Fjölskyldufyrirtæki Hjördís Viðarsdóttir, Katrín Stefánsdóttir og Björg Máney Byron Magnúsdóttir.
Fjölskyldufyrirtæki Hjördís Viðarsdóttir, Katrín Stefánsdóttir og Björg Máney Byron Magnúsdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úra- og skartgripaverslunin Klukkan tók stórt skref á dögunum þegar hún opnaði sjötíu og fimm fermetra verslun í Kringlunni. Síðastliðin fimmtíu ár hefur búðin eingöngu verið í Kópavogi. Nýja verslunin er beint gegnt Bónus, New Yorker og BOSS-búðinni

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Úra- og skartgripaverslunin Klukkan tók stórt skref á dögunum þegar hún opnaði sjötíu og fimm fermetra verslun í Kringlunni. Síðastliðin fimmtíu ár hefur búðin eingöngu verið í Kópavogi.

Nýja verslunin er beint gegnt Bónus, New Yorker og BOSS-búðinni. Fyrir rekur Klukkan verslun og verkstæði á Nýbýlavegi 10 í Kópavogi ásamt netversluninni klukkan.is.

Hjördís Viðarsdóttir verslunarstjóri segir í samtali við Morgunblaðið að með breytingunni megi ætla að umfang fyrirtækisins tvöfaldist.

Einkennst af smærri búðum

Hjördís segir að úrabransinn hafi lengi einkennst af smærri búðum eins og þeim sem foreldrar hennar Viðar Hauksson úrsmiður og Katrín Stefánsdóttir ráku í Hamraborg í áratugi.

„Það hafa verið svona smærri aðilar um land allt. Það hefur í raun ekki mikið breyst í tímans rás. Við sáum gott tækifæri til að nútímavæða fjölskyldufyrirtækið og víkka út starfsemina,“ segir Hjördís.

Hún segir að endurnýjun í bransanum hafi verið mjög hæg.

„Ég kom inn í fyrirtækið fyrir 8-9 árum. Eitt af mínum fyrstu verkefnum var uppbygging netverslunar í samvinnu við Stefán bróður minn. Við sáum tækifæri í að færa starfsemina meira til nútímans. Það er dálítið það sem við erum að gera með nýju versluninni í Kringlunni. Þar leggjum við áherslu á flott og nútímalegt útlit þar sem merkjavaran okkar fær notið sín.“

Sem lið í þróun fyrirtækisins og útvíkkun starfseminnar keyptu þau systkinin Hjördís og Stefán ásamt Snorra bróður sínum úra- og skartgripaheildverslunina Mari Time ehf. árið 2021.

„Með kaupum á Mari Time af Þormari Ingimarssyni, sem hafði rekið fyrirtækið við góðan orðstír í nokkra áratugi, fengum við umboð fyrir þekkt merki eins og Casio, Armani, Tommy Hilfiger, Versace og Michael Kors. Við leggjum höfuðáherslu á þessi merki í verslunum okkar ásamt því sem við seljum í aðrar verslanir um allt land.“

Netverslun gengið mjög vel

Hún segir að tískumerkin búi yfir frábærum skartgripalínum.

„Nýja verslunin í Kringlunni er góður sýningargluggi fyrir þessar vörur,“ segir Hjördís og bætir við að vægi skartgripa muni halda áfram að aukast hjá Klukkunni.

Netverslun Klukkunnar hefur gengið mjög vel að sögn Hjördísar.

„Klukkan.is varð fljótlega mjög vinsæl. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að þetta sé í dag stærsta netverslun sinnar tegundar á landinu.“

Um viðtökur við nýju versluninni í Kringlunni segir Hjördís að þær hafi verið einstaklega góðar.

„Gestir Kringlunnar hafa tekið nýjum og ferskum tískuskartgripum opnum örmum. Við opnuðum rétt fyrir þessa stóru verslunardaga, dag einhleypra, svartan föstudag og stafrænan mánudag og var verslunin þétt setin alla þessa daga.“

Klukkan rekur áfram verslun á Nýbýlavegi í Kópavogi.

„Nýja verslunin í Kringlunni hefur í raun bara haft jákvæð áhrif á verslunina okkar á Nýbýlavegi og netverslunina en það kom fjölskyldunni ekki á óvart. Við vissum að stækkun á rekstrinum var löngu orðin tímabær og við erum öll himinlifandi með stöðuna,“ segir Hjördís.

Þónokkrar breytingar

Almennt um breytingar á úramarkaði segir Hjördís að þær hafi orðið þónokkrar á liðnum árum, ekki síst með tilkomu snjallúra. Hefðbundin armbandsúr eru þó í töluverðri sókn á heimsvísu og sífellt algengara er að sögn Hjördísar að fólk eigi fleiri en eitt úr. Þau eru þá oft hugsuð sem skart fyrir ólík tilefni.

Klukkan

Var opnuð árið 1979 í 15 fm verslunarplássi í Hamraborg 1.

Gísli Bryngeirsson úrsmiður var fyrsti eigandi fyrirtækisins en hjónin Viðar Hauksson og Katrín Stefánsdóttir keyptu það árið 1979.

Verslunin flutti í stærra húsnæði í Hamraborg 1 árið 1986.

Fyrirtækið keypti verslunarhúsnæði og flutti reksturinn í Hamraborg 10 árið 1993.

Verslunin flutti á Nýbýlaveg 10 í október 2022.

Klukku-fjölskyldan býr öll Kópavogsmegin í Fossvogsdalnum, steinsnar frá versluninni á Nýbýlavegi.

Viðar Hauksson nam úrsmíði við danska úrsmiðaskólann Den Danske Urmagerskole í Ringsted þar sem hann útskrifaðist árið 1974. Viðar öðlaðist meistararéttindi árið 1979.

Höf.: Þóroddur Bjarnason