Kapp Kristrún Frostadóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir tókust á í líflegum umræðum.
Kapp Kristrún Frostadóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir tókust á í líflegum umræðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsti þáttur Spursmála, nýs umræðuþáttar á mbl.is, fór í loftið klukkan tvö í gærdag. Fyrstu gestir þáttarins voru þau Ragnhildur Sverrisdóttir, fyrrverandi fréttastjóri á Morgunblaðinu, og Snorri Másson frá Ritstjóra

Fyrsti þáttur Spursmála, nýs umræðuþáttar á mbl.is, fór í loftið klukkan tvö í gærdag. Fyrstu gestir þáttarins voru þau Ragnhildur Sverrisdóttir, fyrrverandi fréttastjóri á Morgunblaðinu, og Snorri Másson frá Ritstjóra. Þau fóru ásamt Stefáni Einari Stefánssyni þáttarstjórnanda yfir fréttir vikunnar og kenndi þar ýmissa grasa sem vonlegt var.

Á eftir þeim komu í settið þær Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar og tókust þær á um stóru málin í pólitíkinni. Sló í brýnu milli þeirra, ekki síst þegar rætt var um útfærslu millifærslukerfa ríkisins en þar telur Kristrún að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi veikt stöðu tekjulítilla einstaklinga og barnafjölskyldna. Þórdís Kolbrún segir þvert á móti að verulega hafi verið bætt í alla málaflokka á síðustu árum en að tilteknar kerfisbreytingar séu nú að koma fram, m.a. á vaxtabótakerfinu sem minnki að vægi vegna stofnframlaga til húsbygginga fyrir ungt fólk.

Gefur góð fyrirheit

Hallur Már Hallsson stýrir framleiðslunni á Spursmálum og segir hann mjög ánægjulegt að sjá hverjar viðtökurnar voru við fyrsta þætti. Mikill fjöldi fólks hafi fylgst með þættinum í beinu streymi á mbl.is og eins hafi mikil traffík myndast þegar þátturinn var gerður aðgengilegur á vefnum og helstu streymisveitum þegar leið á daginn.

Hvasst en sanngjarnt

„Þetta gefur okkur ástæðu til að ætla að þátturinn verði fljótur að festa sig í sessi sem mikilvægur vettvangur í þjóðfélagsumræðunni. Takist það er markmiði okkar náð.“ Stefán Einar tekur í sama streng og segir gaman hvernig fyrsti þáttur hafi komið út. „Umræðan var hvöss en sanngjörn og viðmælendur gripu boltann óhikað þar sem tækifæri gafst. Svona viljum við fá umræðuna fram í dagsljósið enda mun þetta bæði glæða og viðhalda áhuga fólks á þjóðfélagsmálum sem skipta okkur öll máli.“

Nú þegar er undirbúningur hafinn að næsta þætti sem fer í loftið á sama tíma að viku liðinni. Stefán Einar segir ekki liggja endanlega fyrir hverjir gestir þáttarins verða þá enda hafi framvinda mála áhrif á val viðmælenda.

„Hlutirnir eru fljótir að breytast, ekki síst í pólitíkinni. Við fylgjumst vel með framvindu frétta um helgina og eftir því sem líður inn á nýja viku. Þar sjáum við tækifærin birtast jafnt og þétt.“