Kristinn Pálsson fæddist á Árbakka í Unaðsdal í Norður-Ísafjarðarsýslu 30. ágúst 1935. Hann lést 21. október 2023 á Landspítalanum í Fossvogi.

Foreldrar hans voru hjónin Páll Borgarsson, f. 16. febrúar 1887, d. 17. febrúar 1969, og Sigrún Sigurðardóttir, f. 26. desember 1906, d. 22. apríl 1990.

Kristinn var elstur fjögurra systkina. Systur hans eru: 1) Guðný Elínborg, f. 17.11. 1940, maður hennar var Björn Björnsson, f. 22.6. 1932, d. 20.5. 2014. 2) Júlíana Kristín, f. 30.5. 1942 , d. 30.12. 2007, maður hennar var Gunnar Ragnar Jónsson, f. 16.8. 1930, d. 23.12. 1997. 3) Sigurða, f. 15.11. 1943, maður hennar er Sigurður Friðrik Jónsson, f. 10.10. 1942.

Fyrstu fimm árin ólst Kristinn upp í Unaðsdal. Fluttist svo 1940 til Bolungarvíkur og gekk þar í grunnskóla. Á unglingsárum vann hann við beitningar við höfnina í Bolungarvík og um tvítugt fór hann til Reykjavíkur að vinna við byggingar og þá aðallega við járnabindingar og vann síðar við hin ýmsu störf.

Kristinn kynntist eiginkonu sinni 1966, Ólöfu Sigurðardóttur, í Reykjavík. Þau giftust 25. mars 1967 og hófu búskap í Bolungarvík og bjuggu þar í fjögur ár og fluttu svo til Reykjavíkur, fyrst í Breiðholtið, en bjuggu lengst af í Langholtshverfinu

Börn þeirra eru Þórhildur, f. 1967, Guðni, f. 1969, Jónína, f. 1970, Trausti, f. 1973. Fyrir átti Ólöf dótturina Aðalbjörgu Sigríði Magnúsdóttur, f. 1962. Fyrir átti Kristinn soninn Pál Jóhann, f. 1965. Kristinn lætur eftir sig 15 barnabörn.

Útför hefur farið fram.

Við burtför þína er sorgin sár

af söknuði hjörtun blæða.

En horft skal í gegnum tregatár

Í tilbeiðslu á Drottin hæða.

Og fela honum um ævi ár

undina dýpstu að græða.

(Guðrún Jóhannesdóttir)

Kveðja.

Ólöf eiginkona.

Elsku besti Kristinn afi.

Þú varst alltaf svo góður við okkur og gafst okkur alltaf tíma með þér. Það var alltaf svo gaman þegar við fórum saman í berjamó, út á róló, gefa kisum og fuglum að borða.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti sjáðu,

blíði Jesús að mér gáðu.

(Ásmundur Eiríksson)

Við söknum þín.

Kristinn Þór og Jakob Snævar afastrákar.

Elsku pabbi og tengdapabbi, nú er komið að kveðjustund.

Fjölskyldan fór í margar ferðir bæði innanlands og erlendis og alltaf varstu hrókur alls fagnaðar.

Sumarið 2013 er okkur hjónunum mjög minnisstætt því þá fórum við með þér í ferðalag á heimaslóðir þínar vestur til Bolungarvíkur, Ísafjarðar og Þingeyrar. Í Víkinni varstu í essinu þínu. Þú sýndir okkur bæinn þinn og sagðir okkur skemmtilegar sögur. Að lokum fórstu á hjúkrunarheimilið og heilsaðir upp á vini þína sem þú þekktir þar. Frá Bolungarvík lá leiðin til Ísafjarðar og Þingeyrar þar sem við heimsóttum systur þínar, þær Guðnýju og Sigurðu, sem þar búa. Það urðu fagnaðarfundir enda var samband ykkar systkinanna fallegt.

Þegar við hjónin eignuðumst syni okkar, þá Kristin Þór og Jakob Snævar, árin 2014 og 2017 kom sérstakur glampi í augun þín og það var greinilegt að litlu sólargeislarnir þínir hresstu mikið upp á tilveruna í ellinni.

Við söknum þín sárt.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið,

og þín er liðin æviönn,

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

(Höf. ók.)

Takk fyrir ástina og vináttuna sem þú gafst okkur alla tíð.

Trausti og Bergdís Mjöll.

Elsku pabbi

Það er svo sárt og erfitt að hugsa um að þú sért farinn úr þessum heimi.

Margs er að minnast af góðum og vönduðum manni. Þú varst alltaf boðinn og búinn að gera allt fyrir alla og sérstaklega þegar börnin þín voru annars vegar. Á hverju ári varstu duglegur að skella þér í berjamó með okkur systkinin þ0ar sem við tíndum ber í fötu og borðuðum svo með miklum rjóma og sykri þegar heim var komið. Þú varst líka mikill vinnuþjarkur og vannst oft myrkranna á milli. Að sitja auðum höndum var einfaldlega ekki þinn stíll. Þú vannst við járnabindingar og lagðir járn í ótalmörg hús sem sjálfstæður atvinnurekandi. Þú varst stoltur af húsunum sem þú vannst við og nóg að gera, þannig að þú kallaðir á okkur systkinin svo við gætum aðstoðað þig sem var mjög gaman. Þú varst duglegur að kenna okkur að tefla skák þar sem við teflum hvort við annað, Þú hafðir líka mjög gaman af að spila á spil þegar barnabörnin komu til sögunnar. Varst allur af vilja gerður að hjálpa til ef við þörfnuðumst aðstoðar við húsnæðið. Þá var komið með réttu verkfærin til að bramla og brjóta og byggja upp aftur. Þegar barnabörnin voru komin þá varstu alltaf boðinn og búinn að koma að passa þegar beðið var um það

En nú hefur þú fengið hvíldina.

Við kveðjum þig nú, elsku pabbi.

Þar sem englarnir syngja sefur þú,

sefur í djúpinu væra.

Við hin, sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn.

Ástar- og saknaðarkveðjur.

Þinn sonur,

Guðni.