Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, birti niðurstöður rannsóknar um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á dögunum. Foreldrar barna á aldrinum 12 mánaða til 12 ára voru í úrtaki könnunarinnar

Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, birti niðurstöður rannsóknar um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á dögunum. Foreldrar barna á aldrinum 12 mánaða til 12 ára voru í úrtaki könnunarinnar. Niðurstöðurnar eru sláandi en orðrétt segir í skýrslunni:

„Þrátt fyrir eina mestu atvinnuþátttöku kvenna í heiminum og að Ísland komi vel út í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti kynjanna bera konur ennþá meiri þunga af vinnuálagi vegna heimilisstarfa og barnauppeldis. Um þriðjungur kvenna er í hlutastarfi, langflestar til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.“

Sem sagt, konur á vinnumarkaði aðlaga sig þörfum fjölskyldunnar en karlarnir ekki. Þær bera þyngstu byrðar allra vaktanna, þeirrar fyrstu, annarrar og þriðju, ásamt því að færa fórnirnar sem þeim fylgja þegar kemur að starfsframa og tekjumöguleikum. „Það hriktir í heimsmynd minni!“ voru kaldhæðnisleg viðbrögð tveggja barna móður á besta aldri við þessum tíðindum.

Konur minnka í mun meiri mæli starfshlutfall sitt en karlar, þær lengja fæðingarorlofið en þeir ekki og þær bera mun meiri ábyrgð á samskiptum við skóla barna. Ekki kemur á óvart að fjárhagsstaða einhleypra foreldra er mun verri en sambúðarfólks og þeir eiga erfiðara með að bregðast við starfsdögum í skóla og löngu sumarleyfi barna.

Yfirgnæfandi meiri hluti karla er í fullu starfi og þeir þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af því að leik- eða grunnskólinn hafi fyrst samband við þá ef barn veikist eða eitthvað kemur fyrir á skólatíma. Þeir virðast ekki hafa miklar áhyggjur af því að geta samræmt fjölskyldu- og atvinnulíf.

Í gær fögnuðu Íslendingar 105 ára fullveldi, sjálfstæði lands og þjóðar. Á þessu ári eru líka 103 ár liðin frá því að allar konur og fátækir karlar fengu kosningarétt hér á landi. Ég minni líka á að fyrir meira en 60 árum var samþykkt á Alþingi að konur og karlar skyldu fá sömu laun fyrir sömu vinnu. En eins og reynslan sannar, þá er eitt að breyta löggjöf og annað að breyta viðhorfum, menningu og samfélagi. Á það hafa kvenfrelsiskonur bent áratugum saman.

Það þarf að rjúfa samstöðuna sem ríkir hér á landi um tekjufórnir kvenna og kynlegt heimilishald. Það er ekkert eðlilegt við það að konur hafi um það bil 20% lægri atvinnutekjur en karlar. Lægri tekjur framkallast í lægri eftirlaunum og verri réttindum á vinnumarkaði. Það er ekki heldur náttúruleg skipan að mæður taki miklu stærri hluta fæðingarorlofsins en feður. Hættum að láta eins og þetta sé í lagi. Fyrst þá skapast forsendur fyrir efnahagslegu sjálfstæði kvenna og þeirra sem þær hafa á framfæri.

Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. thorunn.sveinbjarnardottir@althingi.is

Höf.: Þórunn Sveinbjarnardóttir