Stórfjölskyldan Samankomin í desember 2021.
Stórfjölskyldan Samankomin í desember 2021. — Ljósmynd/Kmaack
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágústa Johnson fæddist 2. desember 1963 á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Hún ólst upp fyrstu sex árin á Melabraut á Seltjarnarnesi en flutti 1970 á Tjarnarflöt í Garðabæ. Ágústa gekk fyrst í Ísaksskóla, síðan í Barnaskóla Garðahrepps og Garðaskóla…

Ágústa Johnson fæddist 2. desember 1963 á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Hún ólst upp fyrstu sex árin á Melabraut á Seltjarnarnesi en flutti 1970 á Tjarnarflöt í Garðabæ.

Ágústa gekk fyrst í Ísaksskóla, síðan í Barnaskóla Garðahrepps og Garðaskóla og lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1983. Hún hóf sama ár nám í íþrótta- og tómstundafræði við Háskólann í Boulder í Colorado-ríki, Bandaríkjunum, og lauk því árið 1986. Hún hefur síðan lokið diplómagráðum í heilsurækt og einnig PMD-stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012.

„Mér þótti fátt meira spennandi en að fá að vinna og eins og margir jafnaldrar byrjaði ég að vinna ýmis störf samhliða skóla og í skólafríum um tíu ára aldur. Allt frá því að bera út Morgunblaðið 12 ára gömul, passa börn, taka að mér þrif fyrir aldraða í heimahúsum, ýmiss konar verslunar- og viðskiptastörf og fleira. Í nokkrum jólafríum um 14-16 ára aldur setti ég saman nokkur hundruð jólaseríur fyrir Heimilistæki, með lóðbolta og tilheyrandi, ásamt Hildi Halldórs vinkonu í bílskúrnum heima. Ef til vill finnast einhverjar slíkar enn á einhverju heimili.

Að loknu námi lauk þó mínum fjölbreytta starfsferli, ég fann mína hillu og hef ég rekið heilsuræktarstöð síðan.“

Ágústa stofnaði Eróbikkstúdíó með Jónínu Benediktsdóttur árið 1986, síðar Stúdíó Ágústu og Hrafns. Hún stofnaði Hreyfingu ehf. 1998 með Grími Sæmundsen og hefur verið framkvæmdastjóri heilsuræktarstöðvarinnar til dagsins í dag.

„Þolfimi var alveg ný af nálinni þegar Eróbikkstúdíóið var stofnað. Það var það fyrsta sinnar tegundar og og vakti athygli, ekki síst eftir að þolfimisjónvarpsþættir fóru í loftið á RÚV árið 1987.

Við höfðum frá upphafi mikinn metnað fyrir því að byggja upp kraftmikla starfsemi og fylgdumst grannt með öllum nýjungum sem voru stöðugar. Á þeim tíma þýddi það ferðalög til Los Angeles sem var mekka líkamsræktarinnar þá. Við fórum að lágmarki þrisvar á ári í ferðir út og með í för voru ávallt þrír til fjórir starfsmenn. Við héldum leiðbeinendanámskeið árlega með það fyrir augum að þjálfa upp fleiri leiðbeinendur fyrir þolfimina.

Starfsemin sprengdi fljótt utan af sér. Við byrjuðum í 250 fm húsnæði í Borgartúni 1986 og stækkuðum við okkur á um það bil tveggja ára fresti næstu tólf árin, í Skeifunni 7, þar til Stúdíóið sameinaðist Mætti og Hreyfing varð til árið 1998 og starfsemin flutti í Faxafen 14. Árið 2008 flutti Hreyfing í nýtt glæsilegt húsnæði í Álfheimum 74 þar sem við rekum enn Hreyfingu og Hreyfingu spa. Það voru ánægjuleg tímamót þegar við fögnuðum 25 ára afmæli Hreyfingar á árinu.“

Ágústa hefur setið í stjórn Bláa lónsins frá 2017 og Blue Lagoon Skincare frá 2023. Hún sat í stjórn Viðskiptaráðs 2018-2022 og hefur verið formaður Veiðifélags Skaftártungumanna frá 2020.

Ágústa er höfundur líkamsræktarbókarinnar Í form á 10 vikum. Hún er höfundur fimm uppskriftabóka, þar sem er að finna hollustuuppskriftir. Hún gaf út 12 æfingamyndbönd á árunum 1987-2000 og kom fram í um 300 líkamsræktarþáttum á RÚV (1987) og Stöð 2 (1995-2000). Hún hefur verið stjórnandi útvarpsþátta um heilsutengd mál, bæði á Rás 2 og LéttFM, og skrifað blogg um heilsutengd mál á mbl.is.

„Allt sem viðkemur heilsu og heilbrigðum lífsstíl hefur átt hug minn frá því að ég var um tvítugt og er ekkert lát á því, nema síður sé.

Samvera með fjölskyldunni skiptir mig miklu. Það er til dæmis fastur liður að fá allt liðið mitt í mat á sunnudögum. Í algjöru uppáhaldi er að dvelja með fjölskyldu og vinum í sveitinni okkar í Skaftártungu og reyni ég að koma því sem oftast við.

Ég nýt þess að ferðast og skoða heiminn og langar helst að sjá nýja staði á hverju ári og við hjónin njótum þess einnig mjög að stunda skíði með vinum og fjölskyldu.

Stórt áhugamál hefur alla tíð verið að elda góðan mat og prófa okkur áfram með spennandi uppskriftir. Eftir að barnabörnin komu í heiminn hef ég rifjað upp gamla takta í prjónaskap sem er mitt jóga. Svo hlusta ég talsvert á góðar hljóðbækur sem fer oft vel saman við daglegar gönguferðir með heimilishundinn Mána.

Ekki er það verra að starf mitt sem framkvæmdastjóri Hreyfingar er klárlega eitt af mínum áhugamálum. Það er eitt af mínum gæfusporum í lífinu að hafa gert mér starfsferil um mitt áhugamál, enda alltaf gaman í vinnunni og afskaplega gefandi umhverfi að starfa í.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ágústu er Guðlaugur Þór Þórðarson, f. 19.12. 1967, ráðherra umhverfis, orku og loftslagsmála. Þau eru búsett í Foldahverfi í Reykjavík. Foreldrar Guðlaugs voru hjónin Sonja Guðlaugsdóttir, f. 12.6. 1936, d. 17.5. 2018, og Þórður Sigurðsson, f. 16.10. 1936. d. 4.10. 2020.

Börn Ágústu með fyrri maka, Hrafni Friðbjörnssyni, f. 8.2. 1965, d. 28.6. 2009, sálfræðingi eru 1) Anna Ýr, f. 19.10. 1991, lögfræðingur. Maki: Páll Magnús Pálsson, f. 12.12. 1995, lögfræðingur. Dóttir þeirra er Hildur Ellen, f. 21.4. 2021. Þau eru búsett í Garðabæ; 2) Rafn Franklín, f. 17.9. 1994, heilsuráðgjafi. Maki: Karen Ósk Gylfadóttir, f. 8.3. 1988, viðskiptafræðingur. Börn þeirra eru Emilía Marín, f. 5.11. 2017, og Andri Franklín, f. 19.9. 2020. Þau eru búsett í Mosfellsbæ. Börn Ágústu og Guðlaugs eru 3) Sonja Dís, f. 25.1. 2002, nemi, búsett í Reykjavík, og 4) Þórður Ársæll, f. 25.1. 2002, nemi, búsettur í Reykjavík.

Systkini Ágústu eru 1) María B. Johnson, f. 28.12. 1965, markaðsstjóri, búsett í Reykjavík; 2) Hjördís Ýr Johnson, f. 18.12. 1969, bæjarfulltrúi, búsett í Kópavogi, og 3) Arnaldur Gauti Johnson, f. 14.10. 1975, framkvæmdastjóri, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Ágústu eru hjónin Hildigunnur Johnson, f. 12.2. 1942, innanhússráðgjafi, og Rafn F. Johnson, f. 4.1. 1938, skógarbóndi og fyrrverandi forstjóri. Þau eru búsett í Skaftártungu.