Á aðaltorginu voru börnin önnum kafin við að elta sápukúlur, en mannlífið í Lissabon er fjöbreytt.
Á aðaltorginu voru börnin önnum kafin við að elta sápukúlur, en mannlífið í Lissabon er fjöbreytt. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tuttugu og eins stigs hiti gladdi tvær íslenskar vinkonur sem skelltu sér til Lissabon í Portúgal eina langa helgi nú í nóvember. Að ganga um bæinn í léttum fötum og geta sest niður utandyra til að fá sér snarl eða drykk er svo notalegt og fyllir mann orku fyrir komandi vetur

Tuttugu og eins stigs hiti gladdi tvær íslenskar vinkonur sem skelltu sér til Lissabon í Portúgal eina langa helgi nú í nóvember. Að ganga um bæinn í léttum fötum og geta sest niður utandyra til að fá sér snarl eða drykk er svo notalegt og fyllir mann orku fyrir komandi vetur. Í miðbænum er iðandi mannlíf, markaðstorg, veitingastaðir, kirkjur og verslanir; allt sem þarf til að eiga fullkomna helgi langt frá heimalandinu.

Lissabon, höfuðborg Portúgals, er ein elsta borg heims. Hún er í vesturhluta Portúgals, við Atlantshafið og þar sem áin Tagus rennur í haf. Hinn sögufrægi hluti hennar er byggður á sjö hæðum, og það fengum við stöllur að sannreyna því oft var á brattann að sækja, bókstaflega, og reyndi aðeins á fætur. Í gamla miðbænum, sérstaklega í hverfinu Alfama, er skemmtilegt að týnast í þröngum og krókóttum gömlum götum, reka nefið inn í litlar túristabúðir og setjast niður til að fá sér kaffi eða límonaði. Húsin eru öll aldargömul og þvottur hangir gjarnan til þerris út um glugga eða á svölum. Sagan lekur þar af hverjum steini.

Alls staðar Íslendingar

Við lentum um kvöldmatarleytið á föstudegi eftir beint flug með Play sem tók um fjóra tíma. Leigubílaferðin tók skamma stund en við vorum sannarlega blekktar til að borga þrefalt verð sem við gerðum með bros á vör, enda áttuðum við okkur ekkert á því að ferðin átti einungis að kosta um 15 evrur. Okkur fannst bara ódýrt að borga 25 og gáfum svo manninum slatta í þjórfé! Við komum okkur svo vel fyrir í huggulegri íbúð sem fengin var í gegnum íbúðaskiptavefinn Homeexchange og kostaði því gistingin ekkert.

Röltum við svo út og og fundum lítinn portúgalskan lókal veitingastað þar sem enga ferðamenn var að finna. Þar smökkuðum við marga góða smárétti en það fyndna sem gerðist þar var að hópur af íslenskum saumaklúbbskonum, sem höfðu setið fyrir aftan okkur í vélinni, birtist allt í einu þar í dyrunum. Þær fengu þó ekki inngöngu, enda var klukkan orðin ellefu og verið að loka eldhúsinu, en þvílík tilviljun að hitta þær aftur á litlum lókal stað sem ekki var í miðbænum. Alls staðar eru Íslendingar og áttum við eftir að rekast á þá marga á komandi dögum.

Antík, skart og notuð föt

Fyrsti dagurinn fór í rölt um bæinn og enduðum við á Praça do Comércio, stóru torgi sem liggur við ána. Þar má finna stóra styttu af kónginum José fyrsta sem ríkti yfir Portúgal frá 1750 til dauðadags 1777. Víða á torginu mátti finna afar fallega nútímaskúlptúra sem settu skemmtilegan svip á torgið og gaman var að fylgjast með litlum börnum að eltast við sápukúlur götulistamanns. Veitingastaðir eru þarna beggja vegna og þar var gott að setjast niður og virða fyrir sér mannlífið og borða hádegismat.

Þaðan lá leiðin á flóamarkaðinn Feira da Ladra sem er í Campo de Santa Clara við klaustrið São Vicente de Fora og er opinn alla laugardaga og þriðjudaga. Þar kennir ýmissa grasa en fyrir fólk sem hefur gaman af gömlum munum, skartgripum, antík og notuðum fötum er markaðurinn algjör perla.

Uppskrift sem þrír kunna

Eftir langan dag á röltinu settumst við inn í lítinn sal og hlýddum á seiðandi Fado-tónleika; svo seiðandi að undirrituð svaf værum blundi undir angurværum röddunum. Fado er sér-portúgölsk tónlist, sungin við undirleik gítars eða mandólíns og fjalla textarnir oftar en ekki um ástina og fátæktina.

Eftir blundinn var að sjálfsögðu haldið út að borða, en nóg er af veitingastöðunum í Lissabon. Portúgalar eru frægir fyrir saltfisk, sardínur, kolkrabba, svínakjötssamlokur og skelfisk, svo eitthvað sé nefnt. Og að sjálfsögðu verða allir að smakka að minnsta kosti einu sinni bakkelsið pastel de nata sem er eins konar smjördeigsbolli fylltur með eggjabúðingi. Sagan segir að þrátt fyrir það hversu margir bjóði upp á pastel de nata séu aðeins þrjár manneskjur í heiminum sem kunna uppskriftina. Það er eins gott að hún týnist ekki!

Þetta kvöld völdum við þó ekki hefðbundinn portúgalskan mat, heldur ítalska staðinn Il Mercato og undirrituð naut þess mjög að borða geggjað ravíólí með handfylli af trufflum.

Far upp brekkurnar

Á degi tvö, eftir góðan dögurð í risastórri mathöllinni Time Out, röltum við um og kíktum á handverk sem var til sölu í básum fyrir utan. Eftir að hafa keypt smávegis glingur hittum við Gunnar Flóka Sigurðsson, ávallt kallaður Flóki, en hann býr í Lissabon og keyrir um með ferðamenn í svokölluðum tuktuk. Við skelltum okkar með honum í tveggja klukkustunda túristaferð og fengum þá í leiðinni far upp brattar brekkurnar. Flóki fór með okkur víða um gamla bæinn og upp á útsýnisstaði þar sem borgin, með öllum sínum brúnrauðu þökum, blasti við. Í borginni býr hálf milljón manns, en á stórborgarsvæðinu öllu um 2,7 milljónir manna. Flóki var fróður og skemmtilegur og er vel hægt að mæla með ferð hjá honum en hann má finna á Facebook. Vissulega er hægt að gera margt annað í Lissabon, eins og að fara út fyrir borgina og skoða gamla kastala, en við eigum það inni næst.

Um kvöldið lá leiðin á portúgalskan veitingastað og þar sem veðrið lék við okkur sátum við úti undir berum himni. Smökkuðum við kolkrabba og þeirra útgáfu af sjávarrétta-paellu sem var sérstakt en ekki endilega í uppáhaldi.

Þriðji og síðasti dagurinn var nýttur í búðaráp í miðbænum, með mörgum góðum stoppum á útikaffihúsum og ísbúðum. Um kvöldið var svo flogið heim og voru þá töskurnar aðeins þyngri en í upphafi! Mikið var nú gott að gæða sér á síðasta pastel de nata í vélinni, en það fæst að sjálfsögðu í fríhöfninni í Lissabon. Ég sá mest eftir að hafa ekki keypt heilan kassa!

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir