Viðskiptajöfnuður Búast má við 50 ma.kr. viðskiptajöfnuði á árinu.
Viðskiptajöfnuður Búast má við 50 ma.kr. viðskiptajöfnuði á árinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Við erum hætt að eyða um efni fram og gjaldeyrisflæði vegna utanríkisviðskipta ætti fremur að vera til styrkingar en hitt.“ Þetta segir Jón Bjarki Bentsson…

„Við erum hætt að eyða um efni fram og gjaldeyrisflæði vegna utanríkisviðskipta ætti fremur að vera til styrkingar en hitt.“

Þetta segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka í umræðum á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) þar sem hann vísar í greiningu Íslandsbanka á viðskiptajöfnuði.

Eins og frá var greint fyrir helgi nam viðskiptaafgangur á þriðja ársfjórðungi 62 milljörðum króna samkvæmt tölum Seðlabankans. Þetta er þrefalt meiri viðskiptaafgangur en á sama fjórðungi í fyrra og mesti afgangur frá þriðja fjórðungi ársins 2019. Fram kemur í greiningu bankans að á fyrstu þremur fjórðungum ársins var viðskiptaafgangurinn ríflega 42 milljarðar króna. Á sama tímabili í fyrra var hins vegar nærri 54 milljarða króna viðskiptahalli. Greining Íslandsbanka segir að þetta sé birtingarmynd þáttaskila í íslensku hagkerfi þar sem útflutningur hefur tekið við af neyslu og fjárfestingu sem helsti drifkraftur vaxtar. Þá sé útlit fyrir áframhaldandi afgang af utanríkisviðskiptum næstu tvö ár.

Hagsjá Landsbankans fjallar einnig um málið og útlitið fyrir árið í heild. Bent er á að góður gangur hafi verið í ferðaþjónustunni í október, þar sem ferðamenn hafi aldrei verið fleiri í októbermánuði og gistinóttum fjölgað um 14% á milli ára. Á sama tíma hafi dregið nokkuð úr utanlandsferðum Íslendinga sem voru 22% færri í október í ár en í fyrra, en frá því um mitt ár hafa utanlandsferðir Íslendinga verið færri en í fyrra – sem býr til jákvæðan greiðslukortajöfnuð. Landsbankinn vísar í fyrri spá sína um 50 milljarða króna viðskiptajöfnuð á árinu.