Egill Jónsson fæddist 8. maí 1942 í Gunnarsholti á Rangárvöllum og ólst upp á Selalæk í sömu sveit. Hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 20. nóvember 2023.
Faðir Egils var Jón Egilsson hreppstjóri og bóndi í Gunnarsholti en síðar og lengst af á Selalæk, f. 31.7. 1908 á Stokkalæk á Rangárvöllum, d. 23.6. 1992. Móðir Egils var Helga Skúladóttir kennari og húsfreyja, f. 22.11. 1902 á Keldum á Rangárvöllum, d. 28.1. 1947. Jón og Helga voru gefin saman 3.10. 1937.
Alsystkini Egils voru Skúli, f. 21.6. 1938, d. 7.11. 2005, Eygló, f. 18.12. 1939, Helgi Svanberg, f. 6.7. 1943, d. 7.4. 1993, og Svanborg, f. 13.10. 1945. Helga lést ung en Jón kvæntist 27.10. 1951 seinni eiginkonu sinni, Ólöfu Bjarnadóttur frá Böðvarsholti á Snæfellsnesi, f. 2.10. 1915, d. 31.7. 2002. Börn þeirra eru Bjarni, f. 30.9. 1952, Bjarnveig, f. 23.9. 1954, Bára, f. 29.10. 1955, Þórir, f. 2.7. 1957, d. 5.1. 2015, og Viðar, f. 23.6. 1958.
Egill kvæntist 17.6. 1970 eftirlifandi eiginkonu sinni, Helenu Weihe frá Framnesi í Vestmannaeyjum, f. 7.5. 1949. Börn þeirra: 1) Guðjón, f. 18.9. 1969, sambýliskona hans er Rósa Hlín Óskarsdóttir, f. 29.7. 1972, börn þeirra eru Ísold Egla, f. 13.10. 2000, Kolbrá Hekla, f. 11.6. 2002, unnusti hennar er Hilmir Ægir Ómarsson, f. 20.4. 1998, Goði Gnýr, f. 12.1. 2004, og Rökkvi Þeyr, f. 29.4. 2007. 2) Perla Björk, f. 8.9. 1971, eiginmaður hennar er Sigurður Freyr Magnússon, f. 4.12. 1972, börn þeirra eru Bjarki Freyr, f. 27.8. 2005, Eydís Eik, f. 28.3. 2007, og Dagur Freyr, f. 12.5. 1994, sonur Sigurðar Freys úr fyrra sambandi. 3) Jón, f. 1.12. 1972, unnusta hans er Lilja Brynja Skúladóttir, f. 28.3. 1973, fyrrverandi eiginkona Jóns er Margrét Pálsdóttir, f. 2.1. 1978, börn þeirra eru Ernir, f. 6.8. 2002, Sunna, f. 15.10. 2004, og Egill, f. 4.12. 2006. 4) Egill, f. 31.12. 1977, d. 18.8. 1978. 5) Aldís Helga, f. 14.5. 1979, sambýlismaður hennar er Magnús Ágúst Skúlason, f. 24.2. 1981, dætur þeirra eru Lilja Dögg, f. 19.9. 2013, og Birta Lind, f. 8.3. 2016. 6) Eygló, f. 27.7. 1983, sambýlismaður hennar er Garðar Heiðar Eyjólfsson, f. 4.8. 1984.
Egill ólst upp við hefðbundin sveitastörf á Selalæk og vann við búið fram á fullorðinsár. Hann lauk landsprófi frá Héraðsskólanum á Skógum 1959. Hann var í millilandasiglingum hjá Eimskip 1961 til 1963. Eftir það sótti hann vetrarvertíðir í Vestmannaeyjum um árabil og settist loks að í Eyjum 1969. Egill starfaði hjá Hraðfrystistöðinni og svo Ísfélaginu fram að Heimaeyjargosinu 1973. Meðan á gosinu stóð stýrði Egill fiskvinnslu í frystihúsinu á Kirkjusandi í Reykjavík, en þar var unninn fiskur úr fjölda báta og skipa frá Eyjum sem misst höfðu aðgengi að sinni heimahöfn vegna gossins. Fjölskyldan sneri aftur til Eyja sumarið 1975 og tók Egill þátt í uppbyggingu á rekstri Ísfélagsins eftir gos og stýrði allri fiskvinnslu þar til 1987. Þá hóf Egill störf hjá Skipalyftunni og var slippstjóri þar uns hann lét af störfum vegna aldurs 2012. Egill var í Verkstjórafélagi Vestmannaeyja í áratugi.
Útför Egils fer fram frá Oddakirkju á Rangárvöllum í dag, 2. desember 2023, klukkan 13.
Í dag, laugardaginn 2. desember 2023, verður ástkær faðir minn Egill Jónsson frá Selalæk á Rangárvöllum, búsettur að Heiðartúni 2 í Vestmannaeyjum, kvaddur hinstu kveðju frá Oddakirkju.
Hekla gnæfir yfir Rangárvelli í ógnandi tign og fegurð. Allir vita að eldur býr undir. Öskufall og hraun hefur ósjaldan lagst yfir sveitirnar og eytt byggðum. Náttúran er hispurslaus. Fjallahringurinn er mikill og víður og í austri ber snæhvítan Eyjafjallajökul hátt við himin. Stórárnar streyma eins og silfurbönd um gróna velli og svarta sanda. Undan ströndinni liggja Vestmannaeyjar, grænar og hnarreistar í glitrandi hafinu. Þar er einnig eldur undir. Í þessari stórbrotnu umgjörð náttúrunnar lifði faðir minn.
Hann var fæddur á Rangárvöllum og gat rakið ættir sínar þar langt aftur og svo um aðrar sveitir Suðurlands. Hann ólst upp á Selalæk, sótti barnaskólann á Strönd og lauk landsprófi frá Héraðsskólanum á Skógum. Hann var ekki langskólagenginn ef miðað er við nútímann, en hann var mjög greindur, skynsamur og stálminnugur.
Hann var í millilandasiglingum í kringum tvítugt og sá því meira af heiminum en flestir jafnaldrar hans á þeim árum. Þetta stækkaði sjóndeildarhringinn hans á mótunarárum og hann hugsaði hlutina oft í stærra og víðara samhengi en aðrir.
Hann sótti seinna vetrarvertíðir í Eyjum og kynntist þar eftirlifandi eiginkonu sinni og móður minni, Helenu Weihe frá Framnesi í Vestmanneyjum. Þeirra heimili var í Eyjum og eignuðust þau sex börn og barnabörnin þeirra eru orðin tólf. Missir hennar er mikill eftir 55 ára samfylgd í gegnum lífið.
Foreldrar mínir þurftu eins og aðrir Eyjamenn að leggja á flótta þegar Heimaeyjargosið hófst aðfaranótt 23. janúar 1973. Það gafst ekki mikill tími til að undirbúa flóttann, en foreldrar mínir hafa sagt að þau hafi aðeins náð að taka börnin, bankabækurnar og myndaalbúmin með sér. Enn eru ógróin sár í Eyjum, sem brunnu í gosinu.
Á meðan á gosinu stóð stýrði faðir minn fiskvinnslu í frystihúsinu á Kirkjusandi í Reykjavík, en þar var unninn afli úr Eyjaflotanum í gosinu. Eftir gos stýrði hann lengi allri fiskvinnslu Ísfélagsins og var loks slippstjóri hjá Skipalyftunni í aldarfjórðung.
Faðir minn var alla tíð í miklum tengslum við náttúruna, hann þekkti allan gróður og alla fugla, hann þekkti öll fjöll og vatnsföll, hann var mjög veðurglöggur, hafði fullan skilning og þekkingu á sjávarföllunum, hann var alltaf meðvitaður um hvort tunglið væri vaxandi eða minnkandi og vissi alltaf hvenær yrði næst fullt tungl. Hann benti stundum skyndilega til himins og tilgreindi stjörnur, reikistjörnur og stjörnumerki á næturhimninum.
Mér er hugstætt að faðir minn hafi verið mótaður af náttúrunni og þeirri umgjörð sem hún veitir. Hann var stórbrotinn maður. Hann var fallegur. Hann var traustur, stór og sterkur. Hann var hávær og tók mikið pláss. Hann var ófeiminn, opinskár, hispurslaus og heiðarlegur. Hann sagði satt. Og það var eldur undir.
Mikill höfðingi, traustur maður, ástkær faðir og afi er genginn, blessuð sé minning hans.
Jón Egilsson.
Elsku pabbi.
Hversu fátækleg eru orðin þegar ég reyni að velja þau réttu til að lýsa þér og minnast þín.
Það gustaði af þér, þú varst stór og sterkur og það var ekkert hálfkák í kringum þig. Þú gekkst hreint til verks og varst sannur í því sem þú gerðir. Réttsýnn. Þú varst höfðingi heim að sækja, stoltur af þínu fólki.
Morguninn sem við ræddum saman í síðasta sinn talaðirðu um að þú værir þreyttur. Það síðasta sem ég sagði við þig var að þú skyldir hvíla þig og sofna og ég myndi kíkja á þig síðar um daginn. Þú teygðir höndina á móti afastelpunum þínum til að kveðja þær með faðmlagi og fékkst svo koss á kinnina frá mér. Þú sofnaðir stuttu eftir það og ég sá þig ekki opna fallegu augun þín aftur.
Ég man eftir bíltúr niður á bryggju, ég man eftir huggunarorðum frá þér þegar lítið hjarta var brotið, ég man þegar þú fékkst afastelpurnar fyrst í fangið, ég man eftir þér að breiða sængina yfir mig, ég man eftir þér skellihlæjandi svo andlitið geislaði, ég man eftir þegar þú barst mig í lófum þér, ég man eftir tárum í augum þér þegar þú varst meyr, ég man eftir hlýja hjartanu þínu, ég man eftir að hafa haldið í hönd þér og aldrei viljað sleppa.
Ég veit þú ert á betri stað laus við verki og þrautir sem þjökuðu þig síðustu árin. Ég veit líka að það var vel tekið á móti þér hinum megin af ástvinum sem einnig eru horfnir á braut. Eflaust ertu búinn að finna þér verkefni þar í landi sólar, grænna túna, syngjandi fugla og glitrandi lækja.
Þú varst góður pabbi, hvíl í friði og takk fyrir allt.
Þín dóttir,
Aldís Helga.
Elsku pabbi minn.
Hvar á að byrja við að minnast manns eins og þín? Hvar sem drepið er niður, varstu stórmenni, yfir og alltumlykjandi á góðan hátt, eins og sólin sjálf sem öllu gefur líf. Þú varst mér allt í senn: pabbi, vinur, verkstjóri, kennari og leiðtogi. Ég hef dýrkað þig og dáð alla mína ævi eins mikið og ein dóttir getur.
Þú kenndir mér svo ótalmargt, það sem einna helst stendur upp úr er; að ég ætti alltaf að sýna öllum virðingu, og tala eins við alla, hvort sem þeir væru götusóparar eða forsetar; að gera alltaf það rétta, ekki bara það létta; og gefast ekki upp þó á móti blási. Mér finnst eins og þú hafir kennt mér allt hvernig í lífinu, á meðan mamma kenndi mér hvers vegna. Og það gerði ykkur að svo góðu teymi, svo fullkomið yin og yang.
Ég er svo innilega þakklát forsjóninni að hafa raðað mínum lífsins púslum á þann veg að ég hef fengið að njóta góðra samverustunda með þér heima í Heiðartúninu síðustu tvö árin. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát og á fullt af góðum minningum. Að hafa getað verið þér og mömmu innan handar á góðum og erfiðum stundum á þessum tíma hefur verið mér bæði ljúft og skylt. Að styðja þig í gegnum síðustu sjúkrahúsdvölina var ljúfsárt, og mikið er ég þakklát fyrir stundirnar okkar.
Og nú er hún sest í síðasta sinn, pabbi, sólin þín og tárin taka við þegar mörgu er frá að segja, en engin orð eru til sem gera sorginni eða þér sjálfum, nógu góð skil. Þú kvaddir okkur á bjartasta og fallegasta tíma dagsins, með allt þitt nánasta fólk hjá þér. Sú fallega stund rennur mér ekki úr minni.
Sólargeislarnir þínir lifa nú áfram í okkur systkinunum og öllum afkomendum ykkar mömmu, sem þú varst svo ákaflega stoltur af.
Alveg er ég viss um að fólkið sem þú saknaðir mest meðan þú lifðir mun taka vel á móti þér þarna hinum megin. Ég mun halda þínu ljósi á lofti eins vel og eins lengi og mér er unnt, takk fyrir allt elsku pabbi.
Þín yngsta,
Eygló.
Tengdapabbi var maður sem gustaði af. Upp í hugann koma orð eins og höfðingi, ósérhlífni, dugmikill, verkvit og sögumaður. Hann hafði aldeilis frá mörgu að segja enda eru stundirnar minnisstæðar við eldhúsborðið í Heiðartúni þar sem farið var vítt og breitt yfir sviðið, frystihúsið, Skipalyftan, búskapur og sögur af mannlífi, gjarnan á gamansömum nótum. Tengdapabbi var áberandi í sínu samfélagi enda gegndi hann í gegnum tíðina ábyrgðarmiklum stjórnunarstörfum sem gerði það að verkum að margir þurftu að hafa af honum tal í gegnum árin. Mér er minnisstætt þegar gengið var saman í fólksmergðinni inn í Dal á Þjóðhátíð, hann heilsaði stöðugt á vinstri hönd og hægri, fólki þar sem bros færðist yfir andlit um leið og það sá hann. Ekki slæmur vitnisburður það.
Tengdapabbi var verkmaður mikill og verkvitið, sem hann hafði aflað sér í gegnum verkin, bar af. Eitt árið tók ég þátt í því með honum að setja upp hvíta tjaldið í Dalnum á Þjóðhátíð. Járnstangir sem halda uppi tjaldinu þurftu að fara niður í jarðveginn og nokkuð djúpt því eins og þekkt er getur veðrið verið misgott milli ára á Þjóðhátíð. Stangirnar fóru niður á mettíma með lítilli fyrirhöfn, dæmigert fyrir þann sem kann til verka meðan aðrir þurftu að hafa mun meira fyrir hlutunum.
Tengdapabbi sýndi mér alla tíð mikla vinsemd og væntumþykju og tók mér opnum örmum inn í fjölskyldu sína. Takk fyrir samveruna og hvíl í friði, elsku tengdapabbi.
Freyr.
Tilkynning um andlát Egils Jónssonar, bróður míns, stingur mann í hjartað þó það hafi verið ljóst að hverju stefndi eftir langvarandi veikindi. Hann er fjórði bróðirinn sem kveður úr systkinahópnum af tíu systkinum. Á slíkri stundu hugsar maður til bernskuáranna þegar stóribróðir var fyrirmyndin, fór mikinn og fylgdi sínum hlutum eftir af gríðarlegri festu og dugnaði sem var hans fylgifiskur meðan hann lifði, það var aldrei lognmolla þar sem Egill var. Minnisstætt er þegar verið var í heyskap á Selalæk og verið var að draga galtana heim að blásaranum. Egill stóð við blásarann og mokaði, keppikefli hans var að vera búinn að moka inn galtanum áður en sá næsti kæmi heim. Þarna stóð hann með gaffalinn og mokaði heyinu í blásarann með keppnishörkuna að vopni, í hvítum nærbol í sólinni. Egill strekkti snæri í olíugjöfina á traktornum sem knúði blásarann svo hann gengi hraðar, engan tíma mátti missa. Hann barði í rör blásarans, þá átti að færa honum vatn úr krananum í mjólkurhúsinu, kalt vatn skilyrði. Þegar leið á daginn dökknaði hvíti bolurinn enda bogaði svitinn af honum í rykmekkinum við blásarann, það skipti hann engu, það varð að bjarga heyinu.
Svona voru í raun vinnubrögð Egils allt hans líf, hann skipaði ekki öðrum að vera þar sem skórinn kreppti í vinnulínunni til að verkin gengju betur, hann var sá sem fyllti það stæði best sjálfur, slík var kappsemin.
Einnig er minnisstætt þegar Egill fór í göngur á Laufaleitir á Rangárvallaafrétt. Þar átti hann notalegar stundir og oft á tíðum ekki auðveldar, í misjöfnum veðrum. Egill fór í allar leitir með sveitungum og vinum, sex dagar í smalamennsku og svo komu þeir í Reiðarvatnsréttir, glaðir í bragði. Við förum bara fetið, ferðalokum við munum ná. Egill naut þess líka að standa heilu dagana á bökkum Ytri-Rangár með orm á öngli og naut kyrrðar náttúrunnar við silungsveiðar. Þótt veiðin væri stundum treg þá hafði hann endalausa þolinmæði við verkið. En það voru líka ákveðnar hefðir og reglur sem hann setti manni að fara eftir í hvívetna ef maður vildi verða honum samferða í veiðiskapnum.
Þótt Egill hafi búið í Vestmannaeyjum alla sína fullorðinstíð leitaði hugurinn alltaf í sveitina og á hverjum vetri í mörg ár var hann alltaf að tala um að yfirgefa Eyjar og halda í búskap á komandi vori. Einhverra hluta vegna auðnaðist honum ekki að framkvæma þá löngun sína að verða bóndi og sinna bústofni sem var svo ríkt í hjarta hans. Í Vestmannaeyjum vann Egill í Hraðfrystistöðinni fyrir gosið 1973 en eftir gos lengst af í gamla Ísfélaginu þar sem hann var verkstjóri í pökkunarsalnum. Egill vann oft langan vinnudag og lagði gríðarlega hart að sér til að ná góðum árangri. Hann var ákveðinn og fastur fyrir í stjórnun.
En kæri bróðir, nú er ljóst að þú hefur náð ferðalokum í hinu jarðneska lífi. Ég og fjölskylda mín þökkum þér vinsemd og ríka frændsemi alla tíð. Þú vildir öllum vel en hefðir mátt hugsa meira um það sem snéri að þér sjálfum. Við vottum fjölskyldunni þinni okkar dýpstu samúð. Minning þín mun lifa, kæri bróðir.
Viðar Jónsson.
Bernskan, hve hugurinn reikar oft til hennar, þótt mörg ár séu liðin síðan fólk var á bernskuskeiði. Mínar fyrstu minningar um Egil bróður eru úr svefnherbergi okkar systkinanna, við sváfum öll í sama herbergi í nokkur ár ásamt pabba eftir lát mömmu. Skúli og Egill sváfu andfætis í mömmu rúmi, ég svaf hjá pabba en Eygló og Helgi sváfu ein. Á sumrin lékum við systkinin oft í búum okkar sem voru hlið við hlið en girt á milli með smáspýtum og eirvír. Egill var þremur árum eldri en ég, ákveðinn og fylginn sér. Mér er minnisstætt er hann varð 16 ára, hann ýtti hafragrautardiskinum frá sér og sagði: „Ég ætla að fá kaffi,“ en það var fullorðinsmerki. Upp frá þessu drakk hann það.
Bræðurnir, Egill og Helgi, stunduðu oft minka- og silungsveiðar um og upp úr fermingu, fóru vítt og breitt, m.a. upp í Grafarnes og niður í flóð. Oddvitinn borgaði þeim fyrir skottin. Silungana veiddu þeir í þröngum skurðum, skorðuðu þeir poka með gjörð ofan í og ráku svo silungana inn með löngum prikum. Veiddu oft í matinn. Veiðináttúran kom snemma í ljós hjá Agli; fjögurra ára fór hann með þriggja ára bróður sínum niður í mýri að gá að fiski. Sá yngri datt í skurð en sá eldri gat dröslað honum upp úr. Þótti það afrek og var í minnum haft.
Egill vann við búið á Selalæk sín ungdómsár, mikið var unnið með hestum við heyskapinn, sem drógu snúnings- og rakstrarvélar. Seinna komu traktorar til sögunnar og breyttist þá vinnan en áfram var galtað. Þar sem því var komið við voru þeir dregnir með traktor heim, þurfti þá að moka þeim inn í blásara og jafna í hlöðunni sem bræðurnir gerðu oftast.
Ungur að árum fór Egill með mjólkina upp á þjóðveg í veg fyrir mjólkurbílinn, var hún flutt á hestvagni og stóð ekillinn fyrir aftan mjólkurbrúsana og stýrði hestinum þaðan með keyrslutaumum.
Með vaxandi vinnuafli barnanna stækkaði búið, ný hús byggð fyrir skepnurnar eða eldri hús stækkuð. Gerðu pabbi og bræðurnir mest af því oft með frumstæðum verfærum, t.d. hrærðu þeir steypuna á flekum sem keyrð var upp í mótin á hjólbörum. Algengt var að nágrannar hjálpuðu hverjir öðrum við byggingar, sérstaklega steypuvinnu.
Oft var tekið í spil, sérstaklega um jólaleytið, minnist ég eldri bræðranna og pabba spila vist sem þeir höfðu gaman af. Var þá hávaði og hlátrasköll, líka slegið fast í borðið er gefið var út.
Um tíma var Egill í forsvari fyrir Umf. Heklu, hélt hann uppi lifandi félagslífi um veturinn og skipulagði ferð inn á Landmannaafrétt um sumarið. Þá m.a. gekk fólkið upp á fjallið Loðmund, hélt Egill á segulbandi og spilaði músík á leiðinni upp fólkinu til ómældrar ánægju.
Nítján ára hélt Egill á vit ævintýranna, réð sig í tvo vetur á millilandaskipið Dettifoss. Seinna vann hann hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. Í Eyjum hitti hann Helenu, þau tóku saman og fyrsta barn þeirra fæddist í september 1969. Man þegar Egill var að segja frá barninu. Hann lyfti upp höndunum og sagði að strákurinn væri með stóra hnefa sem var auðvitað karlmannlegt.
Lífsstarfi bróður míns er lokið, fótspor hans liggja um líf ættingja hans.
Svanborg Jónsdóttir.
Það er margs að minnast þegar ég hugsa um Egil frænda. Fyrstu minningarnar mínar eru frá því þegar hann kom í heimsókn í Lambhaga og laumaði þá oft nammi til okkar systkinanna, blár Opal dreginn upp úr vasanum. Hann talaði við okkur krakkana eins og fullorðið fólk, spurði um námið og búskapinn, sem hann hafði alltaf mikinn áhuga á. Hann hrósaði manni ævinlega fyrir dugnað og hvatti áfram, þannig var þetta alla hans ævi.
Við töluðum oft saman í síma og alltaf um búskap í Lambhaga eða á Rangárvöllum og þá sagði hann mér gjarnan sögur frá því í gamla daga og bar oft saman gamla tímann og nútímann í sveitinni sinni. Egill var alinn upp á þeim tíma þegar vélakostur var fábrotinn og ekki komið rafmagn á Selalæk, þar sem rekið var stórbú og vinnusemi því mikil. Hann sló aldrei slöku við alla ævi, var sívinnandi og eitt mesta hörkutól sem ég veit um. Var verkstjóri fyrst í Ísfélaginu og svo í Skipalyftunni, sveitastrákurinn sjálfur, og var vel liðinn á báðum stöðum. Það sást oft á Agli hvernig skipin voru á litinn sem hann var að mála hverju sinni enda fórnaði hann sér ávallt í starfi og skipti þá litlu máli smá lakk hér og þar. Mér er í fersku minni þegar Egill kom eina helgi í Lambhaga og málaði nánast öll útihúsin. Annað eins hafði ekki sést, allt gert af elju og dugnaði.
Ég er svo lánsamur að hafa upplifað margar þjóðhátíðir með Agli frænda. Alltaf gerðist eitthvað skemmtilegt þar, hvort sem það var í brekkunni, í þjóðhátíðartjaldinu eða við kjötsúpupottinn í Heiðartúninu. Það var nefnilega skyldumæting í súpuna og ef við mættum ekki þá vorum við sótt eða gerðar athugasemdir. „Þið komið öll – ég er með 40 lítra pott á eldavélinni,“ kallaði Egill með sinni sterku rödd og auðvitað hlýddum við frændsystkinin og mættum í Heiðartúnið ásamt fylgifiskum. Við áttum alltaf afdrep hjá Agli og Helenu, hvort sem var í dalnum, heima í Heiðartúni eða í tjaldbúðum í garðinum. Egill hafði alltaf smá eftirlit með okkur og sennilega hefur ekki veitt af. Hann ráðlagði okkur líka ef honum fannst þörf á og var þá oft mikið hlegið.
Minnisstæðar eru veiðiferðirnar sem ég fór með Agli inn á Rangárvallaafrétt. Frábærar ferðir og alltaf gerðist eitthvað skemmtilegt. Hann hafði svo gaman af því að veiða og þá sérstaklega á afréttinum sínum, eins og hann sagði stundum. Hann var óspar á sögur af smalamennsku og fjallrekstrum fyrri tíma og fylgdu í kjölfarið sögur af öllum körlunum í sveitinni.
Ekki grunaði mig þegar ég heimsótti Egil um miðjan október að það yrði okkar síðasti fundur, en svona er það samt. Það mun taka tíma að venjast því að heyra ekkert frá honum eða að það sé enginn Egill frændi til að heimsækja framar í Vestmannaeyjum.
Við fjölskyldan vottum Helenu, börnum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð. Gott er að eiga góðs að minnast.
Ómar Helgason Lambhaga.
Egill frændi var Rangvellingur. Líflegur karakter, traustur, vinnusamur úrræðagóður, fastheldinn, með eindæmum ákveðinn, stálminnugur og hraustur karl.
Hans drifkraftur var mér oft hugleikinn. Maður sem hreifst auðvitað af sveitalífinu sem hann ólst upp við. Kannski var sveitalífið bara of rólegur lífsstíll fyrir frænda en svar við því aldrei afgerandi.
Ég náði einu sinni að smala með honum Geitasandinn, þar komst hann á hestbak, meira þurfti ég ekki að gera nema auðvitað að hlýða honum, þá hafði hann ekki farið á hestbak í 20 ár. Aðrir gátu dregið sig í hlé, þannig er ég bara að lýsa kappinu sem í honum bjó, ekki það að aðrir smalar ættarinnar í kring væru kapplausir síður en svo.
Í seinni tíð spjölluðum við stundum saman hvort sem við ræddum eyðibýlin, afréttinn eða pólitík og margs að minnast. Við þekktum báðir afréttinn vel þótt kynslóðabil væri en leiðir um hann höfðum við báðir fetað og oft kom mér á óvart nákvæmni hans í þessu landslagi því áratugir voru liðnir frá hans tímabili í leitum.
Ferð okkar með nánustu á afréttinn fyrir þremur árum stendur enn upp úr.
Margar þjóðhátíðir voru auðvitað litaðar af gestrisni Egils og Helenu, sem voru ómetanlegar. Kvöldin í dalnum gleymast seint, ég er nokkuð viss um að ég fái aldrei aftur jafn greinargóða lýsingar á ætterni fólks sem inn í hvíta tjaldið kom en þegar Egill tók á móti því eða þegar leita átti að fólki úr ættinni sem ekki skilaði sér á tilsettum tímum og leitin mikla hófst, þá í dauðagámnum „hann er hér“ kallaði frændi.
Veikindi sem Egill gekk í gegnum voru erfið og tóku mjög á hann og fjölskyldu hans. En kappið sem ég nefndi hér á undan laskaðist lítið og að baki er þessi 5 ára barátta að reyna að koma lífinu í fyrra horf sem ekki tókst eins og hann lagði upp með en hann hætti aldrei að reyna.
Egill var á fimmta ári þegar móðir hans Helga Skúladóttir frá Keldum lést veturinn 1947. Það held ég hafi mótað hann meira en flesta grunar. Hann var stoltur af uppruna sínum og fjölskyldu.
Hvíldu í friði elsku frændi, Helenu og fjölskyldu votta ég mína dýpstu samúð.
En hinum megin föstum standa fótum,
blásvörtum feldi búin, Tindafjöll
og grænu belti gyrð á dalamótum.
Með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll,
horfa þau yfir heiðarvötnin bláu,
sem falla niður fagran Rangárvöll,
þar sem að una byggðarbýlin smáu,
dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.
(Jónas Hallgrímsson)
Guðmundur Árnason.