Sigurrós hefur skrifað bók um ömmu sína, Katrínu Pálsdóttur, sem þurfti að berjast fyrir því að halda börnum sínum.
Sigurrós hefur skrifað bók um ömmu sína, Katrínu Pálsdóttur, sem þurfti að berjast fyrir því að halda börnum sínum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún sagðist þakka gott boð en ætlaði að ala önn fyrir sínum eigin börnum, því enginn gæti gefið þeim meiri ást og umhyggju en einmitt hún þrátt fyrir fátækt.

Katrín – málsvari mæðra er titill bókar sem Sigurrós Þorgrímsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi og alþingismaður, hefur skrifað um ömmu sína Katrínu Pálsdóttur (1889-1952). Katrín var um árabil bæjarfulltrúi í Reykjavík en einnig stofnandi fjölda félaga og nefnda sem börðust fyrir bættum hag mæðra og barna.

Verkið fjallar ekki einungis um lífshlaup Katrínar heldur er einnig fjallað um stöðu kvenna og baráttu þeirra fyrir auknum réttindum og jafnframt er veitt innsýn í verkefni og starfsemi Mæðrastyrksnefndar og Mæðrafélagsins þar sem Katrín var í forsæti.

Grein varð að bók

Spurð um tilurð bókarinnar segir Sigurrós: „Þegar fjölskyldan hélt upp á aldarafmæli Katrínar var ég í stjórnmálafræði í Háskólanum og mamma bað mig að skrifa um hana grein, sem ég og gerði. Þegar móðursystir mín dó, en Katrín hafði búið hjá henni síðustu æviárin, þá fórum við systkinabörnin í gegnum hlutina hennar og fundum kassa þar sem var mikið af bréfum, greinum, útvarpserindum og ræðum eftir Katrínu sem ég fékk að taka með mér heim til að fara í gegnum. Þá gerði ég mér grein fyrir, hversu merkileg kona Katrín var.

Upphaflega hugmyndin var að skrifa ítarlega grein um Katrínu til að gefa afkomendum. En svo fór ég að skoða alls kyns heimildir og byrjaði að skrifa. Ég er óskaplega ánægð að bókin sé komin út.“

Katrín dó þegar Sigurrós var fimm ára gömul. „Ég man ekki mikið eftir henni nema það að hún var yndisleg amma, óskaplega blíð og góð. Hún útbjó sjálf flestallar jólagjafir fyrir barnabörn sín,“ segir Sigurrós.

Barátta að halda börnunum

Katrín var alþýðubóndakona og eignaðist tólf börn með manni sínum, Þórði Þórðarsyni. „Þau keyptu Tryggvaskála á Selfossi og bjuggu þar í nokkur ár en fluttu síðan í Einarsnes í Grímsstaðaholtinu. Eftir sautján ára hjónaband lést Þórður og Katrín stóð ein uppi með níu börn, en þrjú hafði hún misst. Þá var ekkert annað að gera en að berjast fyrir því að halda börnunum,“ segir Sigurrós.

„Þau Þórður áttu sveitfesti í Landsveitinni og þegar Katrín fór með líkið austur til greftrunar beið hreppsnefndin eftir henni til að segja henni að búið væri að finna pláss fyrir öll börnin og vinnukonustarf fyrir hana og hún mætti hafa tvö yngstu börnin hjá sér. Hún sagðist þakka gott boð en ætlaði að ala önn fyrir sínum eigin börnum, því enginn gæti gefið þeim meiri ást og umhyggju en einmitt hún þrátt fyrir fátækt. Það voru óskaplega erfiðir tímar fram undan en henni tókst þetta.“

Samstaða kvenna

Mæðrastyrksnefnd var stofnuð árið 1928. Katrín mætti þar á fund árið eftir og árið 1930 gerðist hún sjálfboðaliði hjá Mæðrastyrksnefnd. „Hún vann þar flest kvöld og um helgar og fór að berjast fyrir einstæðar mæður. Þegar bærinn gerði manntal fékk Mæðrastyrksnefnd leyfi til að fara yfir það og gerði lista yfir einstæðar mæður. Síðan fóru tvær konur, Katrín og Unnur Skúladóttir, dóttir Skúla Thoroddsen, og heimsóttu allar þessar konur til að kynna sér hvernig hagur þeirra væri. Árið 1934 fékk Mæðrastyrksnefnd Þórð Eyjólfsson lagaprófessor til að búa til lagafrumvarp fyrir sig um rétt mæðra til að fá greitt meðlag með börnum sínum. Ári síðar fór frumvarp þessa efnis í gegnum þingið og þar var ýmislegt tekið úr frumvarpinu sem Þórður hafði samið,“ segir Sigurrós. „Það er mjög áhugavert að lesa fundargerðir Mæðrastyrksnefndar. Konurnar voru stöðugt að fara yfir og lesa frumvörp og mál sem leggja átti fram á þingi. Ef málin snertu konur, mæður og börn, gerðu þær mjög oft athugasemdir við þau. Þær fóru niður á þing og töluðu við formenn flokkanna og lögðu fram ýmsar áætlanir og tillögur. Það var ótrúlegt hvað orka, dugnaður og ósérhlífni þessara kvenna var mikil, en allar voru þær meira og minna útivinnandi konur.

Samstaðan milli þessara kvenna var mikil og merkileg. Eins og amma sagði í grein: Það er alveg sama í hvaða stjórnmálaflokki við erum. Því fleiri flokkum sem við erum í því betra því þá fá fleiri að heyra okkar sjónarmið.“

Vann alla vinnu

Eitt af því sem einkenndi Katrínu var hversu hörkudugleg hún var. „Eftir að Katrín verður ekkja þurfti hún að vinna alla vinnu sem hún fékk, hvort sem það var að skúra gólf, vinna í fiski eða þvo þvotta. Samhliða er hún að berjast fyrir bættum kjörum ekkna, einstæðingsmæðra og barna þeirra. Hún barðist fyrir því í bæjarstjórn að í öllum hverfum Reykjavíkur væru leikskólar fyrir yngstu börnin svo mæður gætu unnið utan heimils með þá vissu að börnin væru í öruggum höndum. Hún var mjög spennt fyrir því að reistar yrðu félagsmiðstöðvar fyrir unglinga en hún hafði séð þær í Kaupmannahöfn. Hún deyr 1952 og fyrsta félagsmiðstöðin er ekki starfrækt fyrr en löngu síðar,“ segir Sigurrós.

Katrín gekk í Kommúnistaflokkinn og var varabæjarfulltrúi flokksins á árunum 1938-1942 en gekk svo í Sósíalistaflokkinn og var bæjarfulltrúi þess flokks á árunum 1942-1950.

Einar Olgeirsson sagði í áramótagrein í Þjóðviljanum að Katrín hefði verið: „Ein ötulasta og fórnfúsasta kona sem barist hefur fyrir réttindum og hamingju þeirra fátækustu í okkar landi.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir