Nói Snær Sigríðarson fæddist 31. október 2008. Hann lést 14. nóvember 2023. Útför fór fram 29. nóvember 2023.

Þann 29. nóvember síðastliðinn var minn einkasonur jarðaður. Síðan hann lést hef ég varla náð að vera með báða fætur á jörðinni. Hvernig kveður móðir barnið sitt? Það eru engin orð sem geta lýst slíkum sársauka og tómleika. Að hafa fengið að elska hann og vera elskuð af honum er ég svo þakklát fyrir, ég er þakklát fyrir hann Nóa minn, þetta var virkilega fallegur dagur til að kveðja hann, fá að sjá alla sem elskuðu hann og hann elskaði og veðrið yndislegt. Ég trúi því að hann sé umvafinn kærleika Guðs og ég muni hitta hann aftur þegar minn tími kemur. Þangað til, Nói minn, mundu, að mamma elskar þig alltaf.

Sigríður Apríl Vattarnes Hallgrímsdóttir.

Það er ekki hægt að lýsa þeim tilfinningum sem fréttirnar af andláti Nóa Snæs vöktu hjá okkur. Það er með öllu óskiljanlegt að ungur drengur sé tekinn svona skyndilega frá okkur og um leið er fjölskylda hans skilin eftir með ólýsanlega sorg og sáran missi. Við fjölskyldan höfum fylgst með Nóa Snæ frá því hann fæddist. Hann var svo glaður og ljúfur sem ungbarn. Hress og kátur krakki, stútfullur af orku og gleði. Eftir því sem hann varð eldri sáum við minna af Nóa Snæ en hann kom alltaf fyrir sem ljúfur, blíður og kurteis strákur. Við sáum það svo vel hvað Nói Snær færði móður sinni mikla gleði enda ljósið í lífi hennar. Hún talaði alltaf um hann með miklu stolti þegar við spurðum frétta af honum.

Elsku Sigga, Stína og fjölskylda, guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Sofðu, sofðu, litla barnið blíða,

bjartir englar vaki þér við hlið.

Móðurhöndin milda, milda, þýða,

mjúkt þér vaggar inn í himinfrið.

Vaki, vaki auga guðs og gæti

góða, veika, litla barnsins þá.

Sofðu, sofðu! Sorgin græti,

sonur ljúfi, aldrei þína brá.

(Benedikt Gröndal)

Guð geymi þig, elsku Nói Snær.

Þinn frændi,

Óttarr, Anna Lilja og fjölskylda.