það séu ákveðin tengsl á milli þeirra.
„Ég hugsa oft í þremur bókum, þrjár fyrstu og svo komu þrjár næstu og svo þessar en í covid fékk ég þá hugmynd að skrifa einhvers konar þríleik þar sem fyrsta bókin væri um ljósið, sem er Dýralíf, önnur bókin um orðið, sem er þá Eden, og þriðja bókin er um tímann, sem er þá DJ Bambi. Gjörólíkar sögupersónur og gjörólíkt sögusvið og allt það, og það er enginn sem veit um þessa tengingu nema ég, og núna þú. Það sést reyndar líka á kápunum, þær tengjast allar, þessar þrjár kápur með eitthvað miðjusett sem Ólafur Kristjánsson vann.
Það gildir nú almennt um sögupersónur í mínum bókum að starfssvið þeirra tengist efni bókarinnar þannig að í Dýralífi, sem fjallar um ljósið, er skáldlega lógískt að söguhetjan sé ljósmóðir. Í Eden, sem fjallar um orðið og er óður til þessa fámennistungumáls okkar, er söguhetjan sérfræðingur í fámennistungumálum, og í DJ Bamba er söguhetjan lífeindafræðingur og sérfræðingur í frumum, smæstu byggingareiningum mannslíkamans, sem gefur þá fyrirheit um það að líkaminn verði í öndvegi í bókinni,“ segir Auður, en DJ Bambi er sextug trans kona sem fæðist strákur en finnst hún alltaf hafa verið stelpa og er að bíða eftir að komast í aðgerð. Hún vann áður sem plötusnúður og þar kemur titillinn DJ Bambi.“
Gestur í eigin lífi
Myndi hún ekki segja að hún hefði fæðst sem stelpa?
„Jú, hún er kona og það er hennar sorg og hennar sársauki að líkaminn samsvarar ekki því sem hún er. Hún vinnur líka við krufningar og hugsar um líkamann eins og hylki eða hulstur og vill ekki deyja nema það sé rétt hulstur í kistunni.
Það endurspeglar líka að þarna erum við með eldri konu sem horfir til baka yfir líf sitt og finnst eins og líf hennar tilheyri henni ekki, eins og hún sé að leika í bíómynd og sé ekki ánægð með handritið, eins og hún sé gestur í eigin lífi. Það er orðið brýnt fyrir hana að klára hluti áður en hún deyr, því þó hún sé ekki að deyja er minna eftir en er búið, eðli málsins samkvæmt.
Höfundur getur ekki haft reynslu af öllu sem hann skrifar um, þess vegna tölum við um skáldskap, og þess vegna er skáldskapur ekki vísindi, eða félagsvísindi, eða heimspeki eða blaðamennska heldur eitthvað allt annað. Mér fannst spennandi að búa til persónu sem hefði beggja heima sýn af því hún er báðum megin við borðið. Hún er fædd 1962 og deilir móðurkviði með tvíburabróður sínum sem fæðist fyrst og ryður brautina en söguhetjan er lengi að fæðast því hún vill ekki fæðast sem strákur.
Þetta er saga sem gerist í samtímanum, og hennar kynslóð og hennar líf er allt öðruvísi en líf ungra trans kvenna í dag. Hún er kölluð stelpustrákur og tvíburabróðirinn heldur að hún sé hommi. Hún er náttúrlega mjög skelkuð við að fá ekki kvenmannslíkama í fermingargjöf, að fá ekki brjóst eins og bekkjarsystur hennar. Þá finnur hún að það eru að lokast dyr og það er ekki leið til baka svo hún gefst upp og ákveður að fara að haga sér eins og strákur. Hún lærir á þetta, stúderar það og fer að leika karlmann og verður sérfræðingur í því. Það er hennar leið til að lifa af.“
Sektarkenndin í erfðaefni konunnar
„Hún gerir það sem margir af hennar kynslóð gerðu, giftist og eignast son. Hana langaði að eignast barn og það var ekki í boði að vera móðir þannig að hún varð faðir. Hún kannar smám saman það sem hún er ekki og ég fjalla um brot sem spanna allt líf hennar og held að ég hafi aldrei fylgt neinni sögupersónu svona lengi, nánast frá getnaði. Hún prófar að vera í klúbbi þar sem karlmenn klæðast kvenmannsfötum og niðurstaðan er alveg skýr – hún er eina konan í hópnum. Og það er ekki það sem hún er að leita að.
Hún byrjar að taka inn kvenhormón og þá breytist allt, heimsmyndin, sýn hennar á veruleikann og hún hættir að vera miðjan í eigin lífi, lífið verður brotakennt. Henni finnst brúnir heimsins hafa mýkst og slípast til, metnaður fyrir starfi hverfur, og hún fær ýmsa kvenlega eiginleika eins og sektarkenndina sem nánast býr í erfðaefni konunnar, og genaminni konunnar kemur til sögunnar. Þetta er spennandi tækifæri fyrir höfund til að skoða þennan kynjaða heim sem við búum í og ég hef svo sem leikið á þessum mörkum áður, reynt að leysa upp kynjatvíhyggjuna í fyrri bókum. Hér er viðfangsefnið konan sem tegund og trans kona fulltrúi kvenleikans sem hefur allavega 1.000 andlit.
Þetta er líka bók um það að eldast og það að vera týndur, það er eins og það sé stef í öllum mínum bókum að það er bara erfitt að vera manneskja, eins og segir í Dýralífi, að maður jafnar sig aldrei á því að hafa fæðst.“
Innbyggður rithöfundur
„Mér þætti mjög vænt um ef lesanda þætti vænt um þessa sögupersónu mína, Bamba. Ég veit ekki hvort höfundur megi fara fram á það, kannski á tíu bóka fresti og þetta er tíunda bókin. Útgangspunkturinn er samt sá að lesandinn má aldrei efast um það að hún sé stelpa, þannig fannst mér ég mega skrifa þessa bók, fannst ég hefði leyfi til þess. Maður skrifar til að skilja og til að sefa sína angistarfullu sál í leiðinni.
Í bókinni er innbyggður rithöfundur, Auður T, sem er ekki ég, sem ætlar að taka viðtal við DJ Bamba og skrifa um hana bók þar sem hún leggur út af endurnýjuninni, af nýju upphafi, en þróast yfir í að verða bók um tímann. Hún siglir reyndar í strand með plön sín því að söguhetjan er of venjuleg og líf hennar of hversdagslegt, sem söguhetjunni minni finnst náttúrlega stórkostlegt að heyra. Hana dreymir einmitt um að vera venjuleg, ósýnileg sextug kona.
Nýtt upphaf, einhvers konar dramatísk þáttaskil þar sem persóna kúvendir lífi sínu en lifir jafnframt af er raunar að finna í mörgum bóka minna. Mér finnst það meira spennandi fyrir höfund að fást við hvernig við lifum af en hvernig við deyjum.
Höfundurinn þarf ekki að vera sammála sögupersónum sínum, þær geta haft allt aðrar og andstæðar skoðanir en maður sjálfur, en ég get alveg skrifað undir mjög einfalda útgáfu af því hvernig ég sjálf vildi að heimurinn væri fyrir alla líkt og söguhetja þegar hún gerir lista með þremur atriðum sem henni þykja mikilvæg:
Að vera góð hvert við annað.
Að leyfa hverri manneskju að vera sú sem hún er.
Logn.
Ég held að þetta fari mjög nálægt minni húmanísku, nánast barnalegu heimssýn, fyrir utan kannski lognið, en lognið er einnig uppáhaldsveður söguhetju. Það er alltaf eitthvert einkennisveður í bókunum mínum sem tengist efninu og í þessari bók er það logn sem verður sífellt sjaldgæfara með hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum og síðan andstæðan, stormurinn.“
Loftslagsbreytingar undirliggjandi strengur
Eitt af því sem tengir þessar bækur þrjár er einmitt loftslagsbreytingar, þær óma undir í öllum bókunum.
„Já, það er undirliggjandi strengur, en við sögu koma máfuglar sem vegna loftslagsbreytinga fara ekki lengur burtu á veturna heldur eru orðnir staðfuglar.
Þessi bók er líka um einsemdina eða það að vera einn. Sögupersónur mínar eru reyndar oft einar en þær eru líka einfarar og sáttar við það. Dýrin í þessari bók eru líka ein, svo sem silfurmávur sem sækir á svalir söguhetjunnar, og er alltaf einn þrátt fyrir að mávar séu hópverur, rostungur flatmagar í Nauthólsvík og flytur sig svo á Bessastaði. Bambinn er svo mikilvægasta dýrið en ég komst að því að bambi væri tvíkynja í menningunni, ýmist karlkyns eða kvenkyns. Í DJ Bamba er að finna smá vink til skáldsögunnar Bambi eftir Felix Saltan, sem er akkúrat skrifuð fyrir hundrað árum, 1923. Saga Felix Saltan, sem var gyðingur, er allt öðruvísi en Disney-myndin sem byggði á henni, enda er bók hans fullorðinsbók og fjallar um ofsóknir nasista á hendur gyðingum og minnihlutahópum á borð við hinsegin fólk og fatlaða. Hún fjallar líka um einsemdina og hvernig maður fer að því að lifa af einn, því að Bambi stendur í raun einn, hann er búinn að missa alla.“