Hátíð barnanna Allt of fáa pakka er að finna undir jólatrénu að svo stöddu.
Hátíð barnanna Allt of fáa pakka er að finna undir jólatrénu að svo stöddu. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Hún fer alveg hræðilega af stað. Við vorum að ræða það síðast í morgun [í gærmorgun] hvað við gætum gert til að ýta þessu betur af stað. Nú er söfnunin búin að vera í viku og þetta eru í rauninni bara örfáar gjafir – en samt gjafir, við erum þakklát fyrir allt sem kemur,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, spurð að því hvernig pakkasöfnun Kringlunnar fari af stað í ár en við jólatréð í Kringlunni er tekið við pökkum til barna á Íslandi sem búa við erfiðar aðstæður.

Á sama tíma og pakkasöfnunin er mun dræmari en undanfarin ár hefur beiðnum fjölskyldna um aðstoð fyrir jólin fjölgað mikið, en söfnunin stendur að sögn Baldvinu fram að Þorláksmessu.

Þurftu að fresta um sinn gjafakaupum jólaálfanna

Segir Baldvina að á tímum samkomutakmarkana hafi þau fundið mjög góða leið þegar fólk gat ekki komið í Kringluna til að setja pakka undir tréð en vildi samt sem áður styrkja málefnið og gefa af sér.

„Þá bjuggum við til svona lausn á vefnum þar sem hægt er að fara inn og styrkja söfnunina og upphæðin skiptir ekki máli, 500 krónur eru bara æðislegar. Síðan erum við með jólaálfa á okkar snærum, sem eru börn á aldrinum 7-14 ára, en þau fara og kaupa gjafir fyrir það sem safnast á vefnum og setja undir tréð,“ segir hún og bætir við að stefnt hafi verið að því að jólaálfarnir færu á stjá núna um helgina en því miður hafi þurft að breyta þeim plönum. „Við ætluðum að hafa börnin um helgina og nota þá upphæð sem hefur safnast hingað til en við erum búin að fresta því þangað til í næstu viku því það er líka mjög lítið að koma þar í gegn, þannig að það er eitthvað mjög sérstakt í gangi.“

Hefur áhyggjur af stöðunni

Innt eftir því hvort hún óttist að verðbólgan og háir stýrivextir í landinu spili mögulega inn í ástandið telur Baldvina svo vera.

„Já, ég er alveg sannfærð um að það hefur mikið að segja.“

Þá segist hún finna mikinn mun á milli ára. „Yfirleitt þegar við kveikjum á jólatrénu þá er skemmtileg hefð sem skapast því börnin eru að koma með foreldrunum á þessa athöfn og eru að kaupa gjöf, pakka henni inn og setja undir tréð en það var ótrúlega lítið um það núna og eins í þessari viku. Þetta er bara mikið áhyggjuefni verð ég að segja.“

Margt smátt gerir eitt stórt

Kringlan sér svo um að senda pakkana til Mæðrastyrksnefndar, Fjölskylduhjálpar Íslands og Hjálparstofnunar kirkjunnar sem sjá svo um að deila þeim til fjölskyldna sem leita til þeirra. Baldvina hvetur því alla sem tök hafa á að leggja málefninu lið þó ekki sé nema að gefa 500 krónur á netinu. „Allt safnast þetta saman og margt smátt gerir eitt stórt.“

Spurð hvort pakkarnir fái að standa óáreittir undir trénu segir Baldvina að þau hafi alla vega ekki orðið vör við neitt annað. „Fólk ber virðingu fyrir þessari söfnun og veit út á hvað hún gengur, þannig að það er ekki málið.“ Fyrir þá sem vilja, og hafa kannski ekki tök á að setja pakka undir tréð í Kringlunni, er hægt að styrkja söfnunina líkt og fyrr segir á netinu með framlagi á kringlan.is. Þar velur þú þá upphæð sem þú vilt gefa fyrir og jólaálfar Kringlunnar sjá um að kaupa fyrir þig gjöf, pakka henni inn og leggja hana við tréð. „Í samtakamætti getur lítil upphæð skipt heilmiklu máli,“ segir Baldvina að lokum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir