„Djass í dag er oft mjög nálægt því að vera popp eða rokk eða hvað sem er og meðan Stórsveitin er svona sveigjanleg og móttækileg fyrir tónlist frá ungu fólki þá er framtíðin björt,“ segir Stefán S. Stefánsson.
„Djass í dag er oft mjög nálægt því að vera popp eða rokk eða hvað sem er og meðan Stórsveitin er svona sveigjanleg og móttækileg fyrir tónlist frá ungu fólki þá er framtíðin björt,“ segir Stefán S. Stefánsson. — Morgunblaðið/Eggert
Ég myndi lýsa þessu sem ágætis hljóðsýnishorni af ADHD-vitleysingi. Tónlistin er út um allar trissur, þó hún beri mín höfundareinkenni.

Íslendingur í Uluwati-hofi er forvitnilegur titill á plötu. Ekki verður annað sagt. Um er að ræða annan þátt í þríleik Stefáns S. Stefánssonar; áður var kominn Íslendingur í Alhambra-höllinni en sú plata hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin. Stórsveit Reykjavíkur flytur sem fyrr. En hvað í ósköpunum er þetta Uluwati? Jú, það er er hindúahof í Indónesíu sem stendur á klettabarmi við sjóinn í mikilli hæð og segir Stefán erfitt að heillast ekki við slíkar aðstæður. „Þetta er magnaður staður og mikil upplifun að koma þarna.“

– Fer músíkin strax að krauma í þér þegar þú kemur á svona staði?

„Já, þegar maður kemur á svona framandi staði er eins og að áhrifin skili sér einhvern veginn gegnum músíkina. Ég veit svo sem ekki hvernig ég á að lýsa því ferli. Áhrifin eru ekki endilega frá tónlist viðkomandi þjóðar eða heimshluta og ég sem ekki í þeim stíl, þó ég hafi kynnt mér indónesíska tónlist vel og hlustað mikið á hana meðan ég dvaldist þarna. Tónlistin skilar sér bara einhvern veginn gegnum þessa undarlegu síu sem er í manni. Þetta er það sem birtist í kvörninni.“

Flest verkin á plötunni eru ný af nálinni en þó er þar að finna fáein eldri verk sem Stefán endurvann. Raunar það hressilega að lítið er eftir af frumútgáfunni.

– Hvernig myndir þú lýsa tónlistinni á plötunni?

„Ég myndi lýsa þessu sem ágætis hljóðsýnishorni af ADHD-vitleysingi,“ segir hann sposkur. „Tónlistin er út um allar trissur, þó hún beri mín höfundareinkenni. Hún er nálægt nútímatónlist en líka poppi og allt þar á milli. Þarna má til dæmis finna „avant garde“-djass. Maria Schneider og Bob Mintzer, sem ég hef unnið með nokkrum sinnum, koma upp í hugann enda miklir áhrifavaldar. Svo er það þannig að mér var einhvern tíma kennt og leiðbeint að skrifa bara það sem ég heyri í höfðinu. Þannig að mottóið hefur alltaf verið: Ef ég heyri það þá skrifa ég það en ef ég heyri það ekki þá skrifa ég það ekki.“

– Einföld vinnuregla.

„Já, en samt ekki. Maður er enginn Mozart sem sest bara niður og skrifar.“

Ekkert hægt að ræða við mig

– Sækja tónsmíðarnar hvar og hvenær sem er að þér?

„Já, það má segja það. Eitt verkið á plötunni er samið hérna í Fossvoginum, þar sem ég bý, meðan ég var að ganga með hundinn. Stundum heyri ég bara laglínur í hausnum á mér, verð annars hugar og ekkert er hægt að ræða við mig, eins og konan mín myndi orða það. Um leið og ég kom heim úr þessum göngutúr settist ég við píanóið og skrifaði verkið niður. Það heitir að sjálfsögðu Fossvogur …“

Hér dofnar símasambandið skyndilega og ég heyri ekki lengur hvað Stefán er að segja, loks rofnar það með öllu. Ég held þó ró minni, eins og manni var kennt í blaðamannaskólanum í gamla daga, og slæ bara aftur á þráðinn. Þá er hljóðið aftur kristaltært. „Alltaf skal sambandið rofna þegar maður er í gáfulegustu setningunni,“ stynur Stefán. Jæja, það verður að hafa það.

Efnið á plötunni var frumflutt á tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur í Hörpu fyrir réttu ári en upptakan sem birtist okkur nú var gerð í júní í Stúdíó Sýrlandi. „Þetta er allt tekið upp „live“, eins og gjarnan er gert við þessa tónlist og Hafþór Karlsson, Haffi tempó, hljóðritaði meistaralega vel. Við mixuðum plötuna svo í sumar og nú er loksins búið að senda hana út í tómið.“

Um 20 manns leika á plötunni, allt eftirsóttir djasstónlistarmenn og niðursokknir og í einhverju viðtali talaði Stefán um að það væri eins og að smala köttum að ná þeim öllum saman á sama tíma. „Það er alveg rétt. Þetta er rjóminn af íslenskum djasstónlistarmönnum og því eðlilegt að þeir eigi annríkt. Sjálfur hef ég starfað með Stórsveitinni í tugi ára og menn sýndu þessu verkefni mikla velvild. Okkur tókst að finna tíma og nú þegar platan er komin út er mér efst í huga þakklæti til allra sem að þessu stóðu með mér. Þetta hefur verið fórnfúst starf hjá ýmsum öðrum en mér sjálfum og það kann maður að meta. Vonandi réttlætir tónlistin þessa fyrirhöfn að einhverju leyti.“

– Er það lykilorð í íslensku tónlistarlífi, velvild?

„Já, það er nákvæmlega orðið sem á við.“

Ekki það kynþokkafyllsta

Að sögn Stefáns hefur það frá upphafi verið eitt af aðalmarkmiðum Stórsveitarinnar að gefa út nýja íslenska djasstónlist. „Það er kannski ekki það kynþokkafyllsta á markaðnum fyrir hlustendur en okkur þykir samt mikilvægt að gera þetta. Og vonandi verður það viðhorfið áfram.“

Ekki stendur til að fylgja Íslendingi í Uluwati-hofi eftir með tónleikahaldi hér heima – enda er svo sem búið að flytja efnið „live“. Algengara er að platan komi fyrst, tónleikarnir svo, en þetta má alveg líka. „Stórsveitin er með mjög metnaðarfulla og pakkaða dagskrá fram undan, þannig að engin áform eru um að flytja plötuna á tónleikum – alla vega ekki að sinni. Hvað sem síðar verður.“

Hins vegar standa yfir þreifingar um að flytja efnið erlendis. „Borist hafa óformlegar beiðnir, bæði frá Kanada og Portúgal, en það á eftir að skýrast betur.“

– Er það þá með þarlendum tónlistarmönnum?

„Já, stórsveitir eru starfandi hér og þar um heiminn og við hérna heima höfum verið mjög duglegir að fá erlenda höfunda og útsetjara hingað með sitt efni, bæði norræna og aðra. Það er alltaf mjög skemmtilegt. Eins eigum við möguleika á að fara með okkar efni út í heim. Efnið á nýju plötunni minni er skrifað fyrir standard hljómsveit sem gerir þetta allt saman aðgengilegra. Alveg eins og þegar íslensk tónskáld skrifa fyrir heila sinfóníuhljómsveit, þá er alltaf möguleiki á því að verkin verði flutt víðar, af hinum og þessum sinfóníuhljómsveitum. Séu verk samin fyrir smærri einingar er yfirleitt flóknara að fá þau flutt enda þyrfti þá að setja saman þannig hóp sérstaklega.“

– Er stemningin fyrir djassi og stórsveitamúsík að vaxa eða dala hérlendis?

„Af minni reynslu að dæma fer áhuginn vaxandi enda vinnur Stórsveit Reykjavíkur í mjög fjölbreyttum jarðvegi. Ungu kompónistarnir eru oftar en ekki ólíkir gömlu hefðinni sem allir tengja við, Count Basie, Duke Ellington og alla þá. Það styrkir að sjálfsögðu heildina. Djass í dag er oft mjög nálægt því að vera popp eða rokk eða hvað sem er og meðan sveitin er svona sveigjanleg og móttækileg fyrir tónlist frá ungu fólki þá er framtíðin björt. Maður má ekki festa sig í endalausum Glenn Miller – þó hann eigi auðvitað fullan rétt á sér. Það væri svipað og að Sinfóníuhljómsveit Íslands myndi bara spila Beethoven og Mozart og ekkert annað. Það yrði hálfleiðigjarnt til lengdar. Jafnvægið er mikilvægt fyrir áheyrendur, auk þess sem það heldur auðvitað meðlimum sveitarinnar við efnið. Fyrir vikið eru þeir alltaf að verða betri og betri og mjög gaman að fylgjast með því.“

Íslendingur í IKEA?

Stefán hefur ekki ákveðið við hvaða stað í heiminum þriðja platan í leiknum verður kennd en segir félaga í Stórsveit Reykjavíkur hafa lagt sitthvað prýðilegt til, svo sem Íslendingur í IKEA eða Íslendingur í Costco. „Ég veit samt ekki alveg hvort ég fer að þeim ráðum,“ segir hann glettinn.

Hann hyggst líka staldra aðeins við og ná andanum áður en hann leggur upp í næstu vegferð. „Svona verk er umfangsmikið og stórt í sniðum og ekki hrist fram úr erminni, hvorki handverkið né framkvæmdin, þannig að ég sé til hvar ég ber niður næst. Plata númer tvö var rétt að koma út.“

Plata með dótturinni

– Eru einhver önnur verkefni í farvatninu, sem þú getur upplýst okkur um?

„Já, ég er nánast búinn að ljúka plötu með dóttur minni, Unu Stef. Hún kom að máli við mig og heimtaði að fá að syngja sumt af því sem ég hef verið að skrifa gegnum tíðina og ég brást bara vel við því. Ég er líka búinn að gera texta við nokkur gömul djasslög sem ég á og hún syngur þau eins og herforingi. Það er eiginlega bara hljóðblöndun og smá fíniseringar eftir, þannig að ég á von á því að hún komi út núna í janúar eða febrúar.“

– Ætlið þið feðginin eitthvað að fylgja henni eftir?

„Já, ég er að vona það enda minna mál að setja saman fimm eða sex manna band en 20 manna. Það yrði þó ekki fyrr en með vorinu en Una er að fara að bæta við mannkynið á næstu vikum. Einhver þarf að gera það.“

Rétt er það, annars værum við í basli.