COP28 Soldáninn Al Jaber lét umdeild orð falla stuttu fyrir COP28
COP28 Soldáninn Al Jaber lét umdeild orð falla stuttu fyrir COP28 — AFP/Karim Sahib
Forseti loftslagsráðstefnunnar COP28, sem haldin er í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hefur verið gagnrýndur fyrir skoðun sína á áhrifum notkunar jarðefnaeldsneytis á loftslag. Soldáninn Al Jaber, forseti ráðstefnunnar og yfirmaður…

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Forseti loftslagsráðstefnunnar COP28, sem haldin er í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hefur verið gagnrýndur fyrir skoðun sína á áhrifum notkunar jarðefnaeldsneytis á loftslag.

Soldáninn Al Jaber, forseti ráðstefnunnar og yfirmaður ríkisolíufélags furstadæmanna, sagði á netráðstefnu um umhverfismál þann 21. nóvember að engin vísindi bentu til þess að með því að draga úr notkun jarðaefnaeldsneytis tækist að takmarka frekari hlýnun andrúmsloftsins við 1,5 gráður. Jafnframt sagðist hann vera raunsæismaður og að hann bæri virðingu fyrir vísindunum.

Þessi ummæli Al Jabers fengu hörð viðbrögð eftir að myndband af netráðstefnunni fór í dreifingu. Hann fullyrti í kjölfarið að hann bæri virðingu fyrir loftslagsrannsóknum. „Við erum hingað komin vegna þess að við trúum heldur betur á og berum virðingu fyrir vísindunum,“ sagði hann á blaðamannafundi í Dúbaí í gær og bað blaðamenn um að geyma gagnrýnina þar til lok ráðstefnunnar.

Þá sagði hann enn fremur að allt það starf sem forystan á ráðstefnunni hefði unnið að tæki mið af vísindunum. Hann viðurkenndi að draga þyrfti úr losun gróðurhúsalofttegunda um 43% fyrir árið 2030 til þess að halda hlýnun jarðar í skefjum.

Forysta Sameinuðu arabísku furstadæmanna hefur verið umdeild allt frá upphafi ráðstefnunnar, en skjöl sem rötuðu í hendur fjölmiðlamanna í síðustu viku bentu til þess að ráðamenn í furstadæmunum ætluðu að nýta ráðstefnuna til þess að gera samninga um sölu á olíu.

Höf.: Geir Áslaugarson