Pálína Sigrún Halldórsdóttir
Pálína Sigrún Halldórsdóttir
Skrifað hefur verið undir samstarfssamning á milli Akureyrarbæjar og Grófarinnar Geðræktar sem snýr að þjónustu Grófarinnar á Akureyri. Markmið samningsins er að efla Grófina sem geðræktarmiðstöð og ennfremur að auka tengsl og samvinnu Grófarinnar…

Skrifað hefur verið undir samstarfssamning á milli Akureyrarbæjar og Grófarinnar Geðræktar sem snýr að þjónustu Grófarinnar á Akureyri. Markmið samningsins er að efla Grófina sem geðræktarmiðstöð og ennfremur að auka tengsl og samvinnu Grófarinnar við þá aðila innan bæjarfélagsins sem vinna með fólki sem glímir við geðraskanir.

Samið til eins árs í senn

Að sögn Pálínu Sigrúnar Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra og iðjuþjálfa hjá Grófinni Geðrækt, er samningurinn, sem hljóðar upp á 2,5 milljónir, einungis til eins árs og verður hann endurskoðaður í október á næsta ári. Er þetta í fyrsta sinn sem Akureyrarbær gerir slíkan samning við Grófina sem hefur verið starfrækt síðan 10. október 2013.

„Ég kem hingað í vinnu árið 2020 og veit að það hafði verið reynt tvisvar eða þrisvar áður af forverum mínum að fá bæinn að borðinu en það gekk ekki fyrr en núna en við erum búin að vera í þessu samtali síðan haustið 2021,“ segir hún.

„Grófin er staður sem er opinn og gjaldfrjáls og tekur við fólki af öllu Norðurlandi. Auðvitað eru flestir búandi hér á svæðinu þannig að þetta eru Akureyringar sem eru að nýta þetta mest. Þess vegna höfum við verið að reyna að ná til bæjarins með þetta, að það sé eðlilegt að þeir setji í þessa þjónustu einhvern pening.“

Gríðarlega mikilvægt samstarf

Þá segir Pálína að lokum samstarfssamning sem þennan gríðarlega mikilvægan fyrir starfsemi Grófarinnar.

„Þetta er fyrst og fremst viðurkenning á því góða og þarfa starfi sem fram hefur farið hér í tíu ár og góður grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarf við Akureyrarbæ.“ annarun@mbl.is