Freydís Frigg Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1964. Hún lést á Landspítalanum 6. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru Oddbjörg Jónsdóttir, f. 22.11. 1942 á Eiðum í Eiðaþingá, d. 10.6. 2019, og Guðmundur Karl Jónsson f. 20.11. 1940, d. 2.7. 2009. Móðursystir Freydísar er Steinunn Jónsdóttir, f. 3.10. 1935, d. 26.12. 2008, hennar börn eru Jón Valur Magnason, f. 1.4. 1957, d. 19.10. 1976, Inga Birna Magnadóttir, f. 6.3. 1959, Steinn Bragi Magnason, f. 19.8. 1960, Magni Már Magnason, f. 30.10. 1961, d. 12.4. 1992, og Sunna Björk Þórarinsdóttir, f. 2.3. 1972. Börn Ingu Birnu eru Steinunn Hlín, Elvar Árni og Jón Ingi og á hún fimm barnabörn. Börn Sunnu Bjarkar eru Dagur og Haukur.

Fyrrverandi sambýlismaður og barnsfaðir Freydísar er Pétur Pétursson, f. 12. nóvember 1960. Börn þeirra eru: 1) Stefán Yngvi, f. 17. júní 1992, maki Yuliya Boda, f. 31. janúar 1993. 2) Vala Rún, f. 23. júní 1996. 3) Pétur Darri, f. 17. febrúar 1999.

Freydís fæddist í Reykjavík 1964 og eyddi æskuárum sínum á svolitlu flakki. Hún bjó fyrst í Reykjavík hjá móðurömmu sinni Valgerði Sæmundsdóttur, f. 18.12. 1904, d. 21.4. 1980, á Haðarstígnum. Freydís fluttist svo í Flóahrepp þar sem móðir hennar var ráðskona á sveitabæ. Eftir það lá leiðin aftur til Reykjavíkur, til Hveragerðis og svo á Akranes. Á unglingsárum fór Freydís í sveit á hverju sumri, austur á land, á Bragðavelli við Djúpavog. Freydís byrjaði þroskaþjálfanám árið 1983 og lauk því 1987. Eftir það lá leið hennar til Svíþjóðar í nokkur ár og svo til Danmerkur. Hún fluttist aftur heim til Íslands árið 1997 og hóf feril sinn sem þroskaþjálfi. Freydís vann sem forstöðukona á ýmsum sambýlum og endaði starfsferilinn á sambýlinu í Vættaborgum.

Freydís greindist með ólæknandi krabbamein sumarið 2022. Hún tók þeim fréttum með æðruleysi og yfirvegun og ákvað að nýta tímann sem hún átti eftir til að sinna sínum áhugamálum og skapa minningar með fjölskyldu og vinum. Hún tók frumkvæði og fór í fjölmargar ógleymanlegar ferðir með ástvinum, bæði innan- og utanlands. Freydís kom síðan öllum á óvart og skapaði eigið hlaðvarp, sem fjallar um uppbyggingu hverfa í Reykjavík. Hlaðvarpið fékk nafnið Húsin í borginni og má finna á Spotify.

Útför fór fram í kyrrþey að ósk Freydísar.

Jæja Freydís mín, þá er komið að kveðjustund, sem kom allt of snemma.

Ég vil þakka fyrir ferðalag okkar saman og börnin okkar, sem syrgja mömmu sína. Þú greindist með krabba í júlí 2022 og tókst því með miklu jafnaðargeði, vissir í hvað stefndi strax, nýttir tímann vel með krökkunum og réðst í að gera hlaðvarp um áhugamál þitt, „Húsin í borginni“, þar sem þú fjallaðir um gömul hús í Reykjavík og er á Spotify. Þú varst góður ferðafélagi í öllum okkar ferðum hvort sem var innanlands eða í flutningum okkar erlendis. Börnin eiga sterkt bakland hjá fjölskyldum okkar.

Góða ferð í sumarlandið kæra vina og takk fyrir mig.

Kveðja,

Pétur (Deddi).

Það er sárt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur elsku vinkona, aðeins 59 ára að aldri. Fram í hugann streyma ótal fallegar og góðar minningar.

Við Freydís kynntumst á unglingsárum okkar þegar hún flutti með móður sinni til Akraness. Við urðum strax óaðskiljanlegar og vorum öllum stundum saman. Það var fátt sem við gerðum ekki sameiginlega. Ég minnist útihátíðanna, sveitaballanna og þegar við dönsuðum klukkutímum saman í herberginu hennar við vinsælustu lög þessa tíma. Við vorum sannkallaðar diskópoppdrottningar. Samverustundir okkar á Akurgerðinu voru skemmtilegar og góðar.

Síðar minnist ég heimsókna, sumarbústaðaferða og ferðalaga með fjölskyldum okkar. Á allra síðustu árum vorum við aftur farnar að hittast tvær einar, enda börnin uppkomin. Ég minnist sérstaklega heimsóknar Freydísar á Sauðárkrók fyrir nokkrum árum. Við áttum yndislegar stundir saman, fórum út í Drangey, í Grettislaug og keyrðum um Skagafjörð. Ég minnist þessara daga með hlýju í hjarta.

Freydís var á margan hátt stórbrotinn persónuleiki. Hún var ekki allra og sumir myndu jafnvel segja að hún hafi verið einfari. En þeir sem fengu að kynnast henni eignuðust góðan og traustan vin. Hún var vinur í raun sem alltaf var hægt að leita til. Hún lét sér annt um alla í kringum sig og mátti ekkert aumt sjá. Freydís vildi jafnrétti fyrir alla á öllum sviðum. Hún átti ekki langt að sækja það, alin upp af aðgerðasinnanum Oddu, sem fór með dóttur sína unga að árum í mótmæla- og kröfugöngur. Freydís var einnig mjög listræn. Hún vann að alls kyns sköpun, teiknaði og skrifaði. Ég minnist langra bréfa frá henni þegar hún fór á vertíð fyrir vestan, bjó erlendis eða jólakortanna þar sem hún sagði frá viðburðum síðasta árs á skemmtilegan og gamansaman hátt. Hún var gædd hæfileika til að segja sögur í rituðu máli.

En fyrst og fremst var Freydís mikil fjölskyldumanneskja og hjá henni var fjölskyldan alltaf í fyrsta sæti. Hún var gífurlega stolt af börnunum sínum og stóð þétt við bakið á þeim.

Elsku Stefán, Vala og Darri, missir ykkar er mikill. Hvíl í friði kæra vinkona. Þín er sárt saknað.

Ingileif Oddsdóttir.

Fallin er frá kær vinkona okkar, Freydís Frigg Guðmundsdóttir þroskaþjálfi.

Það voru slæmar fréttir sem Freydís færði okkur fyrir rúmu ári. Harður vágestur var mættur og erfitt verkefni fyrir höndum.

Freydís mætti mótlætinu af yfirvegun og æðruleysi. Hún kvartaði ekki, bar höfuðið hátt og tókst á við erfið veikindin skref fyrir skref.

Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar við þrjár, allar þroskaþjálfar, störfuðum saman í íbúðakjarnanum Vættaborgum. Samstarfið var einstaklega farsælt og lærdómsríkt. Við þrjár, afar ólíkar manneskjur, lögðum okkur fram við að móta faglegt starf og skapa góðan vinnustað. Við vorum fullar af áhuga, lærðum hver af annarri og nutum stuðnings og gagnkvæmrar virðingar hver annarrar. Okkar á milli kölluðum við okkur „Vættina þrjá“ og höfum gert alla tíð síðan.

Við þökkum fyrir að hafa kynnst Freydísi og starfað með henni. Hún hafði margt að gefa og var góður kennari, enda með margra ára reynslu sem þroskaþjálfi og forstöðumaður. Árið 2016 sóttum við saman ráðstefnu í málefnum fatlaðra í Skotlandi og var það ótrúlega skemmtileg ferð sem styrkti okkar vinabönd.

Á kveðjustund hugsum við um kæra vinkonu. Við minnumst Freydísar sem var hæg, hlý, einlæg og traust. Hún var skarpgreind, yfirveguð og skipulögð, hugsaði fyrir öllu og þekkti öll verkefni út og inn. Hún var nægjusöm og útsjónarsöm. Hún bar ætíð hag skjólstæðinga sinna fyrir brjósti og var öflugur og þrautseigur talsmaður þeirra. Við minnumst húmoristans Freydísar, sem gat verið afar uppátækjasöm, drífandi og skemmtilegur félagsskapur.

Eftir að leiðir okkar skildi í Vættaborgum héldum við áfram tengslum og hittumst nokkuð reglulega. Alltaf var gott að „fletta upp í“ Freydísi þegar upplýsingar vantaði eða fá góð ráð. Og alltaf tókst okkur að eiga saman góðar og skemmtilegar stundir, jafnvel þó að vágesturinn vofði yfir.

Börn Freydísar voru hennar stolt og ríkidæmi og hún naut þess að segja okkur frá þeim, sigrum þeirra og ævintýrum. Eftir að hún veiktist notaði hún tímann eins vel og heilsan leyfði. Hún náði að fara í nokkrar skemmtilegar ferðir með börnunum sínum, auk þess sem hún las mikið og grúskaði í sínum áhugamálum. Sem minnisvarði um dugnað og þrautseigju Freydísar eru nýútgefið hlaðvarp hennar „Húsin í borginni“. Hlaðvarpið er afrakstur brennandi áhuga hennar á þróun íbúabyggðar og fjallar á mjög fróðlegan hátt um uppbyggingu íbúahverfa í Reykjavík.

Nú er komið að leiðarlokum. Við munum sakna kærrar vinkonu. Minningin um einstaka konu mun lifa.

Mestur er missir barna Freydísar. Við sendum þeim Völu Rún, Stefáni Yngva og Darra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Með Vættakveðju,

Anna María Steindórsdóttir
og Erla Björgvinsdóttir.