„Akkúrat núna er ég bara búin á því. Ég hefði svo innilega viljað stela þessu. Mér finnst við betra lið en þær og ég er ótrúlega svekkt yfir að hafa ekki náð þessu. Á þessari stundu er svekkelsið sterkast

„Akkúrat núna er ég bara búin á því. Ég hefði svo innilega viljað stela þessu. Mér finnst við betra lið en þær og ég er ótrúlega svekkt yfir að hafa ekki náð þessu. Á þessari stundu er svekkelsið sterkast.

Það er rosalega mikið af tilfinningum í gangi og þetta er mikill rússíbani. Mig langaði rosalega til Þrándheims,“ sagði hægri hornakonan Þórey Rósa Stefánsdóttir í samtali við Morgunblaðið eftir jafnteflið gegn Angóla.

„Í fyrsta lagi er þetta mjög svekkjandi. Við vorum einu marki frá því að komast í milliriðil. Á sama tíma er ég mjög glöð yfir að hafa fengið að spila í dag.

Þetta var fyrsti leikurinn minn á heimsmeistaramóti, sem er gaman. Sterkari tilfinningin er samt svekkelsi,“ sagði línukonan Elísa Elíasdóttir.

„Maður er sár, svekktur og leiður yfir þessu öllu saman. Þetta endar í jafntefli en við hefðum viljað vinna þennan leik. Það er ömurlegt að hugsa til þess að þær fara áfram á markatölu.

Við hefðum alveg getað klárað þetta, því þetta gat dottið báðum megin. Svo voru nokkrir dómar sem við hefðum viljað fá en fengum ekki. Ég ætla samt ekki að kenna dómurunum um neitt. Við hefðum átt að klára þetta sjálfar,“ sagði hægri skyttan Díana Dögg Magnúsdóttir.

Nánar er rætt við þær á HM-vefnum á mbl.is/sport.