Kópavogur Horft yfir Kórahverfið sem er nærri Elliðavatni.
Kópavogur Horft yfir Kórahverfið sem er nærri Elliðavatni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Gert er ráð fyrir að rekstur samstæðu Kópavogsbæjar verði á næsta ári jákvæður upp á 228 miljónir króna og að niðurstaða af A-hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um 221 millj. kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 4,6 ma

Gert er ráð fyrir að rekstur samstæðu Kópavogsbæjar verði á næsta ári jákvæður upp á 228 miljónir króna og að niðurstaða af A-hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um 221 millj. kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 4,6 ma. kr. og skuldaviðmið eru 104% samkvæmt áætlun. Slíkt er langt undir lögbundnu viðmiði. Þetta kom fram þegar fjárhagsáætlun var kynnt í bæjarstjórn á dögunum,

„Rekstur Kópavogsbæjar er traustur,“ segir í tilkynningu, haft eftir Ásdís Kristjándóttur bæjarstjóra. Fram kemur að hagræðing hafi náðst hjá bænum á yfirstandandi ári. Fasteignaskattar verði áfram lækkaðir lítið eitt milli ára.

Í starfsemi bæjarins verður meira fé en áður veitt í velferðarmál, svo sem þjónustu við fatlað fólk. Þá verður efld þjónusta við nemendur í grunnskólum sem eru með íslensku sem annað tungumál.

Úthlutað verður lóðum í nýju hverfi í efri byggðum sem kallar á uppbyggingu innviða þar. Þá verður nýr Kársnesskóli tekinn í notkun á árinu og fleiri leikskólar byggðir; allt í því skyni að mæta fjölgun íbúa. Spár gera ráð fyrir að Kópavogsbúar verði orðnir 41.418 í lok næsta árs.

Umfangsmiklar framkvæmdir á vegum bæjarins eru áætlaðar á næsta ári fyrir rúmlega sex ma. kr. og áfram tryggt að innviðir mæti þörfum bæjarbúa. Auk framkvæmda við skóla, sem fyrr er vikið að, er stefnt að því að hefja byggingu aðalvallar HK við Kórinn. Þá verður byggður nýr gervigrasvöllur vestan Fífunnar. Einnig á að stækka hjúkrunarheimilið í Boðaþingi og um 1,8 milljörðum kr. verður varið í gatnagerð á næsta ári. sbs@mbl.is