„Fótbolti og íþróttir yfirhöfuð snúast að mörgu leyti um andlega þáttinn og það var bæði stress og ákveðið óöryggi í mannskapnum til að byrja með. Við vorum hálfrög einhvern veginn og það vantaði kraft í það sem við vorum að gera

„Fótbolti og íþróttir yfirhöfuð snúast að mörgu leyti um andlega þáttinn og það var bæði stress og ákveðið óöryggi í mannskapnum til að byrja með. Við vorum hálfrög einhvern veginn og það vantaði kraft í það sem við vorum að gera. Við lentum í smá basli en svo unnum við okkur ágætlega út úr því,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari í viðtali við RÚV eftir sigurinn gegn Wales í gærkvöld.

„Var það Hildur sem skoraði? Ég sá ekki einu sinni hver skoraði en ég var mjög glaður þegar markið kom. Þegar okkur leið vel með boltann þá gerðust hlutirnir hjá okkur og við þorðum að halda honum.

Fótbolti snýst um það að líða vel með boltann og hafa trú á því sem þú ert að gera,“ sagði Þorsteinn í samtali við RÚV.

„Þetta var kannski ekkert mjög fallegt í dag,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins við RÚV.

„Við áttum mörg augnablik þar sem við hefðum getað gert mun betur með boltann en við náðum að spila betur inn í svæðin sem við ætluðum að spila okkur inn í, í seinni hálfleik.

Við gerðum í rauninni engar áherslubreytingar í hálfleik. Þetta snerist fyrst og fremst um að þora að spila boltanum. Taktískt séð þá breyttum við í raun engu.

Heilt yfir þá er ég fyrst og fremst sátt með sigurinn og að ná að tryggja okkur inn í þetta umspil um áframhaldandi veru í A-deildinni,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.