Milliriðill Leikmenn Frakklands höfðu ástæðu til að fagna í gærkvöldi. Frakkar unnu D-riðilinn og taka með sér fjögur stig í milliriðil.
Milliriðill Leikmenn Frakklands höfðu ástæðu til að fagna í gærkvöldi. Frakkar unnu D-riðilinn og taka með sér fjögur stig í milliriðil. — AFP/Beate Oma Dahle
Keppni lauk í B-, D-, F- og H-riðlum á HM 2023 í handknattleik kvenna í gær. Í D-riðli Íslands tryggði Frakkland sér sigur með því að leggja Slóveníu að velli, 31:27, í hreinum úrslitaleik um efsta sætið í Stafangri

Keppni lauk í B-, D-, F- og H-riðlum á HM 2023 í handknattleik kvenna í gær. Í D-riðli Íslands tryggði Frakkland sér sigur með því að leggja Slóveníu að velli, 31:27, í hreinum úrslitaleik um efsta sætið í Stafangri. Frakkland vann alla þrjá leiki sína í riðlinum og tekur þar með fjögur stig með sér í milliriðil. Slóvenía tekur tvö stig með sér og Angóla ekkert. Í milliriðlinum mæta liðin heimsmeisturum Noregs, Austurríki og Suður-Kóreu úr C-riðli.

Í hinum þremur riðlunum mættust tvö efstu liðin sömuleiðis í úrslitaleikjum um efsta sætið. Í B-riðli tryggði Svartfjallaland sér sigur í riðlinum með þægilegum 24:18-sigri á Ungverjalandi í Helsingborg. Í F-riðli vann Þýskaland gífurlega öruggan sigur á Póllandi, 33:17, í Herning. Holland vann þá þægilegan sigur á Tékklandi, 33:20, í Frederikshavn í H-riðli. Síðustu leikjunum í riðlakeppninni lýkur í dag þegar lokaumferð A- og E-riðla fer fram.