Tómt Margir hafa gripið í tómt þegar sækja hefur átt bréfpoka undanfarið.
Tómt Margir hafa gripið í tómt þegar sækja hefur átt bréfpoka undanfarið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skortur hefur verið á bréfpokum sem ætlaðir eru til flokkunar á lífrænum úrgangi að undanförnu. Margir íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa gripið í tómt í matvöruverslunum þar sem pokarnir liggja jafnan frammi og hefur mátt greina óánægju í fjölda færslna á samfélagsmiðlum síðustu daga

Skortur hefur verið á bréfpokum sem ætlaðir eru til flokkunar á lífrænum úrgangi að undanförnu. Margir íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa gripið í tómt í matvöruverslunum þar sem pokarnir liggja jafnan frammi og hefur mátt greina óánægju í fjölda færslna á samfélagsmiðlum síðustu daga. Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu, segir að búið sé að koma birgðastöðunni í samt lag og heilu gámarnir af bréfpokum hafi farið til stærstu verslanakeðjanna fyrir síðustu helgi.

Erfitt er að fullyrða um ástæður þessa tímabundna skorts á bréfpokum en sögur hafa heyrst af því að margir hafi hreinlega hamstrað þá enda hefur verið staðhæft að til standi að hefja gjaldtöku fyrir þá innan tíðar. Gunnar Dofri segir þær fregnir ekki á rökum reistar. Vissulega borgi fólk alltaf fyrir þjónustu sem þessa með einum eða öðrum hætti en ekki sé á dagskrá að rukka sérstaklega fyrir pokana. „Við gerum ekki ráð fyrir öðru en að þetta verði í boði í einhver ár í viðbót,“ segir Gunnar Dofri en fram hefur komið í fjölmiðlum að kostnaður við eitt búnt af pokum, eða 80 stykki, sé 768 krónur án virðisaukaskatts.

Hann segir enn fremur að nýja flokkunarkerfinu hafi verið vel tekið. Sérstaklega ánægjulegt hafi verið að sjá áhuga fólks á lífræna hlutanum. „Samstarfið við almenning hefur gengið ótrúlega vel. Óvísindalegar niðurstöður benda til þess að þrjú af hverjum fjórum kílóum af mat sem er hent fari í réttan farveg. Ég vonaðist sjálfur eftir að helmingur myndi skila sér nú í upphafi en við höfum náð áætlun næsta árs strax á fyrsta ári.“

Þá segir hann að óvísindalegar prófanir á hreinleika þess sem skilar sér í lífrænu tunnurnar sé á bilinu 97-98% en slíkar tölur þekkist ekki annars staðar. „Almenningur á þakkir skildar fyrir að taka svona vel í þetta,“ segir hann og bendir á að strax næsta vor muni fólki bjóðast molta sem framleidd verður úr úrgangi frá heimilum. „Við erum líka að tala við sveitarfélög um að nýta moltuna til að rækta upp svæði sem eru í nýtingu sem og við uppbyggingu á nýjum hverfum.“