Aðgengileg „Þetta er ljómandi aðgengileg og þörf bók um dauðann og þá bannhelgi sem hvílir á honum.“
Aðgengileg „Þetta er ljómandi aðgengileg og þörf bók um dauðann og þá bannhelgi sem hvílir á honum.“ — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rit almenns efnis Dauðinn: Raunsannar frásögur um sorgir og sigra við leiðarlok lífsins ★★★½· Eftir Björn Þorláksson. Tindur, 2023. Mjúkspjalda, 271 bls.

Bækur

Sölvi

Sveinsson

Dauðinn er einmana, segir réttilega undir bókarlok, en hann er líka lífsafl af því hann er óútreiknanlegur og vekur ótta, einkum ungu fólki. Flest trúarbrögð heimsins luma á lausn: þau lofa guðs skepnu lífi eftir dauðann; spíritismi er enn lífseigur í landinu. Ekki kannski hjá ungu fólki: „Það sem gerist eftir dauðann er held ég bara eitthvað sem hver og einn á bara að ákveða eða ímynda sér sjálfur“ (179). Höfundur nálgast viðfangsefni sitt með viðtölum við fólk sem hefur veikst eða misst nána ættingja fyrir aldur fram, við presta, hjúkrunarfræðinga, prófessor við HÍ, útfararstjóra, frumkvöðul sorgarsamtaka, organista o.fl. Einnig styðst hann við erlendar rannsóknir á ýmsum atriðum sem tengjast dauðanum á einhvern hátt, trú, eftirsjá, sorg. Inn í þetta púkk blandar hann síðan frásögnum af fjölskyldu sinni, uppvexti sínum í Mývatnssveit og hugleiðingum sem varða breytingar á samfélaginu, frá óttanum við hungur inn í allsnægtir (margra, ekki allra), frá súru slátri yfir í kókópöffs, frá samheldni til einstaklingshyggju (sem þessum lesanda finnst kannski of mikið gert úr í samhengi bókar; maðurinn hefur alltaf mætt dauða sínum einn). Minningabrot Björns kallast að nokkru leyti á við efnið, en slíta þó að nokkru leyti þann þráð sem spunninn er beinlínis um dauðann. Björn er prýðilega ritfær og víða er gráglettni í frásögninni („Fermt barn forðast prestinn!“ (261); „Við Vogakrakkar sitjum uppi með Jónas frá Hriflu en Reykjahlíðarbörnin lesa teiknimyndasögur um blaðamann sem ferðast um allan heim og leysir ráðgátur“ (113)).

Ákveðin bannhelgi hvílir á dauðanum og tíðarandinn er honum fjandsamlegur. Einu sinni þótti krabbameinsgreining dauðadómur, en blessunarlega batnar nú mörgum og forvarnir hafa verið efldar. Hér eru áleitnar spurningar: Hvernig ræða foreldrar alvarlega sjúkdómsgreiningu við börn sín? Hvernig bregðast börn við því þegar reynt er að hugga þau með því að segja að mamma hafi verið „heppin að fara svona fljótt“, ekkert þurft að kveljast? Mega börn sjá lík? Hvernig á að ræða við börn um dauðann?

Hefur trúin minnkað? Viðmælendur úr prestastétt segja nei, en kirkjusókn hafi hins vegar dalað, ítök þjóðkirkjunnar laskast. Höfundur bendir á ýmis hneykslismál sem hafi grafið undan þjóðkirkjunni, en þessi lesandi vill einnig nefna afar íhaldssamt messuform og torræða guðfræði (ekki geta t.d. allir prestar tónað; heilagur andi er mörgum einkar framandi; nútíminn tengir illa við Gamla testamentið), auk þess sem flestir kirkjunnar þjónar hafa verið auðsveipir um of við stjórnvöld hverju sinni í prédikun dagsins. Hitt er síðan rétt að sálusorgun presta er einkar mikilvæg í samfélaginu og þeir eru kallaðir til á erfiðum stundum. Kannski ræður þessi starfsþáttur mestu um hylli presta í söfnuði sínum?

Dauðinn er grimmastur þegar hann kemur á vitlausum tíma, sækir börn eða ungt fólk. Nístandi er frásögnin af lækninum sem missti unga dóttur sína og kristallast í þessari málsgrein: „Það er ofsalega erfitt og einkennilegt að fara heim af bráðamóttöku og skilja barnið sitt eftir í kæli“ (38); daginn sem hún dó „þá dó líka hluti af sjálfum mér“ (41). Veitingamaður með illvígt krabbamein: „Það þýðir ekkert að sitja fastur í lífinu með fýlusvip“ (89). Nútímasamfélag forðast dauðann: „Við eigum að láta eins og enginn muni nokkru sinni deyja. Materíalisminn, efnishyggjan veður uppi, við eigum endalaust að vera ung og hraust og klár“ (103). Maður sem missti ungur föður sinn: „Við höfum, held ég, alið börnin okkar svolítið upp eins og dauðinn sé ekki til“ (137). Sérstakur kafli er um tónlist við útfarir, þar sem sálmar hafa vikið fyrir annars konar tónlist; eftirtektarvert viðtal við organista. Bálfarir eru nú í tísku, ef svo má taka til orða. Fyrr á tíð voru örfáir menn brenndir. Síðastliðið ár dóu 51,3 landsmenn í hverri viku að meðaltali (239). Ekki er hlaupið að því að koma þeim í gröf og það kostar sitt. Dauðinn er orðinn stofnun í samfélaginu sem veltir kannski 3-4 milljörðum? Hugsanlega meira?

Nokkrir meinbugir eru á frágangi meginmáls. Kvaddi, en ekki kveddi (46); háir, en ekki heyr (81, 86); samsláttur orða (107, 226); Job er í Jobsbók Gamla testamentisins fremur en „í annarri bók Biblíunnar“ (109); sjó í stað sjö (199); röng línuskipting (200); vantar orð í fyrstu línu (252); einu ,úr‘ ofaukið (260).

Þetta er ljómandi aðgengileg og þörf bók um dauðann og þá bannhelgi sem hvílir á honum þegar allir eiga að vera „hressir“. Persónulegar reynslusögur í bassatóni eru grípandi og minningabrotin úr Mývatnssveit krydda frásögnina með lífi þar sem dauðinn er samt nálægur.