Örn Pálsson
Á kynningarfundi 29. ágúst um skýrsluna „Auðlindin okkar, sjálfbær sjávarútvegur“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra:
„Vinnan sem unnin hefur verið með Auðlindinni okkar er mikilvægt skref til að skapa skilyrði til aukinnar sáttar um sjávarútveg. Hagsmunir almennings eru settir í forgrunn og endurspeglast til dæmis í sterkum umhverfisáherslum og tillögum um aukið gagnsæi og hækkun veiðigjalda í samræmi við fjármálaáætlun.“
72,3% vilja efla strandveiðar
Miðað við orð ráðherra voru það Landssambandi smábátaeigenda mikil vonbrigði að skoðanir þjóðarinnar um strandveiðar, sem birtust í rannsóknarskýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir matvælaráðuneytið, skyldu ekki fá hljómgrunn. Þar var spurt: Telur þú að hlutfall strandveiða af heildarkvóta eigi að vera hærra, lægra eða svipað og það er nú? Svar: 31,1% sagði að hlutfallið ætti að vera mun hærra og 41,2% nokkru hærra. Niðurstaða: 72,3% svarenda vildu að hlutfall strandveiða af heildarafla væri hærra.
Ráðherra ræður
Landssambandið missti því ekki svefn þótt skýrsluhöfundar „Auðlindarinnar okkar“ hefðu ákveðið að skauta fram hjá sjónarmiði almennings. Nú væri málefnið komið til matvælaráðherra sem setti hagsmuni almennings í forgrunn, auk þess sem stefna hennar flokks var ekki að þvælast fyrir henni um að vilja strandveiðum vel. Hún sem ráðherra réði því hvað myndi standa í frumvarpinu.
Ráðherra hefur nú lokið gerð draga að frumvarpi til laga um sjávarútveg.
· Í frumvarpinu er í engu lagt til að auka jafnræði við strandveiðar milli landshluta eins og ráðherra hefur lagt áherslu á.
· Í frumvarpinu er ekki lagt til að heimildir til strandveiða verði auknar, ráðherra lætur sig engu skipta álit 72,3% þjóðarinnar.
· Í frumvarpinu leggur ráðherra hins vegar til að strandveiðar verði skertar í upphafi næsta kjörtímabils sumarið 2026 með því að ufsi verði ekki lengur bónus við strandveiðar.
· Að lokum er það skoðun ráðherra að rétt sé að ekki verði lengur skylt að halda eftir 5,3% af leyfilegum heildarafla til að tryggja strandveiðar og aðrar byggðatengdar aðgerðir, heldur verði ráðherra það einungis heimilt.
Orð og efndir
Lokaorð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda 13. október sl.:
„Ég mun sem ráðherra sjávarútvegsmála hvergi hvika frá því að fylgja vísindalegri ráðgjöf um nýtingu fiskistofna og að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti enda er það forsenda þess að aflaheimildir geti aukist í framtíðinni. Það er ekki síður ásetningur minn að skapa skilyrði fyrir því að markmið laga um stjórn fiskveiða náist, að efla atvinnu og byggð í landinu. Strandveiðar skipta þar máli og því mikilvægt að standa áfram vörð um þær. Að því mun ég huga í heildarlögum um sjávarútveg sem lögð verða fram í vetur. Ég hef staðið með strandveiðum og hyggst gera það áfram.“
Hina 750 sjálfstæðu útgerðarmenn strandveiðibáta setur hljóða. Orð og efndir matvælaráðherra.
Baráttan heldur áfram
Ástæða er til á þessum tímapunkti að hafa áhyggjur af framtíð strandveiða, nánast eina möguleikans fyrir nýja aðila til að hefja útgerð. Róa til fiskjar á sínum eigin bát og stunda veiðar með handfærum. Aflinn seldur á fiskmörkuðum, viðskipti sem tryggja hámarksverð fyrir það sem tekið er úr sameiginlegri auðlind landsmanna. Allt eins umhverfisvænt og sjálfbært og hugsast getur.
Landssamband smábátaeigenda mun halda áfram baráttu sinni fyrir eflingu strandveiða og treystir hér eftir sem endranær á stuðning þings og þjóðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.