Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Fágætt eintak af frumútgáfunni af Dimmalimm seldist á 100 þúsund krónur á uppboði á vefnum myndlist.is sem lauk á sunnudag. Uppboðið var á vegum Bókarinnar og var hart bitist um Dimmalimm þær tvær vikur sem uppboðið stóð yfir. Bókin var metin á 45 þúsund krónur og seldist því á ríflega tvöföldu matsverði.
Ari Gísli Bragason bóksali sagði við Morgunblaðið á dögunum að allar útgáfur af Dimmalimm seldust nánast strax upp þegar þær kæmu inn á borð til hans. „Sagan er svo falleg og myndir Muggs einstakar,“ segir Ari Gísli. Mikill styr hefur staðið um nýja útgáfu Dimmlimmar síðustu vikur og hefur það eflaust ýtt undir áhuga á frumútgáfu bókarinnar.
Ýmsar forvitnilegar bækur voru á uppboði Bókarinnar að þessu sinni þó ekki hafi verið sami áhugi á þeim og Dimmalimm. Þannig fór t.d. Jeppabókin, ágætt eintak af fáséðri bók frá 1946, á 16 þúsund krónur og ljóðabókin Blóð og vín eftir Vilhjálm frá Skáholti fór á 20 þúsund krónur, báðar nokkuð undir matsverði. Þá fór mappa með 11 ómerktum ljósmyndum af Heklugosinu 1947 á 70 þúsund krónur. Athygli vakti líka að ljóðabókin Hvítur himinn úr glugga eftir áðurnefndan Ara Gísla frá 1995 seldist á 16 þúsund krónur, fjórföldu matsverði.