Hugsi Göring og Hess í dómsalnum. Göring svipti sig lífi fyrir aftöku. Hess fór í ævilangt fangelsi og framdi sjálfsmorð 1987 er hann var 93 ára.
Hugsi Göring og Hess í dómsalnum. Göring svipti sig lífi fyrir aftöku. Hess fór í ævilangt fangelsi og framdi sjálfsmorð 1987 er hann var 93 ára.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Karl Blöndal kbl@mbl.is „Einu sinni var… Þannig byrja margar sögur og ævintýr. Einu sinni var Nürnberg önnur en hún er nú, friðsöm og fögur borg. Svo komu árin, þegar augu allrar þýsku þjóðarinnar mændu hingað, er hjer voru haldin flokksþing Nasista með mikilli viðhöfn. Hvernig skyldi hún hafa verið þá, þessi borg, sem nú er að miklu leyti í rústum. Skínandi hallir. Hakakross fánar. Fylkingar SS-manna – fylkingar SA-manna, með hrópum og hælaglamri.

Baksvið

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

„Einu sinni var… Þannig byrja margar sögur og ævintýr. Einu sinni var Nürnberg önnur en hún er nú, friðsöm og fögur borg. Svo komu árin, þegar augu allrar þýsku þjóðarinnar mændu hingað, er hjer voru haldin flokksþing Nasista með mikilli viðhöfn. Hvernig skyldi hún hafa verið þá, þessi borg, sem nú er að miklu leyti í rústum. Skínandi hallir. Hakakross fánar. Fylkingar SS-manna – fylkingar SA-manna, með hrópum og hælaglamri.

Hjer hjeldu Nasistaforingjarnir ræður sínar, en miljónir Þjóðverja hlýddu á, eins og hjer væri um að ræða einhvern himnaríkis-boðskap. – Heil Hitler! Sieg Heil! Sieg Heil! Áfram, áfram. Og áfram hjelt viðburðanna rás, sem rak þá einkennisbúnu og öfgafullu afbrotamenn ofan af veldisstólunum og inn í fangaklefana. Nú sitja þessir menn ákærðir fyrir alþjóða dómstóli.“

Á þessa leið lýsti Sverrir Þórðarson því sem fór í gegnum huga hans við komuna til Nürnberg í Þýskalandi í ágúst 1946 til þess að vera við stríðsglæparéttarhöldin þar sem forustumenn nasista voru leiddir fyrir dóm.

Blaðamenn Morgunblaðsins hafa í 110 ár verið á vettvangi hér innanlands til að greina frá fréttum og atburðum, stórum og smáum. Oft hafa þeir líka verið viðstaddir þegar heimsatburðir hafa átt sér stað og gefið lesendum innsýn í ganga mála. Það átti við þegar Sverrir fór til Nürnberg er fyrstu stríðsréttarhöldin þar fóru fram. Sverrir hafði þá verið blaðamaður á Morgunblaðinu í þrjú ár og átti eftir að starfa á ritstjórninni út árið 1992. Hann lýsti tildrögum þess í viðtali, sem Freysteinn Jóhannsson tók við hann árið 2007 undir fyrirsögninni „Þrúgandi lífsreynsla“.

Löngun til að komast á vettvang

Grípum niður í viðtalinu: „Það var mín hugdetta að fara þessa ferð,“ segir Sverrir. „Ég hafði eins og aðrir fylgzt með fréttum af stríðinu í full sex ár og þegar því loksins lauk greip mig löngun til þess að komast sem fyrst á vettvang og upplifa afleiðingarnar á eigin skinni. Ég var auðvitað ungur, aðeins 24 ára, og til í slaginn. Ég setti mig í samband við bandaríska herinn og fór með herflugvél út; við lentum í París um miðja nótt. Það var fyrsta borgin sem ég kom til í útlöndum. Í flugvélinni voru bandarískir fréttamenn, flestir frá Associated Press og ég var dálítið í slagtogi með þeim. Ég græddi það meðal annars á því að mér gekk greiðlega að komast til Nürnberg og inn í réttarsalinn.“

Grein Sverris birtist 16. ágúst 1946 og var þá langt liðið á réttarhöldin. Þau hófust í nóvember 1945 og lauk 1. október 1946, einum og hálfum mánuði eftir birtinguna.

Sverrir fór þá leið í grein sinni að lýsa því sem fyrir augu hans bar, deila hughrifum sínum með lesendum. Hann lýsti sakborningunum og hvernig þeir báru sig, samskiptunum þeirra á milli og yfirbragði þeirra. Þannig tókst honum að færa lesendur nær atburðum, að fá þá til að líða eins og þeir væru komnir í dómssalinn þar sem réttað var yfir forsprökkum hildarleiksins, sem var nýlokið.

Hann lýsir því að hann hafi vart getað haft augun af þeim sem sátu á sakamannabekknum. Allir hafi þeir virst með á nótunum, nema Karl Dönitz aðmíráll: „Hann virtist vera úti á þekju og [Julius] Streicher, sá, sem frægastur er frá Gyðingaofsóknunum. Hann jóðlaði tuggugúmmí í ákafa og virtist vera með allan hugann við það.“

Göring var í „prýðilegum holdum“ og var „sí og æ eitthvað að skrifa á miða, er hervörður tók frá honum, og afhenti miðana verjanda hans. Rudolf Hess sat næstur honum. Var Göring allt af við og við að hnippa í Hess og hvísla einhverju að honum sem þeir hafa einhverja skemtun af, því báðir hlógu þeir á eftir.“

„Bæði ófrýnilegur og illilegur“

Sakborningunum lýsti hann einum af öðrum: „Vel vissi jeg, að Hess er ófrýnilegur á svip. En ekki hafði jeg gert mjer grein fyrir því, hve hann er ákaflega ljótur til augnanna. Hann sat alltaf með samanherptan munninn eins og hann væri að berjast við að kasta ekki upp.“ Ribbentrop „var fölur og grannur í andliti og í einu orði sagt, aumingjalegur“. Wilhelm Frick, sem var innanríkisráðherra undir Hitler, var „bæði ófríður og illilegur í útliti. Höfuðstór og brúnn á hörund. Lítill og ljótur maður sat við hlið Frick, hins krúnurakaða. Gyðingahatarinn Streicher. Lágur vexti og frekar grannur, sköllóttur, með íbogið nef. Hann virtist sem sagt hugsa meira um tugguna, sem hann hafði uppi í sjer, en varnarræðu Raeders.“

Lýsing Sverris á atburðarásinni í réttarsalnum þegar gert var stutt hlé og dómararnir viku frá er minnisstæð: „Allir hinir ákærðu höfðu haft með sjer hveitibrauðsbita, er þeir gripu nú til og tóku að borða meðan á hljeinu stóð. Flestir þeirra fengu verjendur sína til að koma nú að stúkunni meðan á hljeinu stóð til að hafa tal af þeim. Hinir ræddu saman sín á milli. Göring virtist vera hinn kátasti. Undraðist jeg yfirleitt yfir því, hve vel virtist liggja á þessum mönnum, er allir gátu búist við að fá dauðadóm sinn upp kveðinn þá og þegar. Það brá meira að segja fyrir brosi á hinu steinrunna andliti Keitels, er Baldur von Schirach stakk að honum einhverju skemtilegu. Þótt Ribbentrop hlyti að hafa heyrt það, var ekki vart við nein svipbrigði á honum. Hann ljet yfirleitt afskiftalaust allt sem fram fór. Sat eins og í leiðslu.“

Tólf sakborningar voru dæmdir til dauða í réttarhöldunum, sem Sverrir var viðstaddur. Göring náði að fremja sjálfsmorð fyrir aftökuna. Hinir 11 voru teknir af lífi, lík þeirra brennd og öskunni stráð í ána Isar. Fram fór rúmur tugur réttarhalda í viðbót yfir háttsettum nasistum í Nürnberg. 12 manns til viðbótar voru dæmdir til dauða og 85 var stungið í fangelsi.

Í Nürnberg var í fyrsta skipti sótt til saka fyrir glæpi gegn mannkyni. Önnur sakarefni voru glæpir gegn friði og stríðsglæpir. Hugtakið þjóðarmorð kom síðar til sögunnar. Höfundur að því hugtaki var Rafael Lemkin, pólskur flóttamaður, sem var bandaríska saksóknarateyminu í Nürnberg til aðstoðar.

„Tilgangslaust að reyna að lýsa eyðileggingunni“

Bandamenn komu sér saman um að þessi réttarhöld skyldu fara fram og fór svo að dómarar voru fjórir, Bandaríkjamaður, Breti, Frakki og Rússi. Réttarhöldin voru vitaskuld ekki fullkomin og hefur verið talað um réttlæti sigurvegaranna.

Þegar réttað hafði verið yfir æðstu yfirmönnum nasista í Nürnberg átti að halda áfram og taka þá fyrir, sem voru lægra settir. Minna fór fyrir því að þeir yrðu sóttir til saka og margir héldu áfram að gegna embættum af ýmsum toga í Þýskalandi eftir stríð. Talað hefur verið um að Þjóðverjar hafi litið í hina áttina þegar ýmsir, sem höfðu gegnt valdastöðum í gangverki nasista, fengu störf hjá hinu opinbera í Vestur-Þýskalandi og jafnvel pólitískar stöður.

Þetta var hins vegar langt undan þegar Sverrir var í Nürnberg. Þá blasti við honum land í rústum og um Nürnberg skrifaði hann að það væri „alveg tilgangslaust að reyna að lýsa eyðileggingunni í smáatriðum“. Vitnaði hann í útvarpsfyrirlesara, sem hafði sagt að það borgaði sig ekki að endurreisa borgina og bætti við í lokaorðum greinarinnar: „Þeir sem þangað koma munu vera á sama máli.“

Höf.: Karl Blöndal