Armbandsúrið vakti ugg Suleymenov við upphaf skákarinnar við Magnús Carlsen.
Armbandsúrið vakti ugg Suleymenov við upphaf skákarinnar við Magnús Carlsen. — Ljósmynd/Heimasíða Opna Katar-mótsins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska kvennaliðið hafnaði í 26. sæti af 32 þátttökuþjóðum á EM landsliða í Svartfjallalandi á dögunum. Í borðaröð var liðið skipað Olgu Prudnykovu, Lenku Ptacnikovu, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur, Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur og Lisseth Acevedo Mendez

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Íslenska kvennaliðið hafnaði í 26. sæti af 32 þátttökuþjóðum á EM landsliða í Svartfjallalandi á dögunum. Í borðaröð var liðið skipað Olgu Prudnykovu, Lenku Ptacnikovu, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur, Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur og Lisseth Acevedo Mendez. Frammistaða liðsins, sem hlaut 7 stig af 18 mögulegum, hefði mátt vera betri en undir lok mótsins fór gengi þess batnandi. Það gerðist þó að Lenka Ptacnikova hefði slasast á leið frá skákstað en stóð sig samt vel eftir það. Liðsstjóri var Ingvar Þ. Jóhannesson.

Af frammistöðu kvennaliðsins má draga ýmsar ályktanir, m.a. þá að æskilegt sé að fyrir næsta ólympíumót komi liðsmenn sér í góða æfingu með þátttöku í sterkum mótum í aðdraganda þess.

Nakamura sakaður um svindl

Það er kunnara en frá þurfi að segja að tortryggni er mikil á skákmótum nú til dags. Nú logar allt í deilum eftir færslu Vladimirs Kramniks um „glæsilega“ frammistöðu Hikaru Nakamura sem hlaut nýlega 45½ vinning af 46 mögulegum á Title Tuesday-mótunum á Chess.com og gaf sterklega í skyn að þarna hefði vinurinn svindlað. Jan Nepomniachchi tók í sama streng á X-inu stuttu síðar.

Á EM í Svartfjallalandi á dögunum þurftu keppendur að afhenda farsíma, armbandsúr, kaskeiti og sitthvað fleira til að komast inn í keppnissalinn. Þetta með armbandsúrin er ekki ný krafa. Á opna mótinu í Katar á dögunum fór Magnús „niður í logum“ í skák sinni við liðlega tvítugan skákmann frá Kasakstan sem var stigalægri svo nam meira en 300 elo. Hann hrósaði samt andstæðingi sínum en kvaðst hafa misst einbeitnina þegar hann tók eftir armbandsúri Kasakans og bætti því við að allt eftirlit hefði verið í skötulíki í Katar; áhorfendur á gangi innan um keppendur með farsíma o.s.frv. Þetta er auðvitað vandamál og kannski ástæða þess að Norðmaðurinn hefur verið að draga sig út úr mótum með hefðbundnum umhugsunartíma; hann er t.d. ekki með á stórmótinu í St. Louis sem nú stendur yfir né mun hann tefla í Wijk aan Zee í byrjun næsta árs. En lítum á þessa frægu tapskák:

Opna mótið í Katar 2023; 2. umferð:

Alisher Suleymenov – Magnús Carlsen

Drottningarindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 b6 4. a3 Ba6 5. Dc2 Bb7 6. Rc3 c5 7. e4 cxd4 8. Rxd4 Bc5 9. Rf3 Rc6?!

Eilítil ónákvæmni. Betra var 9. … Rg4 strax.

10. b4 Be7 11. Bb2 Db8 12. Hd1 O-O 13. Be2 d6 14. O-O Hc8 15. Hfe1 Bf8 16. Bf1 Re7?

Stóri afleikurinn. Hann gat leikið 17. … Re5 með u.þ.b. jöfnu tafli.

17. Rb5! Re8

18. Rg5!

- Sjá stöðumynd-

Einhver spurði hvort það væri á færi þessa skákmanns að finna slíkan leik. Spurningin er auðvitað vitlaus því að þetta er einn af augljósum valkostum hvíts. „Vélarnar“ segja okkur að staða svarts sé þegar töpuð!

18. … Rg6 19. e5!

Með hugmyndinni 19. … dxe5 20. Bxe5! og vinnur.

19. … d5 20. Db3 Be7

21. Rxf7! Kxf7

Eða 21. … dxc4 22. Dh3! Kxf7 23. Rd6+! og vinnur.

22. cxd5 Bxd5 23. Hxd5! exd5 24. Dxd5+ Kf8 25. Rd4 Rf4

Engu skárra var 25. … Rc7 26. Df3+ Kg8 27. Rc6 og drottningin fellur.

26. Df3 Kg8 27. Dxf4 Db7 28. Rf5 b5 29. Bxb5 Bf8 30. Bc4 Kh8 31. Rh6!

Laglegur lokahnykkur. Magnús gafst upp. Hann gat reynt 31. … Rc7 en þá kemur kæfingarmátið, 32. Df7 Bxb4 33. Dg8+! Hxg8 34. Rf7 mát.