Fyrir tíu árum var kynnt til sögunnar nýjung sem átti að tryggja „einfalda og örugga leið til auðkenningar inn á vefi“. Innanríkisráðuneytið var á bak við nýjungina og sagði í tilkynningu frá því að líta mætti á hana sem „eins konar nafnskírteini á netinu“. Nýjungin kallaðist Íslykill og sagði í tilkynningunni að með honum væri „nú sköpuð umgjörð sem [byði] upp á mikla möguleika í rafrænni stjórnsýslu og rafrænu lýðræði í framtíðinni“.
Frétt Morgunblaðsins um þessa nýjung er dagsett 13. apríl 2013, en dagsetningin hefði kannski átt að vera 1. apríl. Möguleikar Íslykilsins í framtíðinni eru nefnilega uppurnir – nema framtíðinni sé hreinlega lokið. Um áramótin verður hætt að nota Íslykilinn og á fólk í staðinn að nota rafræn skilríki.
Nú þegar nota margir rafræn skilríki, en þó ekki allir. Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri hjá Öryrkjabandalagi Íslands, segir í frétt í Morgunblaðinu í gær að hann hafi áhyggjur af þessu vegna þess að rafrænu skilríkin séu þannig hönnuð að þau séu útilokandi fyrir mjög marga, meðal annars ýmsa hópa fatlaðs fólks. Tekur hann fram að Íslykillinn hafi reynst mörgum vel til auðkenningar og hann kannist ekki við að honum hafi fylgt vandamál.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir í blaðinu í gær að forgangsmál stjórnvalda sé að tryggja jafnt aðgengi einstaklinga að rafrænni þjónustu.
Það er auðvitað rétt. Það gengur ekki að taka upp auðkenni nema það styðjist við tækni, sem er öllum aðgengileg. Ef hætta er á að einhverjir lendi utangarðs þarf að staldra við, ekki síst ef það á við um hóp, sem fyrir er í veikri stöðu.