Sviðsljós
Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Ef markmið ráðherra og stjórnvalda var það að treysta samkeppnishæfni sjávarútvegs og stuðla að aukinni sátt um atvinnugreinina þá held ég að það frumvarp sem nú er fram komið treysti hvorugt.“
Þetta segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í samtali við Morgunblaðið, en hún var spurð álits á framkomnu frumvarpi matvælaráðherra um sjávarútveg. Þar er safnað saman í einn bálk þeim lögum sem gilda um sjávarútveg og ýmsar breytingar lagðar til frá gildandi regluverki.
Öll hagsmunasamtök hafa efasemdir
„Ástæður þess eru fyrst og síðast þær að fæstar þeirra tillagna sem gerðar eru til breytinga á lagaumhverfi sjávarútvegs eru til þess fallnar að treysta samkeppnishæfni eða ná fram varanlegum útflutningsvexti, sem hlýtur að vera grundvöllur sjálfbærs hagvaxtar og lífskjarabóta til ábata fyrir alla landsmenn. Frumvarpið leggur fátt til þar og síðan liggur nú þegar fyrir að öll samtök hagsmunaaðila í sjávarútvegi, ásamt öllum stéttarfélögum félagsmanna sem starfa í greininni, hafa lýst yfir vonbrigðum með þá vinnu sem unnin var í aðdraganda þessa frumvarps. Því vænti ég þess að allir þeir aðilar hafi efasasemdir um þær tillögur sem fram eru komnar,“ segir Heiðrún Lind.
Samráð lítið sem ekkert
„Það var farið af stað með mikið og stórt verkefni og miklar yfirlýsingar gefnar um að leggja af stað í mikla vinnu, mikið samráð og samtal, í aðdraganda þess að smíða heildarfrumvarp um sjávarútveg og allir þessir aðilar eru sammála um að þar hafi ekki vel tekist til, því samráðið var lítið sem ekkert,“ segir Heiðrún Lind.
Spurð um hvaða atriði það séu í frumvarpinu sem samtökin finni helst að, segir hún að mestu efasemdirnar lúti að fjórum þáttum.
Þannig hafi verið niðurstaða vinnuhópsins sem starfaði undir formerkjunum „Auðlindin okkar“ að aflamarkskerfið væri það kerfi sem styðjast ætti við, enda hefði almennt farnast vel í því kerfi. Eigi að síður sé í frumvarpinu farin sú leið að leggja ýmsar lykkjur í því kerfi undir yfirskini einhvers konar umhverfisverndarsjónarmiða.
„Sjálfbær nýting auðlindarinnar er því ekki lengur í forgrunni, en verið að þvæla inn í frumvarpið meiri verndarsjónarmiðum sem hafa má áhyggjur af. Það er ekki útskýrt hvaða efnislegu þýðingu það hefur og hvort það hafi einhver áhrif á sjávarútveginn eins og hann er í dag,“ segir Heiðrún Lind.
Breytingar á gjaldtöku koma á óvart
Hún bendir einnig á að frumvarpið beri þess merki að lítið hafi orðið úr þeim miklu verðmætum sem stjórnvöld hafa til umráða með þeim 5,3% aflaheimilda sem tekin séu til ríkisins.
„Það hefur ekki reynst vel og lítið orðið úr verðmætasköpun eða byggðafestu í því kerfi. Þar á að búa til ný verkefni um það sem líklega eru jafn andvana fædd og þau sem fyrir voru,“ segir hún.
Í þriðja lagi nefnir Heiðrún Lind að um verulega breytingu verði að ræða á gjaldtöku skv. frumvarpinu sem komi á óvart, ekki síst þegar þau áform eru borin saman við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ekki hafi staðið þar til að gera verulegar breytingar á gjaldtökunni, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun á veiðigjaldi í uppsjávarfiski úr 33% í 45%. Einnig hafi komið á óvart sú breyting sem boðuð sé sem eðlisbreyting á tekjuskattskerfinu, að ekki megi gjaldfæra veiðigjald og draga það þannig frá tekjuskatti. Segir hún að það þýði í raun að andvirði 21% veiðigjaldsins fari til greiðslu tekjuskatts.
Í fjórða lagi nefnir Heiðrún Lind að breytingar á ýmsum viðurlögum séu lagðar til, enda hafi ekki orðið vart við að þau viðurlög sem í gildu séu hafi ekki bitið.
„Það er því verið að bæta verulega í þau viðurlög sem Fiskistofa getur beitt aðila,“ segir hún.
Útfærsla hámarksaflahlutdeildar óframkvæmanleg
Samkvæmt frumvarpinu stendur til að hækka hámark þeirrar aflahlutdeildar sem hver lögaðili getur haft til umráða úr 12% í 15%. Spurð um það segir Heiðrún Lind að hámarkshlutdeildin hafi verið gagnrýnd allt frá þeirri tíð að LÍÚ var í forsvari fyrir útgerðina, enda sé útfærslan óframkvæmanleg.
Jákvætt sé reyndar að hún sé hækkuð, en leysi ekki grundvallarvandann. Betur myndi fara á því að setja hámark í hverri tegund, ef það væri vilji til þess að takmarka stærð fyrirtækja.
„Þetta frumvarp boðar ekki lausn neins vanda,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir.