Svekktar Andrea Jacobsen og Sandra Erlingsdóttir ganga svekktar af velli eftir jafnteflið gegn Angóla á heimsmeistaramótinu í Stafangri í gær.
Svekktar Andrea Jacobsen og Sandra Erlingsdóttir ganga svekktar af velli eftir jafnteflið gegn Angóla á heimsmeistaramótinu í Stafangri í gær. — Ljósmynd/Jon Forberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í milliriðli í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Stafangri í Noregi í gær, en jafntefli gegn Angóla, 26:26, dugði ekki til þó liðin enduðu jöfn að stigum, þar sem Angóla er með betri markatölu eftir þrjá leiki

Í Stafangri

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í milliriðli í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Stafangri í Noregi í gær, en jafntefli gegn Angóla, 26:26, dugði ekki til þó liðin enduðu jöfn að stigum, þar sem Angóla er með betri markatölu eftir þrjá leiki.

Úrslitin þýða að Ísland fer í Forsetabikarinn og leikur um 25.-32. sæti í Frederikshavn í Danmörku.

Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem Ísland komst í 12:10 var Angóla yfir í hálfleik, 15:14, og komst síðan í 19:14. Íslenska liðið vann þann mun upp en nýtti ekki færi til að komast yfir í stöðunni 21:21 sem var dýrkeypt.

Elísa Elíasdóttir jafnaði aftur í 24:24 þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka og allt stefndi í æsispennandi lokakafla.

Angóla komst hins vegar í 26:24 og þrátt fyrir gríðarlega baráttu þar sem Sandra Erlingsdóttir skoraði tvívegis og skilaði íslenska liðinu jafntefli, 26:26, var það ekki nóg því liðið þurfti eitt mark enn til að komast í milliriðilinn.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson