Halla Kristín Guðmundsdóttir Linker Aguirre fæddist 10. maí 1930 í Hafnarfirði. Hún lést 16. ágúst 2023 í Los Angeles. Hún giftist Hal Linker sem lést árið 1979. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Francisco Aguirre.

Halla og Hal eignuðust einn son, Davíð Þór Linker, hann á þau Matthew Stefán Linker og Alexöndru Kristínu Linker.

Útför Höllu fór fram 15. september 2023.

Amma mín var ótrúleg ævintýrakona. Lífshlaup hennar var allt annað en venjulegt þar sem hún kynntist afa mínum þegar hún var tvítug og giftist honum með því loforði að þau myndu skoða heiminn saman – og þau stóðu við það. Þetta var sérstaklega óvenjulegt fyrir unga konu úr Hafnarfirði árið 1950. Og vissulega var það ekki alltaf einfalt. Innan við ári eftir að hafa flutt til annars lands fæddist pabbi minn. Auk þess að huga að öryggi sjálfrar sín þurfti hún að sjá um pabba í ættbálkaþjóðfélaginu í Pakistan, hinni byltingarhrjáðu Kúbu og Ísrael þar sem var mjög takmarkað framboð á nauðsynjavörum eins og mjólk. Fyrstu árin var fjárhagurinn mjög þröngur og ekkert rúm fyrir annað en nauðsynjar. Þau þurftu því að vera hugvitssöm.

Á seinni hluta sjötta áratugarins varð allt einfaldara þegar fyrirlestrar þeirra breyttust í heimildasjónvarpsþætti þar sem amma var aðalsögukonan. Mér fannst gaman að horfa á gamla þætti og spyrja hana um mismunandi áfangastaði. Enn skoða ég stundum klippur úr þáttunum til að heyra rödd hennar. Heimildaþættir þeirra um ferðalögin voru sýndir í sjónvarpi í Bandaríkjunum áratugum saman og amma heimsótti vel yfir hundrað lönd áður en afi andaðist óvænt árið 1979.

Íslenskar rætur ömmu voru djúpar og áhrifa þeirra gætir enn í hefðum fjölskyldunnar. Ein af fyrstu jólaminningum mínum er ilmurinn af hangikjöti, sem henni tókst ávallt að hafa á borðum þrátt fyrir stapp við tollinn til að fá að flytja inn íslenskt lambakjöt. Hún átti báðar tegundir hins íslenska þjóðbúnings og var alla tíð bundin Íslandi sterkum böndum. Árið 1970 hlaut hún fálkaorðuna fyrir framlag sitt til alþjóðlegrar viðurkenningar íslenskrar menningar. Hún leiddi einnig fjáröflunarherferð til að aðstoða þá sem urðu fyrir barðinu á Eldfellsgosinu og starfaði sem heiðursræðismaður Íslands í Los Angeles í áratugi.

Þegar ég hugsa um samband okkar ömmu skín óbilandi umhyggja hennar í gegn. Óháð stað og stund fannst ömmu alltaf gaman að fá símtal eða heimsókn. Stuttu eftir að ég fæddist giftist hún eina afanum sem ég hef þekkt, sem við köllum Abu. Heimili ömmu og Abu er fullt af gleði og hlýju og á veggjum óteljandi myndir af dýrmætum augnablikum úr lífi okkar systur minnar. Sem börn lékum við okkur þar og seinna varð þetta dýrmætur samkomustaður.

Önnur sterk minning sem ég á um ömmu eru gjafirnar frá henni á afmælum og jólum. Í stað þess að velja leikföng færði hún okkur venjulega forvitnilega minjagripi frá ferðalögum sínum, oft ásamt miða sem útskýrði hvar og hvers vegna hún eignaðist þá. Sérhver gjöf, hvort sem það var sagnfræðibók, efnisbútur eða bókamerki, fól í sér grípandi frásögn. Hún valdi gjafirnar af nákvæmni og vildi kveikja forvitni okkar um heiminn í kringum okkur.

Augljóslega tókst þessi nálgun vel þar sem ég er orðinn ákafur ferðamaður. Ég sendi ömmu sms-skilaboð og myndir og hún lýsti alltaf ánægju þegar ég deildi myndum frá nýjustu ævintýrum mínum, hvort sem það var heimsókn í fæðingarbæ hennar Hafnarfjörð; fjársjóðir borgarinnar Petru í Jórdaníu eða myndir frá hitabeltiseyjum. Alltaf átti hún sögur frá þessum stöðum, sem veitti mér innsýn í ótrúlega reynslu hennar og ævintýri á langri og fjölbreyttri ævi.

Amma var stolt af því að sjá mig feta í sín fótspor. Ég er stoltur af að geta kallað hana ömmu mína og vona að ég nái að lifa eins og hún gerði.

Grein á ensku á:

www.mbl.is/andlat

Matthew Stefán Linker.