Kjartan Magnússon
Rekstur Reykjavíkurborgar er ekki sjálfbær og stendur borgin frammi fyrir miklum skuldavanda. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi að fjárhagsáætlun mun samstæða borgarinnar auka skuldir sínar um 69 milljarða króna á tveimur árum 2023-2024. Munu skuldir hennar aukast um 44 milljarða í ár samkvæmt útkomuspá og um 25 milljarða á komandi ári. Þetta kemur fram í fyrirliggjandi frumvarpi að fjárhagsáætlun borgarinnar sem liggur nú fyrir borgarstjórn til afgreiðslu.
Ljóst er að grípa verður til víðtækra aðgerða til að ná tökum á fjármálum Reykjavíkurborgar, ná jafnvægi í rekstri og stöðva skuldasöfnun. Svokölluð aðgerðaáætlun í fjármálum, sem vinstri meirihlutinn kynnti í árslok 2023, hefur skilað litlum sem engum árangri.
Þegar rekstur Reykjavíkurborgar er skoðaður sést að víða er bruðlað og hægt væri að ná miklum árangri við sparnað og hagræðingu ef vilji væri fyrir hendi. Yfirstjórn Reykjavíkurborgar gæti byrjað á að spara hjá sjálfri sér enda hefur kostnaður við miðlæga stjórnsýslu aukist mjög á undanförnum árum. Miklu víðar í borgarkerfinu væri hægt að hagræða án þess að það kæmi niður á þjónustu við íbúa.
Frestun framkvæmda
Unnt er að fresta ýmsum framkvæmdum í borginni, sem ekki eru bráðnauðsynlegar. Sem dæmi má nefna framkvæmdir á svonefndu Hlemmsvæði en á komandi ári á að verja 600 milljónum króna til þeirra. Þá mætti vel hætta við ýmsar óþarfar framkvæmdir, t.d. fækkun bílastæða í íbúagötum, sem íbúar hafa ekki beðið um enda eru viðkomandi stæði í fullri notkun þeirra.
Útboð
Nýta mætti útboð í ríkari mæli en nú er gert til að knýja fram hagræðingu hjá borginni, enda eru þau þekkt leið til að bæta nýtingu skattfjár.
Reykjavíkurborg er líklega eina sveitarfélag landsins sem býður ekki út sorphirðu. Sjálfsagt er að kanna hvort ekki sé unnt að ná fram sparnaði með því að bjóða rekstur sorphirðunnar út. Hægt væri að gera slíka breytingu í áföngum og hagræða í samræmi við starfsmannaveltu svo ekki þyrfti að segja upp starfsfólki í tengslum við breytingarnar. Byrja mætti í völdum hverfum og meta reynsluna áður en lengra væri haldið.
Á næsta ári á að verja 2.600 milljónum króna til fjárfestinga í áhöldum, tækjum og hugbúnaði þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar. Hægt væri að hagræða verulega á þessu sviði og Reykjavíkurborg ætti ekki að reka umfangsmikið hugbúnaðarhús eins og nú er gert.
Sala eigna
Sjálfsagt er að skoða sölu eigna hjá borginni í því skyni að grynnka á skuldum ef þær eru ekki hluti af grunnrekstri hennar. Ljósleiðarinn ehf. er dæmi um slíkt enda er rekstur fjarskiptafyrirtækis hvorki hluti af grunnrekstri Reykjavíkurborgar né hefðbundnum grunnrekstri Orkuveitunnar.
Flutningur flugvallar í Hvassahraun
Samkvæmt frumvarpinu á að verja 20 milljónum króna til útgjaldaliðarins „Flutningur Reykjavíkurflugvallar í Hvassahraun“. Þessar milljónir, sem mætti auðvitað spara, sýna athyglisverða þrautseigju meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í þeirri viðleitni sinni að flæma flugvallarstarfsemi úr borginni.
Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur tækifæri af mörgum til hagræðingar hjá Reykjavíkurborg. Nýta þarf slík tækifæri til að koma rekstrinum í jafnvægi og stöðva skuldasöfnun borgarinnar, sem komin er yfir hættumörk.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.