Gatnamótin Myndin er tekin síðdegis á sunnudaginn. Á virkum dögum er oft röð flutningabíla sem bíða við ljósin.
Gatnamótin Myndin er tekin síðdegis á sunnudaginn. Á virkum dögum er oft röð flutningabíla sem bíða við ljósin. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarfulltrúar meirihlutans hafa fellt tillögu sjálfstæðismanna þess efnis að vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs verði fjölgað í tvær á nýjan leik. Eins og margoft hefur komið fram hér í blaðinu hafa að undanförnu staðið yfir framkvæmdir á gatnamótunum í nafni umferðaröryggis. Forráðamenn fyrirtækja á svæðinu voru mjög andvígir þessum framkvæmdum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarfulltrúar meirihlutans hafa fellt tillögu sjálfstæðismanna þess efnis að vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs verði fjölgað í tvær á nýjan leik. Eins og margoft hefur komið fram hér í blaðinu hafa að undanförnu staðið yfir framkvæmdir á gatnamótunum í nafni umferðaröryggis. Forráðamenn fyrirtækja á svæðinu voru mjög andvígir þessum framkvæmdum.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 18. október sl. var lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins: „Lagt er til að vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs verði fjölgað í tvær á nýjan leik. Jafnframt verði öryggi gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut aukið, t.d. með hnappastýrðu og/eða snjallstýrðu gangbrautarljósi. Slæmt ástand ríkir nú á gatnamótunum þar sem þau anna engan veginn mikilli umferð frá atvinnuhverfinu sunnan Sæbrautar né ört vaxandi íbúabyggð þar.“

Tillagan var síðan tekin til afgreiðslu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. nóvember. Var hún felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri-grænna sat hjá við afgreiðslu málsins. Nei sögðu Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Já sögðu Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon. Líf Magneudóttir sat hjá.

Verja gangandi vegfarendur

Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Tillagan er felld með vísan í meðfylgjandi umsögn. Þessi útfærsla var hönnuð með það í huga að auka umferðaröryggi allra vegfarenda, ekki síst óvarðra vegfarenda. Þeim vegfarendum hefur fjölgað til muna með tilkomu Vogabyggðar og ljóst að þeim mun halda áfram að fjölga á næstu árum. Meðal þeirra eru mörg börn á leið sinni í skóla og frístundir. Gatnamótin hafa síðustu ár verið á lista Samgöngustofu yfir þau gatnamót þar sem flest meiðslaslys verða og voru þau þar í fimmta til sjöunda sæti. Það er skilningur fyrir neikvæðum áhrifum á aðila sem standa að atvinnustarfsemi á svæðinu en það er óverjandi að bregðast ekki við þeim slysum sem þarna hafa orðið. Ljóst er að börnum og unglingum á svæðinu mun fjölga talsvert vegna mikillar íbúðauppbyggingar.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu að ófremdarástand ríkti á gatnamótunum. Ljóst væri að mistök hefðu verið gerð þegar ákveðið var að þrengja gatnamótin og fækka vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs. „Brýnt er að þessi mistök verði leiðrétt sem fyrst og umræddum vinstribeygjuakreinum fjölgað á ný.“

Fyrir fundinn var lögð umsögn samgöngustjóra borgarinnar. Þar kemur fram að gatnamótin séu afar erfið gangandi og hjólandi og grípa hafi þurft til aðgerða. Breytingarnar hafi verið gerðar í kjölfar skoðunar á því hvaða kostir væru í stöðunni til að auka umferðaröryggi fyrir allan ferðamáta. Ekki hafi þótt ástæða til að fara í umfangsmiklar og dýrar aðgerðir, þar sem unnið sé að undirbúningi Sæbrautarstokks sem muni hafa áhrif á gatnamótin innan fárra ára.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson