Brynjar Elefsen Óskarsson
Brynjar Elefsen Óskarsson
Hin ærandi þögn ríkisstjórnarinnar gerir að verkum að nú er ekki nokkur leið að gera raunhæfar áætlanir fyrir næsta ár.

Brynjar Elefsen Óskarsson

Í ljósi mikillar umræðu undanfarið varðandi orkuskipti í samgöngum, og þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á ívilnunum vegna rafbíla um næstu áramót, er nauðsynlegt að árétta eftirfarandi. Það eina sem liggur formlega fyrir er að virðisaukaskattsívilnun, sem er í dag allt að 1.320.000 kr. og langflestir rafbílar á markaði njóta til fulls, fellur niður í árslok og mun því verð rafbíla hækka um samsvarandi upphæð. Einnig er við þessi tímamót gert ráð fyrir 7,5 milljörðum króna á fjárlögum næsta árs til orkuskipta sem Orkusjóður mun úthluta. Í fjárlagafrumvarpinu segir að „fjárhæðin verði notuð í margvísleg verkefni svo sem styrki til hreinorkuökutækja, átaksverkefni og til innviðauppbyggingar“.

Ekkert bólar á útfærslum

Í dag, þegar þetta er skrifað 30. nóvember, bólar enn ekkert á nánari útfærslum á úthlutunarreglum Orkusjóðs þrátt fyrir orð umhverfisráðherra í október þegar hann sagði að þær væru væntanlegar á næstu dögum. Í Morgunblaðinu þann 24. október birtist svo frétt um að Orkusjóður myndi úthluta 900.000 kr. styrk vegna kaupa almennings á rafbílum á næsta ári. Þessi styrkur yrði í boði fyrir nýskráða rafbíla þar sem kaupverð væri 10 milljónir króna eða lægra. Þessi nálgun gefur ágæt fyrirheit um að það verði ekki alvarlegt bakslag í þeim árangri sem hefur náðst í orkuskiptum á bifreiðamarkaði undanfarin ár. Til að setja það í samhengi þá er hlutdeild rafbíla af nýskráningum 65% á þessu ári sé horft fram hjá bílaleigubílum.

Fundir afboðaðir

Vandamálið er hins vegar það að ríkisstjórnin hefur enn ekki samþykkt þessar tillögur. Í tvígang hefur umhverfisráðuneytið boðað til fundar þar sem í bæði skiptin stóð til að kynna fyrirkomulag úthlutunar, fyrst 30. október og síðan 6. nóvember. Báðum fundunum var hins vegar frestað með stuttum fyrirvara án skýringa. Nú, mánuði síðar, hefur enn ekkert heyrst og það er með ólíkindum að sú skuli vera raunin þegar svo skammt er til áramóta þegar núverandi ívilnanir falla úr gildi.

Ærandi þögn ríkisstjórnarinnar

Því er ekki að leyna að eftir því sem þögnin verður meira ærandi í herbúðum ríkisstjórnarinnar læðist sá grunur að manni að endanleg útfærsla verði mjög frábrugðin því sem þegar hefur verið kynnt. Rafbílar skipta í dag miklu máli í rekstri bílaumboða landsins og hefur bílgreinin tekið með margvíslegum hætti virkan þátt í orkuskiptunum með fjárfestingum og miklum metnaði í því skyni að koma Íslandi í fremstu röð í innleiðingu rafbíla.

Engar raunhæfar áætlanir

Hin ærandi þögn ríkisstjórnarinnar gerir það að verkum að nú, til þess að gera fáum dögum fyrir áramót, er ekki nokkur leið að gera raunhæfar áætlanir fyrir næsta ár. Það er með miklum ólíkindum að verða vitni að þessu stefnuleysi stjórnvalda. Ríkisstjórnin hlýtur að geta gert betur en þetta!

Höfundur er framkvæmdastjóri hjá BL ehf.

Höf.: Brynjar Elefsen Óskarsson